08.05.1979
Sameinað þing: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3524)

102. mál, aukin nýting í fiskvinnslu

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Hér er vissulega verið að fjalla um ákaflega mikilvægt mál frá þjóðhagslegu sjónarmiði, bæði að því er varðar afkomu okkar allra og ekki síst að því er varðar afkomu í sjávarútveginum sjálfum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að einmitt það, sem hér er tekið til umfjöllunar, sé eitt af lykilatriðunum til þess að ná bættum árangri og betri lífskjörum í landinu.

Það má segja að þessi till. sé tvíþætt. Hún fjallar að meginefni til um nýtingu hráefnis samkv. núverandi vinnsluaðferðum, en auk þess er þar bent á aukna nýtingu þess sem nú er ekki nýtt eða vannýtt miðað við þær vinnsluaðferðir sem tíðkaðar eru. Hvort tveggja eru þetta mjög áhugaverð svíð og fyllsta ástæða til að gaumgæfa þau vandlega. Ég tel reyndar að skilningur á þessum atriðum hafi þegar komið fram af hálfu núv. ríkisstj. m. a. í þeirri fjárfestingarstefnu, sem mótuð hefur verið, og þeirri lánsfjáráætlun sem liggur hér fyrir til afgreiðslu. Þar er sérstök áhersla lögð á aukna fjárfestingu í fiskvinnslunni og þá einkum og sér í lagi hraðfrystiiðnaðinum, sem er áreiðanlega, eins og kom fram áðan hjá ræðumanni, hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, þjóðhagslega arðbær fjárfesting, — fjárfesting sem vafalaust er með því þjóðhagslega arðbærasta sem við getum fundið á landi okkar.

Ef við lítum alveg sérstaklega á fiskvinnsluna og aukna nýtingu hráefnis samkv. núverandi vinnsluaðferðum má e. t. v. skipta í fjóra meginþætti hvernig ná megi þeim árangri. Það er meðferð og geymsla hráefnisins um borð í skipunum. Þar hefur átt sér stað ákveðin þróun á undanförnum árum sem ég vænti að haldi áfram. Það er í annan stað geymsla hráefnis áður en að vinnslu kemur. Þar hafa líka nokkrar endurbætur átt sér stað og mjög verulegar hjá sumum fiskvinnslustöðvum, en þar er mjög mikið verk óunnið. Í sambandi við það var einmitt minnt t. d. á flokkun og vigtun, sem ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að sé ákaflega mikilvægt atriði. Í þriðja lagi er það hin tæknilega aðstaða, vélakostur og þar fram eftir götunum, og það er áreiðanlegt að úreltur og lélegur tækjakostur hefur víða þau áhrif að nýting er alls ekki sem skyldi og langt frá því að vera hámarksnýting. Fjórða atriðið eru svo stjórnunarlegir þættir. Þar kemur m. a. til meðferð á vélunum, stilling þeirra og þar fram eftir götunum og enn fremur kunnátta og áhugi starfsfólks.

Ég geri ráð fyrir að allir hér á Alþ. séu sammála um að æskilegt sé að stuðla að þróun eftir öllum þessum brautum, en spurningin er hvernig megi ná árangri. Ég held að það hljóti að gerast bæði með hvatningu og aðhaldi, og ég tel að það, sem unnið hefur verið í þeim efnum á undangengnum mánuðum, miði til réttrar áttar. Við þetta má svo bæta að hér er kannske fyrst og fremst verið að fjalla um nýtingu með tilliti til nýtingar hráefnisins, en hins vegar verður jafnframt að líta á nýtingu út frá sjónarmiði arðbærni, þ. e. a. s. hvernig tekst til um framleiðni í þessum fyrirtækjum og arðbærni þeirrar starfsemi sem innt er af hendi. Þá komum við ekki síður aftur að hinum stjórnunarlega þætti, hagræðingu, og ég tel að að viðbættum þeim tæknilegu atriðum, sem við höfum upp talið, séu annars vegar hagræðing vinnslurása og vinnubragða og hins vegar stjórnunarlegar endurbætur líklegastar til ávinnings á því sérstaka sviði.

Ég hef fjölyrt nokkuð um þennan þáttinn í fyrirliggjandi þáltill., vegna þess að ég tel að eins og sakir standa sé hann mjög áhugaverður og það hafi verið leitast við að vinna að framgangi á því sviði.