07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Því miður er hæstv. forsrh. ekki á landinu, þar sem hann sækir forsrh.fund Norðurlanda um þessar mundir, en ég skal svara þeirri fsp. sem hv. þm. hefur gert.

Ég vildi í fyrsta lagi benda á að samkv. reglugerð um Stjórnarráð Íslands er gert ráð fyrir því, að ýmis embætti heyri undir forsrh., eins og embætti húsameistara ríkisins og embætti blaðafulltrúa ríkisstj. Forsrh. gerði það að umræðuefni í ríkisstj. fyrir nokkru, að hann teldi æskilegt að ráða blaðafulltrúa. Síðan sendi forsrn. til fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. till. um að blaðafulltrúi yrði ráðinn. Það var samþykkt af hálfu fjmrn. að ráða hann og í framhaldi af því hefur forsrh. nú ráðið blaðafulltrúa.

Benda mætti á það í þessu sambandi, að heimildir eru fyrir því að ráðh. ráði sér aðstoðarmenn. Ég held að ég muni það rétt, að komið hafi um það beiðni til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar frá þremur ráðh. að ráða sér aðstoðarmenn. Við þessu var orðið og gerð till. um það í fjárlagafrv., að Alþ. samþykki fjárveitingar til þess að greiða aðstoðarmönnum ráðh. laun svo og blaðafulltrúa ríkisstj. Aðstoðarmennirnir hafa þegar verið ráðnir og þó að ekki hafi verið aðstoðarmaður fyrir í því rn., sem um er að ræða, þá hygg ég að það styðjist við venju, að ráðh. hafi heimild til þess með samþykki fjmrn, að ráða aðstoðarmenn, þó að ekki sé búið að afgreiða málið á Alþ. Hins vegar er það alveg ljóst, að Alþ. hefur valdið í þessum efnum og að sjálfsögðu verður að samþykkja á Alþ. fjárveitingar í þessu skyni. Vonast ég til að ekki standi á því, þegar þar að kemur, að Alþ. samþykki fjárveitingar sem nauðsynlegar eru til þess að standa undir þessum embættum.