03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4342 í B-deild Alþingistíðinda. (3468)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls flutti ég brtt. ásamt hv. þm. Kjartani Ólafssyni um eitt meginatriði frv., en það snertir úthlutun á því fjármagni sem verið er að ráðstafa af svonefndum gengishagnaði. Á meðan ég var fjarverandi frá þingstörfum kom till. okkar til atkv. og var samþ. í d. og þar með gerð breyting á frv. hvað þetta áhrærir. Nú gerir hæstv. sjútvrh. enn tilraun til að fá frv. breytt og í rauninni í áttina til þess sem upphafleg lög gerðu ráð fyrir, þ. e. a. s. brbl., eins og þau voru túlkuð af hans hálfu, en það er í rauninni ekki í fullkomnu samræmi við það sem brbl. sjálf sögðu.

Eitt meginatriði í brbl. var að ákveða að í stórum dráttum skyldi um helmingur gengishagnaðar renna í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Ég hafði lýst — og margir fleiri — stuðningi mínum við þá ákvörðun því að þar með fer sá hagnaður, ef hagnað skyldi kalla, sem til fellur í sambandi við gengisbreytingu í sameiginlegan sjóð þeirra sem hér eiga hlut að máli, þ. e. a. s. útgerðarmanna og sjómanna, og sá sérstaki hagnaður er þá geymdur í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins þar til hann kemur til skipta í sambandi við ákvörðun fiskverðs. Einnig var ákveðið í brbl., að hinum helmingnum skyldi varið til hagræðingar í fiskiðnaði og að nokkru leyti til að styðja við bakið á þeim útvegsmönnum sem töpuðu á sjálfri gengislækkuninni vegna skipakaupalána. Svo var litlum hluta ráðstafað í sambandi við svonefndan Úreldingarsjóð til að gera mönnum kleift að leggja niður gömul skip og hætta rekstri þeirra.

Nú hafði ég veitt því athygli og við sem í n. vorum og fjölluðum um þetta mál, að ekki hafði verið staðið að framkvæmd málsins í samræmi við sjálf lögin. Það var gefin út reglugerð í krafti laganna og í reglugerðinni voru ýmis ákvæði sem alls ekki rúmuðust innan laganna sjálfra sem sett voru. Þannig var tiltekið að hagræðingarlánin gætu gengið til miklu fleiri atriða en til beinnar hagræðingar í rekstrinum. Það er ljóst að samkv. reglugerðinni var hægt að teygja þetta þannig og þegar byrjað á að ráðstafa fjármagninu einnig til skuldagreiðslu, og m. a. s. settar upp sérstakar reglur um það, að þar sem svo hafði staðið á, að frystihús höfðu stöðvað atvinnurekstur sinn, skyldu þau eiga sérstakan forgang á að fá fjármagn af gengishagnaðinum.

Ég tel fyrir mitt leyti að þessi reglugerð sé ekki í samræmi við lögin og eigi ekki stoð í lögunum. Þetta er ekki eina reglugerðin sem nú er farið að setja í krafti laga þar sem komið er inn á alveg nýjan vettvang eða, eins og ég sagði við fyrri umr. um þetta mál, að mér þykir nokkuð vera farið að bera á því að raunar sé farið að setja lög með reglugerð, fara fram hjá löggjafanum og ákveða atriði, sem ekki hafa komið til tals, í reglugerðum, en ætti í rauninni að ákveða með lögum. Ég vildi því fyrir mitt leyti taka af öll tvímæli í þessum efnum og ákveða að tiltekinn hluti af gengishagnaði ætti að renna til hagræðingar, svo mikið sem hefur verið talað um að koma þyrfti á tæknilegum og rekstrarlegum umbótum í þeirri atvinnugrein sem þarna á hlut að máli. Till. sú, sem ég stóð að, var við þetta miðuð. Þar var greinilega tekið fram, að hluta fjármagnsins skyldi varið til hagræðingar og framleiðniaukningar í fiskiðnaði, og tekið fram til enn frekari skýringar: „Lánin skulu fyrst og fremst veitt til kaupa á vélum og tækjum og til að koma upp kældum fiskmóttökum.“ Og enn fremur var sagt í till.: „Óheimilt er að veita lán þessi til greiðslu rekstrarskulda eða annars sem telja verður til venjulegs rekstrar. Endurgreiðsla lána þessara með vöxtum skal renna til Fiskveiðasjóðs Íslands.“

Þegar þetta ákvæði í till. minni er borið saman við lögin sjálf, brbl. sem sett voru, kemur auðvitað í ljós að till. mín er í fullkomnu samræmi við brbl., en þar segir einfaldlega að 50% af þessu fjármagni skuli verja til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði. Það er auðvitað rangsnúningur að telja að það fjármagn sé veitt til hagræðingarframkvæmda eða framleiðniaukningar í einni grein sem varið er að meira eða minna leyti til að greiða upp eldri skuldir eða annað af því tagi sem verður að teljast falla undir rekstur. Eins og ég hafði bent á var till. mín í fullkomnu samræmi við lagasetninguna sjálfa. Nú kemur í ljós að þessi hv. þd. samþykkti þá till. og efni hennar er því komið inn í frv. En þá vill hæstv. sjútvrh. ekki sætta sig við það og flytur enn till. um breytingu á nefndum ákvæðum. Og hvar vill hann þá breyta og hvernig stendur það í samræmi við brbl. sem starfað hefur verið eftir? Hæstv. sjútvrh. segir í till. sinni að 50% skuli veitt til hagræðingar, — við skulum ætla að það sé til lánveitinga, en sé ekki styrkur, og síðan er bætt við: „og til þess að leysa sérstök staðbundin vandamál.“ Og síðar segir í till: „Lánin skulu einkum veitt til tæknilegrar hagræðingar, svo sem til vélakaupa, endurnýjunar á vinnslurásum og til að koma upp kældum fiskmóttökum. Þar sem sérstaka nauðsyn ber til að tryggja atvinnuöryggi, koma í veg fyrir atvinnubrest eða ná fram hagkvæmari rekstrareiningum er þó einnig heimilt að veita lán til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja í fiskvinnslu.“

Ég hef margsinnis áður sagt við hæstv. sjútvrh., og get alveg eins sagt það úr þessum stól, að ég mun styðja hann í því að afla fjár til að vinna að umbótum þar sem komið er upp atvinnuleysi eða aðrir rekstrarlegir erfiðleikar. En við erum með sérstakar lánastofnanir sem eiga að sinna því verkefni að greiða úr þar sem annaðhvort er atvinnuleysi eða um almenn rekstrarleg vandamál að ræða, en það eru Framkvæmdasjóður og Byggðasjóður. Þeir aðilar eiga að grípa inn í og hafa alla aðstöðu til þess að útvega annaðhvort lán eða veita styrki í slíkum tilfellum. En ég hef sagt: Ég er alveg andvígur því að taka svonefndan hagnað, sem kemur út úr gengislækkun, og verja þeim hagnaði til slíkra sérstakra framkvæmda. Það er í rauninni mismunun. Þar er verið að gera ráðstafanir til þess að vissar greinar sjávarútvegsins eða vissir aðilar í sjávarútvegi taki á sig þann vanda sem af því hlýst að það eru komnir upp atvinnuerfiðleikar á einum stað. Skoðun mín er sú, að þjóðin öll eigi að standa að því á beinan eða óbeinan hátt að leysa slík vandamál, en það sé ekki sérstakt vandamál þeirra t. d. sem vinna við sjávarútveg í öðrum landshlutum.

Þó að í brbl. sjálfum segi skýrt og greinilega, að þessa fjárhæð skuli veita til hagræðingarlána, er samt sett reglugerð um að ráðstafa megi þessu fé einnig til annars en þess sem lögin mæltu fyrir um. Og þegar Alþ. hefur tekið undir skoðun mína og breytt lögunum virðist hæstv. sjútvrh. ekki una við það og vill á nýjan leik fá það orðalag inn í frv. að hægt sé að taka á óákveðinn hátt af því fjármagni, sem átti að ganga til hagræðingarlána, til þess að rétta við rekstrarstöðu atvinnufyrirtækja á hinum ýmsu stöðum eftir atvikum. Ég tel þessa málsmeðferð fráleita. Í fyrsta lagi stenst hún ekki sem lög, en hún er líka samkv. eðli málsins óeðlileg. En sjálfsagt er að grípa á því vandamáli, sem hæstv. sjútvrh. hefur í huga, eftir hinum lögskipuðu og eðlilegu leiðum. Það veitir sannarlega ekki af að það fjármagn, sem hér er um að ræða, sé notað til að koma á rekstrarlegum umbótum, koma á tækniumbótum í fiskiðnaði. Því er alveg ástæðulaust að fara inn á þessa braut til þess að ná í fjármagn til mála sem t. d. Byggðasjóður á sérstaklega að sinna. En um það stendur sýnilega nokkur deila.

Það er ákaflega fróðlegt að fá úr því skorið á hv. Alþ. hver er afstaða alþm. til þessa. Eru þeir á þeirri skoðun, að standa eigi þannig að gengislækkunum sem gerðar eru fyrir sjávarútveginn sem heild samkv. almennum röksemdum, að taka svonefndan gengishagnað, sem þá fellur til, og ráðstafa honum ekki til sjávarútvegsins í heild, heldur nota hann til að leysa úr tímabundnum eða staðbundnum atvinnuvandamálum sem koma upp á einhverjum stöðum? Ég er algerlega á móti því. Ég vil halda allt öðruvísi á málinu. Hér er ekki deila um hvort eigi að leysa atvinnuvandamál þessara staða eða ekki, heldur hvernig skuli afla fjár til þess. Ég er því á móti hinni nýju brtt. hæstv. sjútvrh. og mun greiða atkv. gegn henni. Hún miðar að því að fara út fyrir þann ramma sem brbl. settu, því að þau miðuðu við að gengishagnaðarlán ætti að renna til hagræðingarlána. Það er ekkert um að villast. Ég álit því að rangt sé að ætla að breyta þessu ákvæði enn og aftur.

En þá kemur hitt atriðið sem hér hefur einnig komið nokkuð til umr. Í fyrri brtt., sem ég stóð að og samþ. var við 2. umr. málsins, var gengið út frá því að lítill tiltekinn hluti af gengismunarfé skyldi renna, eins og gert var ráð fyrir í brbl., til þess að gera mönnum kleift að losna við gömul og úrelt fiskiskip. Það var að vísu ekki ákveðið nákvæmlega hvað það skyldi vera mikill hluti af heildarupphæðinni, og mér þótti rétt að n. tæki af skarið í þeim efnum og ákvæði hlutfallið. Vorum við, sem stóðum að þeirri till., á því, að eðlilegt væri að þetta fjármagn rynni í sjóð sem stofnaður hefur verið og allir fiskiskipaeigendur í landinu greiða til og eiga rétt á að fá greiðslur úr þegar þeir ætla að leggja af skip sín vegna aldurs eða vegna þess að þau séu orðin ónothæf. Það hefur verið myndaður sérstakur Aldurslagasjóður hjá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, og sýndist augljóst mál að þessi fjárhæð ætti að renna í þann sjóð sem starfar samkv. lögum, en ekki yrði farið að hrúga upp öðrum sjóði við hliðina á honum til þess að annast nákvæmlega sama verkefnið. Það kom líka í ljós að hv. þd. féllst á þetta sjónarmið og samþykkti að fjármagnið skyldi renna í Aldurstagasjóð. En ég sé líka að hæstv. sjútvrh. er á því að halda eigi þessu fjármagni alveg aðgreindu frá þeim sjóði, sem stofnaður hefur verið, og úthluta því sérstaklega. Hvað þýðir þetta í raun og veru? Þetta þýðir að aðili, sem ætlar að hætta að reka skip af því að það er orðið gamalt og úrelt, þarf að sækja fyrst til Aldurslagasjóðs, sem settur hefur verið á fót, og sækja um ákveðinn styrk eða greiðslur úr honum, en svo þarf hann einnig að sækja til hins nýja sjóðs sem úthlutar því fjármagni sem hér er um að ræða til sama verkefnis. Auðvitað sjá allir að þetta eru óeðlileg vinnubrögð. Það eru í hæsta lagi óeðlileg vinnubrögð að standa svona að málum. Ég get ekki séð annað en að í till. hæstv. sjútvrh. felist að hann beri ekki traust til þeirra sem hafa með framkvæmd Aldurslagasjóðs að gera, það sé ekki hægt að láta þetta fjármagn renna til þeirra og gera ráð fyrir að því verði úthlutað úr Aldurslagasjóði eftir þeim reglum sem þar gilda, en hann trúi því að féð fari aðeins rétta leið ef tiltekin úthlutunarnefnd, sem hann hefur skipað, úthluti því. Þetta eru líka óvenjuleg vinnubrögð og ég fyrir mitt leyti skil þau ekki og sé ekki ástæðu til að styðja till. í þessa átt.

Ég hef ekki heldur heyrt nein frambærileg rök um hvernig á því stendur að hæstv. ráðh. vill koma á fót sérstakri deild og úthluta fénu sérstaklega. Ef menn væru ekki fyllilega ásáttir um þær reglur sem gilda hjá Aldurslagasjóði fiskiskipa væri vitanlega best að snúa sér að því að breyta þeim reglum, en ekki fara að setja upp aðra stofnun við hliðina á Aldurslagasjóði til þess að fást við sama verkefnið. Af þessari ástæðu mun ég einnig greiða atkv. á móti þessum lið í till. hæstv. sjútvrh.

Þá kemur brtt. frá hæstv. sjútvrh. um sama efni og nokkrir þm. höfðu áður flutt till. um. Fyrir lá till., þar sem 1. flm. var hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, um að hafður yrði á svipaður háttur nú og oft áður, að nokkrum hluta af því fjármagni, sem er um að ræða af gengishagnaði, yrði varið til beinna hagsmunamála sjómanna. Ég hafði lýst yfir stuðningi mínum við þá till., tel hana mjög eðlilega. Ég verð líka að segja, að ég treysti mér ekki til að styðja þá till. sem hæstv. sjútvrh. flytur um sama efni. Hún gengur mun skemmra. Ég sé enga ástæðu til að skera framlög þessi niður. Þvert á móti hefði mátt vera um frekari fjárframlög að ræða, en ekki minni. Afstaða mín er því sú, að ég styð þá till. sem er á þskj. 430, en ég er á móti þeirri till., sem hæstv. sjútvrh. flytur um þetta sama efni því að hún gengur mun skemmra og ég sé ekki ástæðu til þess. (Gripið fram í: Það er búið að fella hina.) Nú, er búið að fella hina? Þá hefði átt að endurflytja hana. Segja má auðvitað að till. ráðh. sé betri en ekkí ef engin önnur till. liggur fyrir. En ég hafði, eins og ég sagði, lýst yfir afstöðu minni til fyrri till. Ég taldi hana mjög sanngjarna og hefði auðvitað greitt henni atkv. ef ég hefði verið nærstaddur.

Ég þarf í rauninni ekki að lengja mál mitt öllu meira, vegna þess að þó að nokkuð sé langt um liðið hafði ég rætt málið allítarlega á fyrra stigi þess og lagði þá megináherslu á að gæta þyrfti þess vel hvernig á að skipa málum eins og þessum, sem snerta ráðstöfun á gengishagnaði. Það er engin sanngirni í því að ráðstafa svonefndum gengishagnaði, sem til fellur, öðruvísi en þar sé um að ræða ráðstöfun til hagsbóta fyrir atvinnugreinina sem heild. Það á ekki að nota það fjármagn til einhverra sérverkefna sem er eðlilegt að leysa eftir öðrum leiðum. Auk þess ber svo að gæta þess, að ekki séu settar reglugerðir sem fela í sér lagaákvæði og eru ekki í samræmi við þau lög sem reglugerðin er sett eftir.

Ég hef lýst afstöðu minni til þeirra till. sem hér liggja fyrir. Ég get ekki fyrir mitt leyti stutt þær till. sem hæstv. sjútvrh. flytur, því að þær eru í andstöðu við það sjónarmið sem ég hef lýst og ég hef margsinnis áður tekið fram að ég hef í málum hliðstæðum þessu.