08.05.1979
Sameinað þing: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

254. mál, stefnumörkun í landbúnaði

Forseti (Gils Guðmundsson):

Í tilefni þeirra orða, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði bæði í upphafi og niðurlagi ræðu sinnar í sambandi við tilhögun umr., vil ég taka þetta fram:

Það er rétt að till. hv. 2. þm. Norðurl. v. og fleiri sjálfstæðismanna um stefnumörkun í landbúnaði er komin fram fyrir alllöngu. Umr. hófst um hana fyrir nokkrum vikum, og ég hygg að ekki hafi liðið neitt óeðlilega langur tími frá því að hún var fram lögð og þangað til sú umr. hófst. Þá átti hv. þm. þess kost að flytja — og flutti langa og ítarlega og mjög greinargóða framsöguræðu fyrir því máli. Umr. varð ekki lokið. Nokkru síðar hafði ég hug á að taka þáltill. hans til framhaldsumr. Þá stóð þannig á, að annaðhvort var þá ekki viðstaddur sá hv. þm., sem næstur var á mælendaskrá, eða 1. flm. var fjarverandi, nema hvort tveggja hafi verið, og þá varð ekki úr því að hún væri tekin til umr. Ég vil benda hv. þm. á að nokkrar þáltill., miklu eldri en till. hans, hafa enn þá ekki komist til n. vegna þess að langar umr. hafa orðið um þær. Ég held að ef ætti að taka upp þá aðferð alfarið að taka aldrei nýrri till. til meðferðar og reyna að koma þeim áleiðis eða til n. fyrr en búið er að ljúka umr. um eldri till. gengi seint að þoka málum fram. Ég hef reynt að þoka málum áfram og því stundum tekið nýrri mál fyrir, enda þótt eldri till. væru óneitanlega til.

Ég sé nú fram á að ég hlýt að fresta umr. um þessa till. nú og er því ákaflega jafnt á komið með hv. 2. þm. Norðurl. v. og hæstv. landbrh. Enda þótt líði senn að þinglokum vona ég þó að hægt verði að taka till. báðar til framhaldsumr. bráðlega og skal gera mitt til þess að svo verði. En með tilliti til þess, að eftir hálftíma hefjast fundir í báðum deildum Alþ., mun ég fresta þessari umr. og taka málið út af dagskrá.