08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4436 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin.

Mér þykir leitt að heyra að hann skuli ekki hafa á takteinum einhverjar úrbætur fyrir þá hópa sem ég var að tala um. Mér þykir enn fremur leitt að það fé, sem kemur í ríkissjóð, skuli ekki verða notað til einhverra slíkra aðgerða frekar en í almenna olíuniðurgreiðslu, sem ég að vísu viðurkenni að er full nauðsyn á. Hitt virðist þó vera öllu nærtækara, að taka tillit til þeirra sem nú hljóta í raun og veru að verða að leggja bílum sínum. Ég sé ekki annað en að alger vandræði verði ef ekki verða gerðar einhverjar hliðarráðstafanir sérstaklega fyrir þessa hópa, og þá á ég ekki eingöngu við öryrkja, heldur t. d, þúsundir láglaunafólks á Reykjavíkursvæðinu sem verður að nota einkabíla sína vegna vinnu sinnar a. m. k. þar til gerðar hafa verið með ærnum kostnaði miklu fullkomnari almenningsleiðir en nú er um að ræða og það tekur örugglega mörg ár. Það segir sig alveg sjálft að þetta fólk hefur ekki efni á að nota 80 þús. kr. mánaðarlega af tekjum sínum til að geta ekið sínum bíl.

En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og vona að ríkisstj. auðnist að finna einhverjar leiðir til að bæta úr því ástandi sem nú blasir við.