02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4305 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

259. mál, lausaskuldir bænda

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Þó að þetta frv. sé borið fram sem stjfrv. vil ég lýsa því yfir úr þessum stól vegna fsp. síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Reykv., að frv. hefur ekki verið rætt í þingflokki Alþfl. og til þess hefur ekki verið tekin efnisleg afstaða þar. Ég hygg að það sé einrúg rétt, sem fram gekk af máli hv. 1. þm. Reykv., að hér sé um að ræða frv. sem veiti tiltekin og mikil fríðindi til tiltekins hóps manna á þessu landi. Er auðvitað svo, að fleiri hópar manna hafa miklar lausaskuldir. Launþegar hafa t. d. miklar lausaskuldir og er hægt að hugsa sér að bera fram frv. um að lausaskuldum launþega verði breytt í föst lán eða lausaskuldum atvinnurekenda yfir höfuð að tala.

M. ö. o. held ég að þetta sé eitt af þeim frv. sem á að keyra í gegn á skömmum tíma, en ég hygg að ekki sé rétt að staðið. Frv. þarf að fá mjög góða skoðun áður en að lögum getur orðið. Almennt vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að það verði að vera meira jafnvægi á milli hinna einstöku hópa, réttinda þeirra og forréttinda, en verið hefur. Það eru fleiri einstaklingar í þessu landi en bændur sem eiga við lausaskuldir að etja og gjarnan vildu fá þær yfirfærðar í föst lán.