03.05.1979
Sameinað þing: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4356 í B-deild Alþingistíðinda. (3476)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þáltill. um vegáætlun fyrir árin 1979–1982 er nú til umr. og hæstv. samgrh. hefur talað fyrir því máli í hv. Sþ. Ég ætla ekki að taka langan tíma nú í umr. um málið, en ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég vil láta koma fram fyrirvara í sambandi við hvernig skiptingin á vegafénu er hugsuð miðað við till., þ. e. a. s. að af þessu litla fjármagni, sem mun vera 4 milljarðar 280 millj., er áætlað að taka í bundin slitlög og sérstök verkefni um 1.5 milljarða.

Eins og kom fram hjá hæstv. ráðh. hefur það fjármagn, sem er ætlað í nýbyggingar, farið á undanförnum árum og fer enn minnkandi að framkvæmdamætti. Eins og þessi mál eru víða úti um land er erfitt að taka af svo litlu fjármagni í sérstök verkefni. Við verðum að fara að fjármagna þau með einhverjum öðrum hætti en á vegáætlun, nema þá að fá mjög mikið aukið fjármagn, langtum meira en þessi fjögurra ára áætlun ber með sér. Það er þannig með vegina víða, að ekki má dragast að taka á þeim málum með meiri krafti en hefur verið fram til þessa.

Hv. síðasti ræðumaður komst þannig að orði, að við værum að verða vanþróaðir í vegamálum. Ég hef litið þannig á að við höfum alltaf verið það, a. m. k. miðað við vegi sem sjá má í nágrannalöndunum. Held ég að samanborið við nágranna okkar sé ekki hægt að hafa annað orð yfir samgöngumál en við höfum verið og séum vanþróaðir á því sviði. Ég átti þess kost að skoða vegakerfið í Færeyjum á s. l. sumri, og miðað við þá næstu nágranna okkar erum við langt á eftir í samgöngumálum.

Við erum sammála um að við verðum að fara með gætni í sambandi við erlendar lántökur. En ég vil hiklaust halda því fram að við eigum ekki annars kost, ef við ætlum að koma vegum okkar í sómasamlegt horf, en huga að því að taka ákvarðanir um erlend lán til vegaframkvæmda. Sérverkefni verður að fjármagna eingöngu, eins og nú horfir, með því móti. Og ég er ekkert hræddur við það, því að ég held, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., að það fjármagn skili sér í raun og veru aftur.

Það er nú þannig ástatt t. d. í því kjördæmi, sem ég og hv. síðasti ræðumaður erum fulltrúar fyrir, að liggur við stórslysum á hverju einasta ári vegna snjóflóða. Eftir því sem ég kemst næst er ekki hugsað á þessu sumri að það sé einu sinni hafin sú framkvæmd sem verður að gera til þess að fyrirbyggja að slíkt komi fyrir. Ég held að talið sé af kunnugum að ekki hafi munað nema kannske mínútu að snjóflóð lenti á bifreið núna í vor, og þannig hefur verið vor eftir vor. Við verðum því að vænta þess að sá hættulegi vegarkafli hafi forgang til þess að ekki hendi þar stórslys.

Það er alveg rétt, að það þarf bundið slitlag, og er enginn vafi á að við verðum að huga meira að því. En við verðum fyrst að byggja vegina upp, áður en við setjum slitlag á þá. Þannig er nú víða að eftir er að byggja vegi upp. Verður það a. m. k. að ganga fyrir í flestum landshlutum, nema þá í nágrenni Reykjavíkur.

Ég vil sem sagt hafa fyrirvara með þessa liði, þ. e. a. s. hin sérstöku verkefni, á meðan við treystum okkur ekki til að finna meira fjármagn í vegagerð okkar.