18.10.1978
Efri deild: 3. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

7. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Forseti, þingmenn. 5. þm. Vestf., Þorvaldur Garðar Kristjánsson, varpaði hér fram fsp. varðandi 3. gr. þess frv. til l. sem hér er til umr., um ráðstöfun á fé því sem kemur í gengismunarsjóð.

Um þetta efni hefur verið gefin út reglugerð eða réttara sagt tvær reglugerðir, og af þeim má sjá hvaða reglur munu gilda um meðferð þessa fjár.

Það er þá fyrst til að taka, að eins og um getur í greininni fara 50% af því fé, sem gengismunur kemur fram í, í Verðjöfnunarsjóðinn og fara til að styrkja hann, og þarf varla neinna sérstakra skýringa við í þeim efnum, nema hvað frystideildin greiðir skuldbindingar við ríkissjóð af sínum hluta áður en til þess kemur að í Verðjöfnunarsjóðinn renni.

Að því er hinn helminginn varðar, 50%, þá skiptast þau í tvennt og helmingur, 25%, fer til fiskiskipa og helmingur til að veita fé í endurskipulagningu og endurbætur í fiskvinnslunni. Í þeirri reglugerð, sem fjallar um fiskiskipahlutann, er tekið fram að 4/5 hlutum skuli varið til þess að létta með gengisstyrkjum stofnfjárkostnaðarbyrði eigenda fiskiskipa sem orðið hafa fyrir gengistapi vegna erlendra og gengistryggðra skulda, en 1/5 hluta eða 20% verður varið til þess að auðvelda útvegsmönnum með úreldingarstyrkjum að hætta rekstri úreltra fiskiskipa.

Að því er fyrri hlutann, varðar, þá er fylgt hefðbundnum reglum um það, hvernig úthlutun gengisstyrkjanna fari fram, og tæplega ástæðu til að rekja það.

Um seinni hlutann er það að segja, að gert er ráð fyrir að stofna sérstakan sjóð sem úr yrðu veittir styrkir til eigenda stál- og eikarskipa til þess að auðvelda þeim að hætta rekstri skipanna. Sérstök nefnd mun gefa umsögn um styrkþega, fjárhæð styrkja og úthluta styrkjunum. Að framkvæmdum í þessu efni er ekki komið.

Að því er varðar ráðstöfun gengismunar til að greiða fyrir hagræðingu í fiskiðnaði, má segja að meginstefnan komi fram í 3. gr. reglugerðarinnar, nefnilega sú, að veitt yrðu lán til hraðfrystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva til hagræðingar og frjálslegrar endurskiplagningar, m.a. til vélakaupa, endurnýjunar á vélum og vinnslurásum og annarra ráðstafana sem horfa til hagræðingar að mati sjóðstjórnarinnar, en sjóðsstjórnin er stjórn Fiskveiðasjóðs.

Þarna er líka tekið fram, að þau frystihús, sem hafa stöðvað rekstur þegar þessi reglugerð var gefin út og gengisbreyting framkvæmd eða þar sem rekstrarstöðvun hafði verið yfirvofandi og jafnframt eru mikilvæg fyrir atvinnuöryggi á viðkomandi stað, skuli hafa forgang við lánveitingar skv. þessari reglugerð, enda sé ljóst að stuðningur við þessi fyrirtæki horfi til bætts skipulags í veiðum og vinnslu.

Ég vek athygli á þessu síðasta skilyrði sem ég tel mikilvægt, að hugmyndin sé að nýta þetta fé eftir mætti til þess að bæta skipulag í veiðum og vinnslu og að aðgerðir á þessu sviði horfi til samræmingar í þessu efni.

Það má reyndar segja að enn sé hnykkt á því í þessum efnum með seinustu málsgr. 3. gr., þar sem bent er á að við úthlutun lánanna skuli þess gætt, að lánsfé fari til þess að ná fram bættri nýtingu, hagkvæmni í rekstri og stjórnunarlegum endurbótum, auk betri heildarnýtingar fjármagns, m.a. með samruna fyrirtækja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fiskvinnslan er misjafnlega sett á hinum ýmsu stöðum og tæknilega séð hefur hún dregist aftur úr á vissum svæðum. Þess vegna er sannarlega nauðsyn á skipulegu átaki til þess að jafna þann mun ná fram betri tækni, betri stjórnun og betra skipulagi í vinnslunni og samræmi milli veiða og vinnslu eftir því sem frekast er unnt. Hugmyndin er að hafa þessi sjónarmið ríkt í huga við úthlutun fjár úr þessum gengismunarsjóði og leitast við að stuðla að sem skynsamlegastri uppbyggingu í þessum efnum. Auðvitað er ljóst, að það er óendanlegt verkefni að tæknivæða og endurbæta fiskiðnaðinn. Hér er einungis um að ræða spor á þessari braut, og það er ætlun mín að það verði leitast við að fara þar að faglegu og skynsamlegu mati um það, hvernig þessu fé verði varið.