03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4346 í B-deild Alþingistíðinda. (3469)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, 1. þm. Austurl., sagði að hann væri á móti því að gengishagnaði yrði varið til þess að leysa staðbundin vandamál. En í samstarfsyfirlýsingu núv. stjórnarflokka segir þó einmitt svo í kaflanum um efnahagsmál og fyrstu aðgerðir, að gengishagnaði af sjávarafurðum verði ráðstafað að hluta í Verðjöfnunarsjóð, að hluta til útgerðar vegna gengistaps og loks til hagræðingar í fiskiðnaði og til að leysa sérstök staðbundin vandamál. Það er í samræmi við þessa stefnu í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna sem hefur verið starfað, og það er líka í samræmi við þá stefnu sem sú brtt. er samin sem hér liggur fyrir og er samin í samráði og fullri samvinnu við hv. þm. Kjartan Ólafsson, eins og ég gat um áðan, sem er 2. flm. að þeirri brtt. sem samþ. var við 2. umr. Varðandi það, að sá sérstaki sjóður, sem eigi að greiða fyrir því að útgerðaraðilar geti hætt rekstri úreltra fiskiskipa, hafi orðið til með einhverjum sérstökum hætti, vil ég upplýsa að til sjóðsins var stofnað að höfðu samráði við Landssamband ísl. útvegsmanna, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Sjómannasamband Íslands. Skoðun þessara aðila kemur t. d. fram í bréfi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem ég vil leyfa mér að lesa úr:

„Með tilvísun til þess, að bætur Aldurslagasjóðs eru bundnar með reglugerð og reyndar með lögum ákveðinni krónutölu á rúmlest skips, er nauðsynlegt að binda ekki bætur af gengismunarfé með sama hætti. Nokkur sveigjanleiki er nauðsynlegur þegar semja þarf við skipseiganda um hvort hann leggur skipi sínu eða lætur framkvæma meiri háttar lagfæringar á skipinu.“

Það er í samræmi við þetta sjónarmið sem sjóðsstofnun hefur átt sér stað. Hins vegar hef ég lýst því yfir áður að ég telji eðlilegt til lengri tíma lítið, og þá með tilliti til þess að endurskoða þau ákvæði sem gilda um Aldurslagasjóð, að sjóðirnir tveir verði sameinaðir þannig að hér verði um sameiginlegan sjóð að ræða.

Í þá nefnd, sem hefur með þetta að gera samkv. reglugerð, hafa verið skipaðir fulltrúar frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, frá Sjómannasambandi Íslands, frá Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, frá Fiskveiðasjóði og einn fulltrúi sjútvrn. Þarna er því ekki um neina sérstaka pólitíska úthlutunarnefnd að ræða, eins og gefið var í skyn.

Að því er varðar annan liðinn og þá fsp. sem kom fram frá hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, fer sú úthlutun auðvitað fram samkv. reglum sem stjórn Fiskveiðasjóðs setur, þó að það standi ekki sérstaklega hér, og að því er varðar 1. liðinn er eingöngu um lán að ræða, eins og reyndar kemur fram í framhaldi setningarinnar sem fjallar um það mál, þó að ekki komi fyrir orðið „lán“ í fyrstu setningu þess liðar.

Þetta vildi ég að kæmi fram vegna þeirra fsp. sem bornar höfðu verið fram.