07.05.1979
Sameinað þing: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4427 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

357. mál, utanríkismál

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mér er leyft að gera örstutta aths. við ræðu hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar.

Ég sé ekki að það geti á neinn hátt verið eðlileg starfsregla þingsins sem opinbers umræðuvettvangs þjóðmála, að ekki eigi að taka til umfjöllunar ræður sem fram koma fyrr í umr. þótt flytjendur þeirra ræðna kjósi af ýmsum ástæðum að vera fjarverandi einhvern tíma funda þingsins þann sama dag. Ef slíkt væri algild regla væri hægt að takmarka umr. á margvíslegan hátt með fjarveru úr þingsölum. Það er ekki gert, heldur er sá ræðustóll, sem hér stendur, skoðaður einn og sér nægilegur vettvangur til þess að um megi fjalla allt það sem úr honum er sagt, enda er það skráð og sérhver þm. á aðgang að því samdægurs eða daginn eftir og margvísleg tækifæri í þinginu til þess að halda þeim umr. áfram. Ég biðst því á engan hátt afsökunar á því sem ég sagði um ræðu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar og Bilderberg-klúbb hans, þótt hann sé fjarverandi í kvöld. Honum er velkomið að halda áfram þeirri umr. mín vegna hvar sem er og hvenær sem er, og fagna ég því eindregið því oftar sem hann tekur þau efni til umr., ef dæma má af þeirri ræðu sem hann flutti fyrr í dag. Ég vildi láta það koma skýrt fram, að ég var mér fyllilega meðvitandi um fjarveru hv. þm. Geirs Hallgrímssonar. Ég tel hins vegar að hún eigi ekki að hafa nein áhrif á eða að geta takmarkað í sjálfu sér að menn fjalli um það sem sagt hefur verið úr þessum ræðustól þótt viðkomandi flytjandi ræðunnar sé fjarverandi.

Að lokum vil ég fagna sérstaklega þeirri umræðu sem hér hefur orðið, einkum og sér í lagi seinni hluta hennar. Ég held að þótt álitið sé nætur og fáir séu hér í þingsölum hafi umræðan verið gagnleg. Ég held að það sé rétt, sem hv. þm. Bragi Níelsson sagði áðan, að í samanburði við umræður um íslensk utanríkismál, sérstaklega áður fyrr, þá er ég ekki að tala um allra síðustu ár, heldur tímabilið löngu á undan, séu þessar umr. vísbending um að miðað hefur þó töluvert í rétta átt. Bæði hv. þm. Einar Ágústsson, fyrrv. utanrrh., og núv. utanrrh. eiga þakkir skildar fyrir hlut í þeirri þróun, og mér finnst að sú umræða, sem orðið hefur í dag, eigi að sýna að Alþingi er eðlilegur og réttur vettvangur til þess að taka utanríkismál til miklu ítarlegri umfjöllunar en gert hefur verið. Ég vil beina því til hæstv. forseta, hvort sem hann verður forseti næsta þings eður ei, og hæstv. utanrrh. með sama fyrirvara, eða til þeirra sem þeim embættum gegna að ári eða í framtíðinni, að það verði séð til þess í störfum þingsins að utanríkismálaumr. fái þann sess á dagskrá þingsins og störfum sem henni ber. Þau mál eru engin afgangsmál sem við ræðum síðla kvölds eða á afgangsfundartíma. Utanríkismál eru höfuðatriði í málefnum íslensku þjóðarinnar, skoðanaskipti um framtíð hennar og tilverugrundvöll og um þau miklu mál sem menn hafa rætt um í nótt og fyrr í gær. Þingið á að sýna þeim málaflokki meiri virðingu með því að skapa honum betra rúm. Það er e. t. v. athyglisvert um þá venju sem skapast hefur smátt og smátt, að þingið sjálft telur þessi mál utangarðsmál eða afgangsmál, að fulltrúar fjölmiðla margir hverjir hafa mér vitanlega fæstir, ef nokkrir, verið síðla á þessum fundi á áheyrendapöllum.

Að lokum vil ég svo árétta að í málefnasamningi ríkisstj. er skýrt tekið fram orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþb. er andvígt aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og dvöl hersins í landinu.“

Það stendur ekki á okkur að vekja athygli á því kvölds og morgna, hv. þm. Friðjón Þórðarson.