08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4439 í B-deild Alþingistíðinda. (3515)

354. mál, símamál

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Lög um Kennaraháskóla Íslands tóku gildi 16. apríl 1971. Í lögunum var kveðið á um að þau skyldu endurskoðuð eigi síðar en að tveimur árum liðnum frá gildistöku. Í samræmi við það mun menntmrn. hafa skipað nefnd í nóv. 1972 til að endurskoða lögin. Nefndin skilaði áliti vorið 1976 og frv., sem í meginatriðum var reist á till. hennar, var lagt fram á Alþ. sem stjfrv. vorið 1977, en varð þá ekki útrætt, enda einkum lagt fram í kynningarskyni að því sinni. Á síðasta Alþ. var frv. lagt fram að nýju nokkuð breytt. Hafði fyrri gerð þess þá sætt ítarlegri umsagnarmeðferð og skoðanir umsagnaraðila reynst talsver: skiptar, einkum varðandi stöðu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands hvors gagnvart öðrum með tilliti til kennslu og rannsókna í uppeldisfræðum. Frv. hlaut sem kunnugt er ekki heldur afgreiðslu á þinginu í fyrra. Á s. l. hausti var svo þriggja manna starfshópi falið að endurskoða frv., en nefnd þessi eða starfshópur hefur ekki lokið störfum.

Þessi missiri er unnið að veigamiklum breytingum á innri starfsháttum Kennaraháskólans, skipan náms og kennslu. Meginmarkmið þeirra breytinga er að gera starfsmenntun verðandi kennara heildstæðari með hliðsjón af hinum auknu kröfum sem grunnskólinn gerir til hlutverks þeirra. Þetta breytingarstarf er á tilraunastigi og hefur enn ekki tekið nema til fyrsta hluta kennaranámsins. Verður að teljast mikilvægt fyrir stefnumótun í málefnum kennaramenntunar að nokkur reynsla fáist af þessari nýbreytni áður en ný lög verða sett.

Hingað til hefur breytingastarfið fengið að þróast án þess að gildandi lagaákvæði væru því til verulegrar hindrunar. Hins vegar hefur rn. veitt að beiðni skólastjórnar undanþágu frá vissum ákvæðum reglugerðar sem samrýmast ekki hinum nýju starfsháttum. Rn. er að sínu leyti fúst til að greiða fyrir nýbreytni í starfi með endurskoðun á reglugerðinni eftir því sem nauðsynlegt þykir að dómi skólastjórnar.

Þótt eitthvað dragist enn að setja ný lög um Kennaraháskóla Íslands er eftir sem áður mikilvægt að hefja undirbúning að þeirri lagasetningu. Nú hefur Alþ. til meðferðar frv. til l. um framhaldsskóla sem gerir ráð fyrir róttækri kerfisbreytingu á framhaldsskólanámi. Fyrirsjáanlegt er að sú breyting, ef að lögum verður, muni hafa gagnger áhrif á hlutverk og skipan háskólanáms. Því er nauðsynlegt að hefja undirbúningsstarf að heildarendurskoðun á háskólastiginu og mun rn. einbeita sér að því verkefni nú á næstunni. Hér er um tímafrekt og vandasamt viðfangsefni að ræða sem kallar á samvinnu margra aðila. Meginatriðið í slíkri endurskoðun hlýtur að vera að huga að með hvaða hætti hinar ýmsu stofnanir, sem annast kennslu og rannsóknir á háskólastigi, geti tengst innbyrðis þannig að háskólakerfið svari sem best kröfum um hagkvæmni og sveigjanleik. Undirbúningur að nýrri lagasetningu um kennaramenntun ætti að vera liður í slíkri heildarendurskoðun á háskólastiginu.

Með þessu er ekkert sagt fyrir um hvernig kennaramenntuninni verði best borgið að því er varðar tengsl Kennaraháskólans annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar. Þar koma ýmsir kostir til greina sem íhuga verður vandlega. Ljóst er þó að kennaramenntunin þarf á víðtæku sjálfræði að halda. Það er hins vegar mikilvægt fyrir framtíðarstefnumótun að samvinna geti tekist í einhverri mynd milli Kennaraháskólans og Háskóla Íslands um afmörkuð verkefni, svo sem lögin frá 1971 gera reyndar ráð fyrir, til þess að nokkur prófsteinn fáist á gildi tengsla og samvinnu milli hinna tveggja stofnana sem annast menntun kennara fyrir grunnskóla og framhaldsskóla.

Flest bendir til þess, að skortur á húsnæði og mannafla standi núverandi starfsemi Kennaraháskólans fyrir þrifum fremur en vankantar á lögum. Ég vil í þessu sambandi minna á að svo hefur nemendum fjölgað í BA-námi á undanförnum árum að til verulegra erfiðleika hefur komið. Má í því sambandi nefna að haustið 1973 voru þessir nemendur 62, haustið 1975 voru þeir komnir í 175 og haustið 1978 í 372. Fjölgun nemenda hefur gerst að óbreyttri húsnæðisaðstöðu og án þess að föstum kennurum hafi fjölgað að sama skapi. Ég tel því að Kennaraháskóli Íslands þarfnist nú öðru fremur aukinna fjármuna, betri aðbúnaðar í húsnæði, mannafla og námsgögnum til að geta rækt hlutverk sitt sem vísindaleg starfsmenntunarstofnun og það sé allra helst þar sem skórinn kreppir. En endurskoðun laganna verður að undirbúa rækilega og þá sérstaklega skoða hana í ljósi nánara samstarfs milli Kennaraháskólans og Háskóla Íslands.

Varðandi síðari fsp. hv. þm., sem víkur að Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans, vil ég segja þetta:

Samkv. lögum um Kennaraháskóla Íslands er Æfinga- og tilraunaskóli hans jafnframt skóli skyldunáms fyrir ákveðið hverfi Reykjavíkurborgar og tekur borgin þátt í greiðslu stofn- og rekstrarkostnaðar skólans á þeim grundvelli. Húsi Æfinga- og tilraunaskólans, sem tekið var í notkun árið 1968, var, eins og kunnugt er, fenginn staður á lóð Kennaraskólans við Stakkahlíð, nú Kennaraháskólans, og samkv. samkomulagi við Reykjavíkurborg takmarkast skólahverfi skólans af Kringlumýrarbraut, Miklubraut, Snorrabraut og Laugavegi. Af 558 nemendum í Æfinga- og tilraunaskólanum s. l. haust voru 393 úr skólahverfi skólans, en 165 úr öðrum skólahverfum borgarinnar eða búsettir utan borgarinnar. Á síðustu árum hefur orðið stórfelld röskun á barnafjölda á grunnskólastigi í ýmsum hverfum Reykjavíkurborgar og m. a. birst í nemendafækkun í mörgum skólahverfum. Þessi þróun hefur mjög gert vart við sig á því svæði sem fellur til Æfinga- og tilraunaskólans og annarra hverfisskóla í nágrenni hans, þ. e. Austurbæjarskóla, Hlíðaskóla og Álftamýrarskóla. Er nú svo komið að verulegur hluti hverfisnemenda Æfinga- og tilraunaskólans mundi rúmast í nágrannaskólunum án þess að bæta þyrfti við nýjum bekkjardeildum eða fjölga óeðlilega í bekkjum. Virðist því horfa nokkuð óvænlega um hagkvæma nýtingu skólaaðstöðu á svæðinu að óbreyttu.

Þessi mál hefur borið á góma í vetur í starfshópi sem á vegum menntmrn. og fræðsluráðs Reykjavíkur hefur unnið að athugun á skólaskipun í Reykjavík. Hugmyndum, sem þar komu fram í þá átt að kennsla grunnskólanemenda yrði felld niður í Æfinga- og tilraunaskólanum sjálfum, en efld þar stjórnunar- og skipulagsmiðstöð æfingakennslu á vegum Kennaraháskólans, var fljótlega hafnað, m. a. vegna þess að hætta var talin á að með þeirri tilhögun yrði kippt stoðum undan tilrauna- og nýjungastarfi sem skólinn vinnur að. Í endanlegri álitsgerð starfshópsins er af hálfu fulltrúa rn. hins vegar vikið að þeim möguleika að starfsemi Æfinga- og tilraunaskólans yrði flutt í Austurbæjarskólann og skólahverfi hans smám saman breytt til samræmis við það, án þess þó að nokkur nemandi, sem nú er í skólanum og kýs að vera þar áfram, þyrfti að fara í annan skóla. Slík breyting fæli í sér að Æfinga- og tilraunaskólanum yrði tryggður nemendagrundvöllur til frambúðar án þess að röskun yrði á hlutverki hans og stöðu. Um þessa hugmynd var hins vegar ekki samstaða milli fulltrúa rn. og fræðsluráðs enda mun fræðsluráð ekki að svo stöddu vera reiðubúið til að standa að ráðstöfun sem ákvarði þannig frambúðarnot skólahúss Austurbæjarskólans.

Í álitsgerð framangreinds starfshóps er á það bent, að nemendur, sem sækja Æfinga- og tilraunaskólann úr öðrum borgarhverfum þar sem rúm er fyrir þá í fámennum bekkjardeildum heimaskólans, valdi- aukningu á kennslukostnaði því af slíkum tilflutningum leiði fjölgun bekkjardeilda við Æfinga- og tilraunaskólann. Er því lagt til í álitsgerð starfshópsins að inntaka nemenda í skólann verði framvegis takmörkuð við skólahverfi hans.

Niðurstaðan af því, sem nú þegar hefur verið rakið, er sú, að ekki eru líklegar breytingar á starfsgrundvelli Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans að svo stöddu umfram það að horfið kynni að verða að því ráði að miða inntöku nýrra nemenda við skólahverfi skólans meira en verið hefur.

Þátt hagnýtrar kennslufræði í kennaramenntun þarf fremur að efla en rýra. Að því miðar vel skipulögð æfingakennsla. Því er fullljóst að Æfinga- og tilraunaskólinn gegnir mjög veigamiklu hlutverki í menntun grunnskólakennara jafnframt því að vera vettvangur athyglisverðrar starfsemi sem beinist að umbótum í skólastarfi. Allar ákvarðanir um breytingar á högum Æfinga- og tilraunaskólans verða að ráðast af því, hvort betur verði eftir en áður búið í haginn til að rækja þessi verkefni.