07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (3499)

357. mál, utanríkismál

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Umr. þær, sem hér hafa farið fram um skýrslu hæstv. utanrrh., hafa yfirleitt verið mjög friðsamar og farið rólega fram og málin verið rædd af stillingu og yfirvegun. Þó bregður svo við þegar liðið er á annan dag umr., að einir þrír hv. alþm. hafa heldur betur hleypt á skeið núna eftir miðnættið. Hv. 4. þm. Norðurl. v. var að vísu í hálfgerðum vandræðum með sína 170 framsóknarmenn, eins og hér var rækilega bent á, og lagði mikið kapp á að losna við óværuna, eins og hann nefndi svo, suður á Miðnesheiði. Og hv. 8. landsk. þm. talaði heldur kuldalega til varnarliðsins — m. a. á þá leið að herinn, sem hann nefndi svo, væri hlekkur í njósnakerfi NATO og hann gæfi okkur vissa siðferðilega spillingu í landinu — og hann óskaði eftir að sjá sem fyrst á bak þessum dátum. M. ö. o. vildi hann ekkert af þeim her vita, nema helst þegar hann þyrfti að hringja á aðstoð við sjúkraflutninga. Ósköp er þetta dæmigert kratasjónarmið. En það er náttúrlega best fyrir þessa menn að ræða málin í eigin flokkum og hef ég ekki fleiri orð um það.

Þá er það hv. 3. landsk. þm. Um ræðu hans ætla ég ekki að fara mörgum orðum, aðeins benda á það sem hann sagði til að svara aths. hv. 4. þm. Reykv. Mér virtist hann nota tækifærið, þar sem hv. 4. þm. Reykv. var fjarverandi, að veitast að honum með hvassri gagnrýni. Við höfum þann hátt á yfirleitt á Alþ. að veitast ekki persónulega að fjarstöddum alþm., allra síst þar sem um er að ræða málefni þar sem þeir geta einir efnt til svara. Ég er ekki kunnugur í þessum Bilderberg-klúbbi sem virðist vera svo hugleikinn hv. 3. landsk. þm. Hann virðist tala um þann klúbb af töluvert miklum kunnugleika. Hins vegar get ég ekki skýrt frá ferðalögum hv. 4. þm. Reykv. þangað. Þessi hv. þm. virðist vera þeim atriðum miklu kunnugri en ég. En einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni, að hann tali um þennan Bilderberg-klúbb á svipaðan hátt og refurinn talaði um vínberin í gamla daga. Það er vonandi að hann fái þær leyndu óskir sínar uppfylltar að kynnast þessum klúbbi nánar af eigin raun einhvern tíma seinna.

Ég get að sjálfsögðu ekki lýst þessum klúbbi nánar og ekki svarað þeirri gagnrýni sem hv. þm. bar á borð. Verð ég því að hafa um það sem fæst orð. En öllum þessum þrem hv. alþm. vil ég benda á að lesa einu sinni enn þau ákvæði stjórnarsáttmálans sem um þessi mál fjalla. Það var einu sinni hæstv. forsrh. sem ráðlagði mönnum sínum og raunar öllum landsmönnum að lesa það stjórnarkver, sem þá var stýrt eftir, kvölds og morgna. Ég vil benda þessum hv. þm. á að kynna sér hin skýru ákvæði stjórnarsáttmálans betur og hafa meira samræmi í orðum og gerðum. — Og það má gjarnan vinna að því, að það er sjálfsagt mál, að reyna að ná þeirri samstöðu, sem við getum í þessum efnum, og stuðla að því að efld verði almenn samstaða okkar allra í utanríkismálum, í stormum og stríði samtímans.