02.05.1979
Neðri deild: 80. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4312 í B-deild Alþingistíðinda. (3437)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil ekki gera lánsfjáráætlunina eða nál. meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. í heild að umræðuefni hér og nú. Ég vil aðeins taka undir orð hv. 9. landsk. þm., Ólafs G. Einarssonar, og tel sjálfsagt að stjórnarflokkarnir einir beri ábyrgð á því plaggi sem þeir nú leggja fram og ég held að megi lýsa sem nýrri hrollvekju, því að það er sú mynd sem ég fékk í kollinn þegar ég hlustaði á hv. 9. landsk. þm. lýsa lánsfjáráætluninni og því sem blasir nú við íslensku þjóðinni og stjórnarflokkarnir verða einir að hafa höfuðverkinn af.

En það, sem ég vil gera að umræðuefni, er meðferð fjh.- og viðskn. á Ferðamálasjóði og till. ríkisstj. Áður en ný lög um Ferðamálaráð voru sett 1975 eða 1976 runnu ákveðnar tekjur til Ferðamálaráðs, höfðatölugjald af hverjum farþega sem fór um Keflavíkurflugvöll. Tekjur af minjagripasölu, sem þá var á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins, stóðu að mestu undir umfangsmiklum rekstri ferðaskrifstofunnar ásamt þeirri landkynningu sem Ferðaskrifstofa ríkisins hafði þá með höndum. Síðan var þessu fyrirkomulagi breytt á þann hátt, að samið var við samsteypu fyrirtækja og samsteypu framleiðenda sem stofnaði sérstakt hlutafélag um rekstur Fríhafnarinnar. Inn í vöruverð þessarar samsteypu, sem nú tók við rekstri Fríhafnarinnar, gengu þær tekjur sem áður höfðu runnið annars vegar til Ferðaskrifstofu ríkisins og hins vegar til Ferðamálaráðs. Um það var samið, gerður um það sérstakur samningur og undirskrifaður, að 10% af brúttótekjum þessarar nýju fyrirtækjasamsteypu skyldu renna til Ferðamálasjóðs og Ferðamálaráðs. Nú hefur þessu verið breytt.

Hugmyndir ríkisstj. um að skera tekjur til ferðamálanna niður um 48 millj. eru svo fráleitar að þær jafngilda því að leggja Ferðamálaráð niður. Brtt. sú, sem meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. hefur flutt og mun gefa ferðamálaiðnaðinum, ef ég má komast svo að orði, 144 millj. í staðinn fyrir þær 180 sem hann hefði fengið, er þó skömminni skárri, það verður að viðurkenna, og verður líklega til þess að Ferðamálaráð verður þó starfhæft.

Við breytinguna, sem var gerð á lögunum 1975 eða 1976, voru verkefni Ferðaskrifstofu ríkisins færð yfir til Ferðamálaráðs alfarið, þ. e. a. s. landkynningin, rekstur á Ferðaskrifstofu ríkisins í New York og þátttaka í samnorrænum ferðaskrifstofum víða um heim. Ég er því hræddur um að blasi við Ferðamálaráði að draga saman starfsemi sína allverulega ef tekjuskerðing á sér stað. Og ég vil geta þess um leið, að ríkisstj. er að éta upp eigin gullkálf, vegna þess að ferðamálaiðnaðurinn er þriðji mest gjaldeyrisskapandi iðnaður. þjóðarinnar. Við erum að tala um framlag til að gera hann starfhæfan, sem nemur álagningu sem þegar er komin inn í vöruverð, að upphæð 180 millj. kr., en gjaldeyristekjurnar jafnast á við það sem útfluttar landbúnaðarafurðir gefa okkur samtals í gjaldeyristekjur. Ég held að hér sé afskaplega óviturlega að málum staðið. Það kemur þó engum að óvörum, vegna þess að ríkisstj. stendur illa að málum svo víða annars staðar að fólk fer að verða vant því að mistök séu gerð í fjármálum.

Ég vil með því að koma hér upp og taka til máls aðeins undirstrika það, að ég harma þá skerðingu á framlagi til ferðamála og Ferðamálaráðs sem blasir við. Og ég vil líka geta þess, að 10 fyrstu ár Ferðamálaráðs starfaði ráðið kauplaust af áhuga að ferðamálum og uppbyggingu ferðamála til þess að auka skilning þjóðarinnar og ráðamanna þjóðarinnar á gildi ferðamála fyrir hina litlu þjóð okkar, en þótt ferðamálaiðnaður sé gömul iðngrein meðal annarra þjóða er hann ný atvinnugrein hér á landi. Ég undirstrika, að ég harma hvað sú iðngrein á erfitt uppdráttar og hvað tekur langan tíma að hún öðlist þann sess sem henni ber í hugum þeirra sem ráða hverju sinni.