07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4426 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

357. mál, utanríkismál

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Mér er ljóst að ég hef talað mig „dauðan“ í þessu máli, sem kallað er. Ég þakka þess vegna fyrir að fá að gera örstutta aths. Hún skal verða mjög stutt, ég lofa því.

Það er út af ameríska sjónvarpinu sem hæstv. utanrrh. gerði að umtalsefni, það hefði verið í tíð viðreisnarstjórnar og Penfields sendiherra sem Keflavíkursjónvarpi hefði verið lokað. Mér kemur ákaflega á óvart að heyra þessu haldið fram og það af manni sem fylgist eins náið með og hæstv. ráðh. Það er rétt að settir voru upp skermar sem áttu að varna því að Keflavíkursjónvarpið næði til Reykjavíkur og nágrannabyggðanna, en þeir gerðu það ekki, þeir dugðu ekki. Það vita allir menn, sem fylgdust með á þessum árum, að hver maður, sem hafði efni á eða vilja til að kaupa sér tæki, gat horft á Keflavíkursjónvarpið með sáralítilli tilfæringu sem kostaði litla peninga. Það er fyrst þegar Keflavíkursjónvarpið var lagt í lokaða rás sem útilokað var fyrir okkur að horfa á það, og það kalla ég lokun. Hitt kalla ég ekki lokun. Hitt má kannske nefna takmörkun ef menn vilja vera velviljaðir, eins og ég vil gjarnan vera, en lokun var það ekki. Um lokunina var samið um á árinu 1974, að mig minnir í marsmánuði, um leið og till. þær um brottflutning hersins í áföngum voru lagðar fram í Washington sem ég hef oft verið minntur á, frá öllum stjórnmálaflokkum, held ég, eftir því hvaðan vindurinn hefur blásið hverju sinni.

Talað var hér um að einn af þeim 170 framsóknarmönnum, sem eru stuðningsmenn Atlantshafsbandalagsins og telja að herinn eigi að vera hér, Vilhjálmur Jónsson forstjóri Olíufélagsins, sé nú orðinn einn af blaðstjórnarmönnum Tímans, og einhvern veginn var það orðað á þá leið, að þar með væri undirstrikað samband blaðsins og flokksins við hermangið eða það opinberað. Ef með þessu er meint, eins og hugsanlega mætti skilja, að Tíminn sé rekinn fyrir fjármagn frá Olíufélaginu sem Olíufélagið græðir á viðskiptum við herinn, mótmæli ég því alfarið. Ég tel slíkt óviðeigandi og rangan málflutning og vil ekki láta honum ómótmælt.

Ég ætla ekki að misnota greiðasemi hæstv. forseta meira.