08.05.1979
Sameinað þing: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (3519)

235. mál, álit Hafrannsóknastofnunar á mikilli þorskgengd

Fyrirspyrjandi (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin, sem voru ítarleg og fróðleg. Í þeim kom m. a. fram að álit Hafrannsóknastofnunarinnar er að það hafi verið meiri þorskgengd hér í ár en áður, en jafnframt að sóknin hafi aukist og hún hafi breyst með öðruvísi veiðarfærum en áður hafa verið notuð.

Það kom fram, að Hafrannsóknastofnunin hefur því miður ekki neinar haldgóðar upplýsingar um hvað er að gerast í þessu efni við Grænland. Það er að sjálfsögðu mjög athyglisvert og gæti verið ástæða fyrir því, að mat Hafrannsóknastofnunarinnar á því, hvað hrygningarstofninn er sterkur, sé ekki að öllu leyti nægjanlega vel rökstutt. Ég skal ekki um það segja. En ég vil aðeins undirstrika það sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að að sjálfsögðu er mjög nauðsynlegt að bæta úr þessu og rannsaka í samvinnu við Grænlendinga hvað er að gerast að þessu leyti við Grænland. Við vitum og höfum reynslu fyrir því, að þorskur gengur milli Íslands og Grænlands a. m. k. sum ár. Það er því nauðsynlegt að vita um slíkt þegar á að taka jafnmikilvægar ákvarðanir og teknar eru nú á grundvelli álitsgerða fiskifræðinga.

Hæstv. ráðh. vék í lokaorðum sínum að þeim vanda sem fram undan er. Hann taldi að það mundi verulega draga úr þorskveiðinni á seinni hluta ársins vegna takmarkana sem nú eru í gildi. En ég vil vekja athygli á að þar þarf að verða um gífurlega stökkbreytingu að ræða og miklum mun meiri en menn gera sér vonir um að verði. Það eru ekki eftir nema rúm 100 þús. tonn og 8 mánuðir af árinu, því að tölurnar eru miðaðar við síðustu mánaðamót, þannig að þorskveiðin þarf í rauninni að dragast gífurlega saman ef markmiðið á að nást sem hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. stefna að í þorskveiðinni. Nú eru sem sagt ekki eftir nema rétt um 100 þús. tonn. Það er ekki nema álíka afli á mánuð og togararnir öfluðu í síðasta mánuði þrátt fyrir stöðvanir sem voru í þeim mánuði. Þess vegna er þetta mjög brýn spurning.

Ég veit að hæstv. ráðh. getur kannske ekki svarað því hér og nú hvað hann hyggst gera í þessum efnum, en ég vil spyrja hann hvenær hann hyggist leggja fram hugmyndir um hvernig ná eigi settu marki. Ég held að af reynslunni á þessu ári verði dregin sú ályktun, að óumflýjanlegt sé að takmarka veiðarnar eftir árstímum, en ekki yfir allt árið. Það hefði þurft að gera meiri ráðstafanir í vetur til að draga úr þorskveiðinni og dreifa henni yfir árið ef á að stefna að þessu markmiði. Það er alveg óumflýjanlegt að mínu mati. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh.: Hvenær geta menn vænst þess að fá að víta hvaða auknar friðunarráðstafanir verða gerðar? Mér sýnist að slíkt sé óumflýjanlegt ef á að stefna að settu marki. Menn hafa nefnilega þungar áhyggjur af því að fá allt í einu þær fréttir — kannske í okt. — að ekki sé hægt að veiða meiri þorsk við Ísland vegna þess markmiðs að draga aflann saman og minnka hann í 280 þús. tonn.