03.05.1979
Efri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4329 í B-deild Alþingistíðinda. (3451)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta nál. vil ég lýsa því yfir, að ég er því algerlega samþykkur. Svo vildi til, að ég var því miður forfallaður í gær og gat þess vegna ekki skrifað undir nál., sem ég hefði að sjálfsögðu annars gert.

Eins og hv. nm. í sjútvn. vita var ég algerlega andvígur frv. um að heimila dragnótaveiði í Faxaflóa og hef raunar lýst því yfir í ræðu úr ræðustól hér í hv. d. Ég tel að afgreiðsla n. sé rétt og það eina sem var hægt að gera í málinu á þessu stigi.

Ég hef ekkert á móti því, að Hafrannsóknastofnun haldi áfram þeim tilraunum sem hún hefur stundað að því er varðar kolaveiðar í Faxaflóa, því að ég held því fram að mjög margt eigi eftir að rannsaka í sambandi við þá fisktegund og veiðislóðir víðs vegar um landið og að við þurfum að efla starf fiskifræðinganna svo að komi fleiri upplýsingar um nytjafiska en hefur verið.

Ég veit að það eru mörg hundruð undirskriftir á listum í gangi enn, sem ekki er farið að afhenda þeirri þn. sem fer með þetta mál. Ég varð var við þessar undirskriftir fyrir nokkrum dögum og að sjálfsögðu munu þær berast.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, að viðhalda eigi þeirri friðun í Faxaflóa sem gerð var og var rökstudd og hefur verið rökstudd með þeirri reynslu sem fengin var áður en friðun var gerð og hefur fengist á þeim tíma sem friðun hefur staðið. Og ég vil benda einu sinni enn á það framtak breiðfirskra sjómanna þegar þeir af sjálfsdáðum gerðu ráðstafanir til að Breiðafjörður að innanverðu, þ. e. frá Skor í Eyrarfjall, yrði friðaður fyrir allri slíkri veiðiaðferð, svo sem netum, dragnót og botnvörpu. Svo hefur verið um langt árabil og hefur örugglega skilað árangri.

Hins vegar get ég ekki stillt mig um að láta koma fram hér þá skoðun mína, að kolinn sé vannýttur á miðunum hér við land. Á þeim svæðum, þar sem dragnót hefur verið heimiluð og hefur verið um langt árabil og verður áfram, er hægt að veiða miklu meira af skarkola en gert hefur verið, — miklum mun meira, það þori ég að fullyrða. T. d. á Breiðafjarðarsvæðinu, þar sem eru ein bestu skarkolamiðin og á þau mið hafa Bretar árum saman helst lagt leið sína til að ná í þann ágæta fisk, er þessi fiskur vannýttur og einvörðungu vegna þess að fiskvinnslustöðvar og söluaðilar í sjávarútvegi hafa ekki haft sérlega mikinn áhuga á þeirri fisktegund á undanförnum árum. Stafar það í fyrsta lagi af lágu verði á heilfrystum kola og eins því, að menn hafa ekki viljað leggja í mikinn kostnað við að koma sér upp flökunarvélum sem eru grundvöllur þess að hin ágæta fisktegund kolinn geti orðið að verulega miklu verðmæti í útflutningi.

Mitt mat er að stuðla eigi að því að gera þessa fisktegund verðmeiri í sjávarútvegi okkar en verið hefur með því að gera fiskvinnslustöðvum auðveldara en verið hefur að eignast flökunarvélar. Er ég í engum vafa um að með því mundum við geta aukið sóknina í kolann mjög verulega og það strax á þessu ári. En ég endurtek, að ég er algerlega samþykkur nál. og lýsi yfir fyllsta stuðningi mínum við það álit sem hér liggur fyrir um að þessu máli verði vísað til ríkisstj.