08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3516)

354. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka svör hæstv. ráðh. Þau eru í heild sinni mjög fróðleg og upplýsa þetta mál mikið að mínum dómi.

Fram kemur í svörum ráðh. að ekki er lokið þeirri endurskoðun sem hann hefur sett í gang á frv. um Kennaraháskóla Íslands. Út af fyrir sig er kannske ekkert við því að segja. Slíkt er æðimikið mál. Ég held þó að stefna ætti að því að ljúka endurskoðuninni þannig að málið geti komið til meðferðar á næsta Alþ. Ég held satt að segja að frv. um breyt. á l. um Kennaraháskólann sé að einhverju leyti unnið með hliðsjón af þeirri þróun sem nú er að verða á framhaldsskólastiginu, þó að sú þróun hafi ekki þá fremur en nú verið lögfest.

Það er hárrétt hjá hæstv. ráðh. að húsnæðis- og starfsaðstaða skólans er með þeim hætti og hefur verið lengi, og þá ekki síður eftir að aftur fjölgaði nemendum í skólanum, að þar er gífurleg nauðsyn á að bæta um, bæði með byggingum og bættri aðstöðu að öðru leyti, varðandi starfslið o. s. frv. En það er mín skoðun, ég vil láta það koma fram mjög ákveðið, að ég álit að hæpið sé að bíða með að setja þessi nýju lög, þ. e: a. s. ljúka endurskoðun með lagasetningu, — bíða eftir endurskoðun á háskólastiginu í heild. Ég tel það ekki rétt. Ég held að af hagkvæmniástæðum sé æskilegt að þessi lög verði sett áður.

Mér þótti vænt um að heyra að það er orðið ofan á að efla fremur en rýra hlut Æfinga- og tilraunaskólans og að það er skoðun ráðh. að allt, sem þar verði gert, skuli miða að því að breytingin sé hagur fyrir Kennaraháskólann og kennaramenntunina í landinu þá um leið.

Það má kannske segja að tilefni fsp. minnar sé viss tortryggni, ekki í garð hæstv. ráðh., ég hef ekki kynnst sérstaklega afstöðu hans í þessum málum eða heyrt hann skýra skoðanir sínar sérstaklega í því sambandi. En það, sem veldur tortryggni minni, er hið ótrúlega tómlæti sem mér hefur fundist ríkja liðin ár um uppbyggingu Kennaraháskóla Íslands, um bætta aðstöðu fyrir þá skólastofnun. Það eru liðin 20 ár síðan þar var byggður 1/3 hluti af því húsnæði sem ætlað var fyrir stofnun með tilteknum nemendafjölda sem nú er orðinn miklu meiri. Þessu hefur ekki verið hreyft. Það kostaði töluvert mikil átök að koma af stað á ný fjárveitingum til framkvæmda á því sviði. Slík aðstaða sem þarna hefur verið og er — ótrúlegt aðstöðuleysi, vil ég segja — hlýtur að bitna annars vegar á gæðum kennaramenntunarinnar og svo hins vegar persónulega á þeim nemendum sem vinna og nema í þessari stofnun.

Það hefur líka um skeið valdið tortryggni minni í sambandi við málefni Kennaraháskólans, þetta sem ég kalla ótrúlega áráttu til þess að höndla með málefni stofnunarinnar út frá einhverjum öðrum sjónarmiðum en hagsmunum hennar. T. d. gerðist það á árunum að breytt var inntökuskilyrðum skyndilega og kröfur lækkaðar, þau svo aftur jafnskyndilega hækkuð upp í stúdentspróf og enn innan skamms kennslan færð á háskólastig! Það var gert í þeim tilgangi að bæta gæði kennslunnar, en hitt er ákveðið af öðrum ástæðum. Og mér fannst eins að þær umr. sem urðu núna t. d. um breytingu á stöðu Æfinga- og tilraunaskólans, bæru keim af því, að þær væru ekki í byrjun sprottnar af því að menn hefðu í hyggju að bæta gæði kennaramenntunarinnar, heldur af öðrum ástæðum, röskun á nemendafjölda á grunnskólastigi á tilteknum svæðum í höfuðborginni. Þetta hefur vissulega vakið tortryggni mína.

Eins hefur mér fundist gæta vissrar tregðu til að ljúka innri uppbyggingu Kennaraháskólans í þá stefnu sem mótuð var þegar lögin um Kennaraháskólann voru sett, þ. e. a. s. með því að færa menntun á háskólastigi í uppeldis- og kennslufræðum inn í þá stofnun. Bent hefur verið á að ýmis vandi væri því samfara, — ýmis skörunaratriði, ef svo mætti segja. En þau verða alltaf fyrir hendi og þarf ekki annað en leysa þau á sem bestan hátt. Þau eru fyrir hendi eins og málum er komið nú og verða það að einhverju leyti þó að þeim yrði breytt, ég viðurkenni það. Ég álít að ekkert verði erfiðara að leysa þau þó að þessar greinar á háskólastigi yrðu alfarið færðar yfir til Kennaraháskólans. Og ég álít einnig að það mundi ekki skerða að marki stöðu Háskóla Íslands sem er miklu grónari stofnun og margfalt stærri.

Ég vil að lokum enn árétta það sem skoðun mína að ég tel alveg fráleitt að hverfa frá þeirri mótun kennaramenntunar okkar sem ákveðin var með lögum um Kennaraháskóla Íslands. Það má ekki hringla með svona hluti. Þegar búið er að taka svona ákvörðun, koma á nýrri skipan, verður hún að fá tíma til þess að þróast og menn verða að ganga í að byggja hana upp.

En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og fagna því, að mér virðast skoðanir hans koma mjög saman við skoðanir mínar í þessu efni.