07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4424 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

357. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég undrast það tal sem hér hefur orðið um niðurlagningu og lokun ameríska sjónvarpsins. Skelfing er tíminn fljótur að líða og menn fáfróðir að halda því fram að það hafi gerst á stjórnarárum Geirs Hallgrímssonar eitthvað í kringum 1974.

Ameríska sjónvarpið hófst í kringum 1960 og mjög fljótlega eftir að það tók að breiðast út reis upp andstaða gegn því sem átti sér engin flokkatakmörk. M. a. s. gerðist það, þegar sú andstaða stóð sem hæst, að 60 landskunnir Íslendingar skrifuðu undir ávarp og kröfðust þess að hinu ameríska sjónvarpi væri lokað. Þeir höfðu aðeins eitt sameiginlegt, enginn þeirra var Alþb. maður. (ÓRG: Þetta var passað af undirskriftasöfnurum.) Já, það var gert söfnuninni til styrktar. Íslenska sjónvarpið hóf útsendingar 1966. Um sama leyti sem það gerðist voru þegar hafnar viðræður á milli menntmrh. sem þá var, Gylfa Þ. Gíslasonar, og Bandaríkjamanna hér um lokun sjónvarpsins. Ég fylgdist mjög vel með þessu því að ég var formaður útvarpsráðs á þeim tímum og var sammála Gylfa um að bandaríska sjónvarpinu bæri að loka og það hefði aldrei átt að leyfa það. Sannleikurinn í málinu er sá, að engin íslensk ríkisstj. lokaði því. Ameríkumenn gerðu það sjálfir. Það var hér mjög skynsamur sendiherra, sem hét James Penfield, sem gekkst fyrir því. Hann tók ómakið af íslenskum yfirvöldum formlega. Það getur verið að einhver formsatriði hafi komið seinna, en þetta hefur verið um 1970. Í skyndi hef ég ekki aðstöðu til þess að finna nákvæma dagsetningu. Þetta sjónvarp er enn þá til, en það bara fer eftir lokuðum símarásum á milli íbúðarhúsa hermanna, eins og það hefði átt að gera frá upphafi.

Út af margra klukkutíma metingi á milli flokka í afstöðu til hernámsmála vil ég aðeins geta þess, að eins og fram hefur komið hefur Alþfl. alla tíð verið skiptur í því máli. Flokksþing eftir flokksþing í 30 ár hafa þeir, sem andstæðir eru þeirri varnarstefnu sem hefur verið rekin, haldið fram málstað sínum, en hins vegar hefur stefnan sjálf, sem framkvæmd hefur verið og flokkurinn hefur út á við fylgt, fengið frá 75 og upp í 80% atkv. á flokksþingum. Samband ungra jafnaðarmanna hefur hins vegar á öllum sínum þingum gert ályktanir sem eru í andstöðu við varnarlið og þátttöku í Atlantshafsbandalaginu. Ég hygg að það hafi gert það á laugardaginn var síðast, svo að þar er í sjálfu sér engin breyting. Hlutfallslega voru varnarliðsandstæðingar í þingflokki Alþfl. sterkastir þegar þeir voru tveir, Gylfi og Hannibal. Nú eru þeir a. m. k. tveir, sennilega ekki fleiri, en þingflokkurinn er það miklu stærri að þeir ná ekki því hlutfalli að vera jafnvoldugir og Gylfi og Hannibal voru þá, hvort sem framtíðin kann að verða sú sama eða ekki.