03.05.1979
Sameinað þing: 87. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4357 í B-deild Alþingistíðinda. (3477)

285. mál, vegáætlun 1979-82

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að ítreka það sem kom fram í ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e., að sú till. til þál., sem hér er til umr., er óþægilega seint fram komin. Það er í raun og veru svo, að ákaflega erfitt er að una því - í þetta skipti og stundum áður á liðnum árum - að till. til þál. um vegáætlun skuli koma fram á þeim tíma sem nú gerist. Að öllu eðlilegu ætti Alþ. að ljúka innan fárra daga. Hvort svo verður eða hvort þetta þing situr meginhlutann af sumrinu skal ég engu um spá, en hvað sem því líður veit ríkisstj. og Alþ. að þetta þing þarf að afgreiða nýja vegáætlun. Það er þess vegna ekki ónóg vitneskja um það, sem fyrir dyrum stendur, sem veldur því að þetta þskj. kemur svo seint fram sem raun ber vitni. Hér er um óþolandi vinnubrögð að ræða. Og þó að það hafi stundum gerst fyrr að till. til þál. um vegáætlun hafi komið seint fram er það ekki til að bæta þetta mál. Hér verður að skipta um vinnubrögð. — Ég skal ekki ræða þetta í löngu máli, en mér er útilokað að láta fyrri umr. um till. til þál. um vegáætlun fara fram svo að ég láti ekki í ljós mjög sterka óánægju yfir því hvað þskj. er seint fram komið.

Fyrir liggur vinna fjvn. og Alþ. að máli þessu, sem oft hefur reynst tafsöm og viðkvæm. Mig uggir að svo kunni einnig að fara nú. Vitað er að í raun og veru eru tengd þessu máli stórkostleg deilumál. Allt kann það að verða til að tefja afgreiðslu málsins svo úr hömlu að það eigi sinn þátt í því að lengja þetta Alþ., hver veit hversu lengi. Auk þess, sem er að vísu annars eðlis, en er þó rök í þessu máli, er það, að starfsmönnum Vegagerðar og þeim, sem eiga að sinna framkvæmdum í vegagerð, ríður á að fá að vita áður en komið er langt fram á sumar hvaða verk á að vinna á hverju ári. Það ætti einnig að ýta eftir því að mál af þessu tagi séu ekki borin fram á Alþ., eins og nú gerist, í maímánuði. Þó að ekki verði úr bætt að þessu sinni og ég telji í rauninni að slys hafi orðið í vinnubrögðum að þetta þskj. er ekki löngu fram komið, vil ég beina því sérstaklega til hæstv. ráðh., að þegar till. til þál. um vegáætlun verður endurskoðuð, ef hann situr þá enn í þessu sæti, verði málið borið fram á skaplegri tíma en nú er gert.

Það má segja, að hverju sinni sem ný ríkisstj. sest að völdum veki það nokkra forvitni hjá landsfólkinu hvernig hím muni haga störfum sínum. Það vekur einnig nokkra eftirvæntingu þegar nýr samgrh. sest að völdum, hvernig hann hyggst marka spor sín, t. a. m. við framkvæmdir í vegagerð. Hæstv. ráðh. sagði í ræðu sinni áðan, að hann teldi nauðsynlegt að marka í vegamálum nýja stefnu og það þyrfti að auka framkvæmdafé. Undir þessi orð hæstv. ráðh. vil ég heils hugar taka. Það er á hinn bóginn næsta ömurlegt, að í sama mund sem hæstv. ráðh. mælir þessi orð, sem gætu út af fyrir sig gefið góð fyrirheit, er hann að mæla fyrir till. til þál. nm vegáætlun sem felur í sér að framkvæmdafé til vegagerðar verði á þessu ári minna en verið hefur um mjög langt skeið og allt að 18% minna að framkvæmdamætti en var á síðasta ári, og var það ár þó mjög neðarlega í röð margra ára hvað framkvæmdir í vegamálum snertir. Þetta kalla ég ömurlegt, og sannarlega er hæstv. ráðh. ekki öfundsverður af. Það leyndi sér ekki heldur vonbrigðatónninn í ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar áðan, þar sem hann sá sig knúinn til að koma hingað í ræðustólinn og hafa fyrirvara um skiptingu þess litla fjár sem um er að ræða í tillögunni.

Hæstv. ráðh. gat þess, að till. gerði ráð fyrir að á árunum 1980–1982 yrði framkvæmdafé aukið og væntanlega kæmi þar fram hin nýja stefna um að stórauka framkvæmdafé, en ekki var þó meira en svo að það næði meðaltali framkvæmdamagns tíu ára eða svo aftur í tímann. Ekki var hærra á því risið. Það hefur hér verið gerð grein fyrir því af hv. þm. Lárusi Jónssyni, að þessar tölur eru settar á blað með því að stórhækka markaða tekjustofna án þess að gert sé ráð fyrir að fastur kostnaður Vegagerðarinnar, t. a. m. að því er varðar stjórn og undirbúning, hækki um eina krónu á árunum 1980–1982. Spyrji nú hver sjálfan sig: Er þetta líklegt? Auðvitað er hægt að fá út nokkra hækkun á framkvæmdafé með svona uppsetningu, en ég verð að segja að mér finnst ekki líklegt að svo verði í raun.

Hér var gerð grein fyrir því af hálfu hv. þm. Lárusar Jónssonar, hvernig fer með ríkisframlögin til vegagerðar. Svo ég víki örlítið nánar að því máli en fram kom í ræðu hans er gert ráð fyrir í vegáætlun, sem samþ. var á Alþ. 29. mars 1977, — takið eftir þessari dagsetningu, — þar sem afgreidd var vegáætlun fyrir árin 1977–1980, að framlög ríkisins til vegagerðarinnar yrðu t. a. m. á árinu 1978 900 millj. kr., á árinu 1979 793 millj. kr. og á árinu 1980 815 millj. kr. Eitt ár er liðið af þeim sem ég hef nefnt, þ. e. 1978, og þá urðu ríkisframlög ekki 900 millj. kr., heldur 1300 millj. kr. eða höfðu verið aukin um 400 millj. kr., m. a. til þess að mæta verðlagshækkunum sem höfðu orðið frá því að vegáætlun var samþ. 1977. Í þeirri till., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að ríkisframlag verði á þessu ári 522 millj. kr. í stað 793 millj. kr. sem gert var ráð fyrir þegar vegáætlun var samþ. 1977, eða 270 millj. lægri tala! Og á árunum 1980–1982 virðist ekki gert ráð fyrir neinu ríkisframlagi! Þetta sýnir í fyrsta lagi að framkvæmdir í vegamálum og kostnað við Vegagerð ríkisins virðist eiga á næstu árum að bera uppi alfarið af mörkuðum tekjustofnum annars vegar og lánsfé hins vegar, en ríkissjóður leggi enga krónu fram. Þetta gerist í sama mund sem verðbólga hefur geisað áfram, sem tekjur ríkissjóðs af bensíni og olíum, af bifreiðum og varahlutum og vörum til bifreiða og annars til umferðarinnar vaxa stórkostlega, sem ætti auðvitað að gefa tilefni til þess að ríkissjóður legði fram aukinn hlut, en drægi ekki alveg að sér höndina, eins og hér virðist gert ráð fyrir. Þetta sýnist mér vera ömurleg staðreynd og ömurlegur kapítuli í þeirri till. sem hér er á dagskrá.

Ég held að það sé ekki ofmælt, að mikil nauðsyn sé á að stórauka framkvæmdafé í vegamálum, og get tekið undir það, sem fram kom hjá tveim síðustu ræðumönnum, að við Íslendingar erum orðnir næsta vanþróaðir í þeim framkvæmdaþætti miðað við það sem gerist hjá ýmsum nálægum þjóðum. Það er hins vegar svo, að ekki þýðir að láta sitja við orðin tóm í þeim málum. Nú vill svo til, að tveir þingflokkar hafa flutt till. til þál. um stórframkvæmdir í vegagerð. Þar á ég við þm. úr Sjálfstfl. annars vegar og þm. úr Framsfl. hins vegar. Ætla mætti að þessi tillöguflutningur gæfi tilefni til þess að auðveldara reyndist fyrir hæstv. samgrh. að fá fjármagn til vegagerðar, sem ég efast ekkert um að hann hefur fullan hug á, en það plagg sem hér liggur fyrir virðist gefa tilefni til.

Ég tel að það sé góðra gjalda vert sem gert er í því að leggja til nokkuð aukið fjármagn til viðhaldsins. Það er ljóst að viðhaldi þeirra vega, sem byggðir hafa verið upp, er verulega ábótavant, í mörgum tilvikum vegna fjárskorts. En sumir þeirra eru þó þess háttar hvað umferðarþunga snertir, að svo virðist sem malarviðhald dugi varla lengur og þess vegna sé, þar sem malarvegir eru fjölfarnastir, naumast undankomu auðið að leggja á þá svokallað bundið slitlag. Ég vil minna á að á síðasta ári var varið af hálfu Vegagerðarinnar nokkru fé til tilraunaslitlags sem lagt var á þrjá kafla á vegum hér á landi. Ég geri ráð fyrir að enn þyki ekki nægileg reynsla komin á hvernig það reynist, og er víst að sú tilraun þarf að standa miklu lengur. En ég held að full ástæða sé til að nota nokkurt fjármagn til slíkra tilrauna á þessu ári og næstu árum eins og gert var í fyrra og það verði þá gert með þeim hætti að leggja slíkt tilraunaslitlag á vegi þar sem komið er að því að hvort eð er þarf á viðhaldi að halda. E. t. v. mætti drýgja að nokkru tilraunafé með því að taka hluta af viðhaldsfénu til þessara nota. Mér sýnist að enn sem komið er gefi þessir tilraunablettir allgóðar vonir, og eins og kemur fram í skýrslu um framkvæmd vegáætlunar frá síðasta ári var þó aðeins lagt annað af tveimur slitlögum sem eiga að fara hvert ofan á annað á tilraunablettum þessum. Hér eru um miklu ódýrari framkvæmdir að ræða en að leggja olíumöl eða malbik, og mér sýnist full ástæða til að athuga að verja nokkru fjármagni svo að unnt sé að halda áfram á sömu braut.

Ég skal ekki lengja ræðu mína, herra forseti. Ég tel fulla ástæðu til að umr. ljúki í dag, svo unnt sé að vísa hinni síðbúnu till. til n. og taka til við hana þar af fullum krafti. Ég kom upp í ræðustól e. t. v. fyrst og fremst til að láta í ljós megna óánægju mína yfir því, hvað þskj. er síðbúið, — þskj. sem á eftir að leggja í mikla vinnu sem við þekkjum sem að því höfum starfað á undanförnum árum að er bæði vandasöm, viðkvæm og tímafrek. Ég vonast til, að það heyri til undantekninga í framtíðinni að till. til þál. um vegáætlun verði borin fram í maímánuði, og bendi enn á að þáltill. fyrir árin 1977–1980 var samþ. á Alþ. 29. mars 1977 og endurskoðun á þeirri till. fyrir árið 1978 var samþ. á Alþ. 25. apríl 1978. Bæði þau ár, sem ég er með í huga, hefur tillögugerðin verið í allt öðru og betra lagi, og er sannarlega illt að nýr samgrh., sem nú er hæstv. ráðh. Ragnar Arnalds, skuli byrja feril sinn á þessu sviði með svo síðbúinni vegáætlunartill. sem hér liggur fyrir.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt, herra forseti. Ég veit ekki hvort mér auðnast að verða viðstaddur þegar till. kemur til síðari umr. Enginn veit hvort það verður í þessum mánuði eða hinum næsta, eða kannske þar næsta, ef miðað er við hvernig þingstörfum hefur verið háttað á hv. Alþ. þingið 1978–1979.