07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4384 í B-deild Alþingistíðinda. (3487)

357. mál, utanríkismál

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir lipurð hans að gefa mér nú orðið, en vegna þess að mér var ekki kunnugt um að fundur yrði í kvöld er óvíst og raunar ekki útlit fyrir að ég geti setið þann fund og því kýs ég að svara með örfáum orðum þeim orðum sem til mín hefur verið beint í umr. Ég mun lítið sem ekkert fjalla um skýrsluna almennt. Það munu a. m. k. tveir fulltrúar af hálfu okkar sjálfstæðismanna gera. Hv. þm. Friðjón Þórðarson hefur þegar gert almenna grein fyrir viðhorfum okkar til skýrslunnar, og hv. þm. Matthías Bjarnason mun sérstaklega ræða um hafréttarmálefni.

En ég held að það fari ekki milli mála að ræða síðasta ræðumanns, hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sé dæmigerð um nauðsyn þess að lyfta umr. um utanríkismál á hærra stig. Þvílík lágkúra sem sú ræða bar vitni um heyrist einna helst frá Alþb.-mönnum hér á þingi, en ég hygg að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hafi jafnvel slegið fyrra met þeirra Alþb.-manna á þessu sviði.

Tilefni ummæla um för mína til Bandaríkjanna er það, að á nýafstöðnum landsfundi Sjálfstfl. urðu orðaskipti milli mín og mótframbjóðanda míns í sæti formanns Sjálfstfl. Ég býst við að vonbrigði þeirra Alþb.-manna með þau úrslit, sem urðu á landsfundinum, hafi verið slík að þeir geti ekki hamið skap sitt. En ég get vel sagt hv. þm. frá því, að ég hlaut þá gagnrýni á landsfundi af hálfu mótframbjóðanda míns m. a. að hafa farið af landi brott kl. 6 að kvöldi kosningadags til sveitarstjórna, og var brottför minni svo seint á kosningadegi jafnvel kennt um kosningaósigur flokksins í Reykjavík, og enn fremur var ég gagnrýndur fyrir að hafa verið of samvinnuþýður við framsóknarmenn í fyrri ríkisstj. Í tilefni þessa gat ég um að ég hefði talið mér skylt sem forsrh. landsins að láta skyldustörf fyrir landsmenn alla ganga fyrir skyldustörfum fyrir flokksmenn mína eina. Hér var um leiðtogafund Atlantshafsbandalagsríkjanna að ræða, en leiðtogafundur er fundur forsrh. og forseta þar sem hann fer með framkvæmdavaldið sem höfuð ríkisstj. Þess vegna vil ég undirstrika að í því fólst ekki vantraust á utanrrh. þótt ég í tengslum við gagnrýni á samvinnu mína við framsóknarmenn í fyrri ríkisstj. hefði látið þau orð falla, að væntanlega hefðu menn ekki óskað eftir því fremur að ég fæli framsóknarmanni að fara með þetta hlutverk forsrh. Sannleikurinn er sá, og ég held að á því leiki enginn vafi, að ég treysti auðvitað Einari Ágústssyni langtum betur en þeir Alþb.-menn, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, treysta núv. hæstv. utanrrh. Benedikt Gröndal.

Það hafa blandast inn í þessar umr. og sýnir best lágkúruna hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni er hann með drambi og rembingi beinir fsp. til mín varðandi þátttöku mína í svokölluðum Bilderberg-fundum og spyr hvað þar hafi gerst. Ég get fullvissað hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson um að þar er ekkert minnst á Ólaf Ragnar Grímsson, og ég get honum til enn frekari hugarhægðar sagt að þar eru engar ályktanir gerðar eða ákvarðanir teknar. Þetta er fundur sem haldinn er árlega og til hans er boðað eftir því hvaða málefni eru á dagskrá. Yfirleitt er gefin út fréttatilkynning um hverjir taka þátt í hverjum fundi og hvaða málefni eru á dagskrá. En hins vegar er tilgangur fundanna einmitt sá, að menn geti í frjálslegum skoðanaskiptum sín á milli rætt í fullri einlægni um vandamál líðandi stundar, skipst á upplýsingum og skoðunum án þess að ákvarðanir séu teknar. Þess vegna er talið nauðsynlegt að þátttakendur geti rætt frjálst og óháð um þau efni án þess að flennifyrirsagnir komi í blöðum þótt menn ræði þar um mál sem ekki eru komin á ákvörðunarstig.

Í þessu sambandi skal ég geta um að forsrh. og aðrir ráðh. allra vestrænna ríkja hafa tekið þátt í þessum fundum og þeir hafa mér vitanlega ekki verið krafðir um neinar skýrslur um hvað gerist á slíkum fundum. Menn hafa persónufrelsi, ferðafrelsi og skoðanafrelsi hvort sem menn eru ráðh. eða leiðtogar stjórnarandstöðu, og það er algerlega út í hött að krefja menn um hvað gerist hvarvetna þar sem menn koma saman. Ég held að ekki sé unnt að gera þá kröfu, hvorki til núv. ráðh. né fyrrv. ráðh., að þeir segi frá öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur. Það er verið að setja einhvern samsærisstimpil á slíkar samkomur. Það er fjarri lagi. Með sama hætti er hægt að gera ráð fyrir samsæri á hvaða öðrum samkomum sem eru sem ekki fara þannig fram að umr. á þeim eru ekki birtar í fjölmiðlum eða fulltrúar fjölmiðla hafa ekki heimild til fundarsetu. Ég held í sannleika sagt að það sé sorglegur vottur um vanmeta- og minnimáttarkennd sem kemur fram í orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að menn geti ekki umgengist erlenda menn á jafnréttisgrundvelli, haft af því gagn og fróðleik að ræða við þá og jafnvel gert sínu eigin landi gagn um leið.

Þessi minnimáttar- og vanmetakennd kemur alveg skýrt og greinilega fram í því þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, og raunar hæstv. viðskrh. Svavar Gestsson af öðru tilefni á þingi, gagnrýnir að Mondale varaforseti Bandaríkjanna óskaði eftir að ræða við mig þegar hann var hér á ferð fyrir nokkrum vikum. Ég held að það sé ekkert óvenjulegt að valdamenn, sem eru í heimsókn í öðrum ríkjum, ræði gjarnan við leiðtoga stjórnarandstöðu í viðkomandi ríkjum. Ég held að það sé mjög venjulegur háttur í dagskrá slíkra manna í heimsóknum þeirra í öðrum löndum.

Svo vildi til, að við Mondale varaforseti höfðum átt viðræður þegar hann hafði viðkomu hér á landi í ferð sinni frá París til Japans og á þeim viðræðufundi var m. a. rætt um samvinnu Bandaríkjanna og Íslands varðandi varnarstöðina og byggingu flugstöðvar, aðskilnað varnarstöðvar og almenns flugs, eins og unnt væri að koma í framkvæmd. Þær viðræður og margar fleiri, sem á eftir fóru og hæstv. þáv. utanrrh. og stundum ég tókum þátt í, leiddu svo til þess að fyrir liggur yfirlýsing frá Bandaríkjamönnum um að þeir séu reiðubúnir til að taka þátt í byggingu slíkrar flugstöðvar. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson nefndi að í því væri fólgin aronska, — er það ekki rétt með farið? (ÓRG: Sömu ættar.) — eða sömu ættar. Ég vil mótmæla því og benda á að Alþb. lét sér lynda að Bandaríkjamenn kostuðu alfarið lengingu flugbrautanna á Keflavíkurflugvelli í fyrri vinstri stjórn þessa áratugs og gerðu það ekki að fráfararatriði í þeirri ríkisstj. Forsendan fyrir því var að Bandaríkjamenn höfðu gagn af lengingu flugbrautanna. Forsendan fyrir þátttöku Bandaríkjamanna í byggingu flugstöðvarinnar er auðvitað sú hin sama, að þeir hafa hag af því að aðskilja varnarsvæðið sjálft því svæði sem almenn flugstarfsemi fer fram á að svo miklu leyti sem slíkt er unnt. Þarna er um gagnkvæma hagsmuni að ræða og á grundvelli þeirrar gagnkvæmni er ekki óeðlileg sameiginleg þátttaka í útgjöldum vegna framkvæmda. Þar eru mörkin sem ég set. Ég tel að við eigum ekki undir neinum kringumstæðum að vera fjárhagslega háðir varnarliðinu eða Bandaríkjamönnum, þannig að við getum, hvenær sem við teljum það tímabært, tekið ákvörðun um að varnarliðið fari af landi brott og fjárhagslegir hagsmunir séu þá ekki ákvörðunarástæða fyrir frekari dvöl bandarísks varnarliðs, heldur eingöngu öryggishagsmunir Íslands.

Í þessu sambandi vil ég bæta við, að það er ólíku saman að jafna hvort Norðmenn hafa erlent varnarlið í landi sínu og við, vegna þess að Norðmenn hafa eigin her sem getur innt af hendi á friðartímum það hlutverk sem bandaríska varnarliðið innir af hendi hér á landi.

Það er svo rétt að ég notfæri mér ekki um of eða misnoti ekki leyfi hæstv. forseta, og vil ég því fara að ljúka máli mínu. En að lokum vil ég minna á að gefnu tilefni af orðum hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að sannleikurinn er sá, að Íslendingar eru ekki svo klofnir í utanríkis- og varnarmálum sem hann vildi vera láta í ræðu sinni. Sannleikurinn er sá, að tekist hefur mjög víðtæk samstaða einmitt í utanríkis- og varnarmálum. Ekkert sýnir þá samstöðu í raun og veru betur en sú staðreynd að Alþb.-menn taka þátt í myndun ríkisstj. í fyrsta sinn án þess að gera að skilyrði að varnarliðið hverfi af landi brott eða neitt sé á það minnst. Alþb. menn gera sér nefnilega grein fyrir að samstaða er fyrir hendi meðal íslensku þjóðarinnar um að tryggja öryggi sitt og sjálfstæði og þeir þorðu ekki að gera þetta að ásteytingarsteini við stjórnarmyndun þegar núv. ríkisstj. var mynduð. Það er fleipur er hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson þykist berja sér á brjóst og vera andstæðingur varnarstöðvarinnar. Honum er það ekkert ofarlega í huga. Hann er að reyna að halda þeim örfáu atkv. sem eru þess sinnis að varnarliðinu beri að vísa af landi brott, — reyna að halda þeim innan vébanda Alþ. svo að klofningsflokkar rísi ekki upp á vinstri væng Alþb. En hann meinar ekki nokkurn skapaðan hlut annan með orðum sínum. Hann er reiðubúinn að vinna í ríkisstj., bæði þeirri sem nú situr eða jafnvel með Sjálfstfl. í framtíðinni, og leggja þetta ágreiningsefni til hliðar. — En innan sviga vil ég geta þess, að það er eftir að vita hversu fýsileg slík stjórnarsamvinna er fyrir Sjálfstfl.

Þetta er sannleikurinn í málinu. Á því er vakin sérstök athygli í ályktun landsfundar Sjálfstfl. um utanríkismál, að við myndun núv, ríkisstj., þriðju vinstri stjórnarinnar síðan 1944, hefur verið ákveðið að fylgja óbreyttri meginstefnu í utanríkismálum. Það er í fyrsta sinn sem . slík stjórn hefur ekki að markmiði að slíta varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Þessi staðreynd sýnir að stefna sú, sem Sjálfstfl. hefur haft frumkvæði um að marka, nýtur æ víðtækari viðurkenningar eftir því sem betri yfirsýn og reynsla hefur fengist. Sú stefna, sem Sjálfstfl. hefur markað í utanríkismálum og núv. ríkisstj. fylgir enn í höfuðatriðum, hefur í raun tryggt sjálfstæðið og þjóðinni full yfirráð yfir auðlindum sínum.