03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4335 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Um það munu vera nokkuð samdóma skoðanir í landinu, og þá hefur ekki skipt meginmáli hvar á hinum stjórnmálalega „skala“ menn hafa verið staðsettir, að ein meginundirrót verðbólgu á undanförnum árum hafi verið rangar og óhagkvæmar fjárfestingar. Þetta var lykilatriði í samþykktum Alþýðusambandsþings — þess síðasta — árið 1976. Nú er þess skemmst að minnast, að í ræðum forustumanna launþegasamtakanna 1. maí, þar nefni ég sem dæmi Harald Steinþórsson varaformann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, var lögð á það megináhersla að hinn stærsti verðbólguvaldur væri ekki laun og hærri laun og alla vega ekki þeir sem lægst hefðu launin, rótanna væri fyrst og fremst að leita í röngum og óhagkvæmum fjárfestingum. Nú er það auðvitað svo, að almennu viti verður ekki komið á þessi mál fyrr en vaxtastefna er orðin með þeim hætti að menn greiði til baka það sem þeir fá lánað. Það horfir þó til bóta í nýsamþykktu frv. um efnahagsmál sem ríkisstjórnarflokkarnir stóðu að. En allt um það er áreiðanlega einn kjarni málsins að rangar og óhagkvæmar fjárfestingar hafa valdið meira en nokkur einn þáttur annar um þá óhemjulegu og óhemjandi verðbólgu sem hér hefur varað um nokkurra ára skeið. Þar af leiddi að stjórnarflokkarnir voru sammála um 10% niðurskurð til fjárfestingarsjóðanna. Hv. 1. þm. Austurl. gerði þann niðurskurð að umræðuefni í ræðu sinni um þetta mál í gær, sagði það hafa verið skoðun sína að niðurskurðurinn ætti eingöngu að vera 10% og bundinn í hlutfall, en ekki í tölur, eins og gert: er í till. meiri hl. fjh.- og viðskn. Um þetta vil ég segja að ég hygg það ekki rétt mat hjá hv. 1. þm. Austurl., vegna þess að á bls. 16 í skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979, sem afgreidd var af ríkisstj. allri og að mér skilst afgreidd lið fyrir lið, setningu fyrir setningu, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áformað er að festa greiðslu framlaga og markaðra tekjustofna á vegum ríkissjóðs við áætlunartölur fjárlaga.“

M. ö. o. eru þau vinnubrögð, sem hér er lýst, stefna núv. hæstv. ríkisstj. í hinum almennu efnahagsmálum. Munurinn er auðvitað sá, að ef við bindum niðurskurðinn við tölu í ársbyrjun getum við notað stjórnunina á fjárfestingunni til þess að halda verðbólgu í skefjum. Ef við hins vegar bindum eingöngu við hlutfall gefur auga leið að þessar tölur munu fljóta eins og korktappi á vatni fyrir þeirri verðbólguþróun sem þá verður ákvörðuð annars staðar og ekki í fjárfestingarpólitíkinni í landinu. M. ö. o.: þegar hv. 1. þm. Austurl. heldur því fram að það hafi verið með samþykki ríkisstjórnarflokkanna að binda eingöngu við 10% niðurskurð, óháð því hvaða tölur var um að ræða, segi ég að það sé ekki rétt athugað vegna þess sem segir á bls. 16 í skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á þessu ári. Meiri hl. fjh.- og viðskn. hegðar sér því nákvæmlega í samræmi við það sem núv. ríkisstjórnarflokkar höfðu gert samkomulag um, og það er að þessu leyti og að minni hyggju skynsamlegt samkomulag. Hitt er svo annað mál, að það kann vel að vera að ógerlegt reynist á einu sviði, fleiri sviðum jafnvel, að halda fjárfestingu svo í skefjum sem áformað er, að ramminn sé að bresta, að verðbólguskriðan sé að velta út um eitt eða fleiri göt efnahagskerfisins. Mér þótti einmitt ræða hv. 1. þm. Austurl. í gær vera af þeirri verðbólgunáttúru að ekki væri hægt að draga þá ályktun að verið væri að leggja í stríð við þennan vágest, heldur beinlínis að láta undan honum á öllum sviðum.

Ég vil svo segja að lokum, að það er auðvitað illbært og óþolandi ef ákvarðanir um stórlán eins og í orku- og virkjunarmálum eru teknar utan við það frv. sem hér er verið að samþykkja. Það á að vera hinn almenni rammi sem stjórni fjárfestingu í þessu landi. Við erum að reyna að hafa stjórn á verðbólgunni. Verðbólgan á ekki að stjórna okkur. En það f;ann að vera að sá rammi sé allur að bresta. Það er svo sem önnur saga.