08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4443 í B-deild Alþingistíðinda. (3517)

235. mál, álit Hafrannsóknastofnunar á mikilli þorskgengd

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja fsp. til hæstv. sjútvrh. Hún er á þskj. 468 og hljóðar þannig:

„Hefur sjútvrn. óskað eftir sérstöku áliti Hafrannsóknastofnunarinnar á mikilli þorskgengd og þorskveiðum sem verið hefur undanfarið umhverfis allt land? Ef svo er:

Hvaða árgangar eru uppistaðan í þorskaflanum nú? Hver er meginástæða aflahrotunnar?

Er hér um að ræða þorsk frá Grænlandi?

Hvaða rannsóknir hafa átt sér stað á þorski sem hrygnt hefur við Grænland undanfarin ár?“

Fsp. er ekki síst fram komin vegna þess að eins og alþjóð er kunnugt hefur verið mikil þorskgengd umhverfis land, alla vega miklar þorskveiðar, miklu meiri en á sama tíma í fyrra, en á sama tíma hafa líka farið fram umr. um að skera niður þorskaflann um a. m. k. 40 þús. tonn frá því sem hann var í fyrra til að styrkja stöðu hrygningarstofnsins. Fólk um allt land hefur velt fyrir sér hverjar ástæðurnar fyrir hinum miklu þorskveiðum séu, hvort það sé að einhverju leyti rangt mat fiskifræðinga að hrygningarstofninn sé svo illa kominn sem þeir vilja vera láta. Þetta er brennandi spurning á vörum margra, ekki síst af því að miðað við þær tölur, sem Fiskifélag Íslands hefur gefið mér upp, var þorskveiðin komin í 172 þúsund tonn um síðustu mánaðamót í samanburði við 131 þús. tonn í fyrra, eða orðin 40 þús. tonnum meiri en þá. Á síðari hluta ársins er því ætlunin að ná þorskaflanum niður í 280 þús. tonn, og þá er niðurskurðarþörfin, miðað við afla í fyrra, 80 þús. tonn. Fólk veltir því fyrir sér, og það er mjög viðkvæm og vandasöm spurning, hvernig slíkt verði gert. Verður haldið áfram þorskveiðum óslitið eins og reglur segja til nú þangað til verður að stöðva allar þorskveiðar kannske snemma í haust ? — Þetta eru mikilvægar spurningar og ég leyfi mér að æskja svara frá hæstv. sjútvrh.