08.05.1979
Efri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (3549)

284. mál, tollskrá

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á lögum um tollskrá o. fl., um að þar verði tekið upp heimildarákvæði í 3, gr. um að ákveða að aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum og hlutum í þau megi verja til stofnbúnaðar Ríkisútvarpsins. Ég vil vísa til stuttrar grg., sem þessu frv. fylgir, og skal reyna að endurtaka ekki það sem í henni segir. En að öðru leyti vil ég taka þetta fram:

Þetta mál, þ. e. a. s. aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum, hvort þau skuli renna til stofnbúnaðar útvarpsins eða ei, hefur nýlega verið rætt á Alþ. og þá rætt öðru sinni á þessum vetri, í báðum tilvikum að mig minnir í fyrirspurnatíma. Í bæði skiptin lýstu þm. þeir sem til máls tóku mjög sterklega, að mér virtist, áhuga sínum á dreififramkvæmdum og öðrum stofnframkvæmdum Ríkisútvarpsins.

Heimild til að verja aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum til stofnframkvæmda var felld niður með breyt. á lögum um tollskrá 1976 eftir að hún hafði verið í gildi og notuð í 12 ár. Eftir þetta tókst samkomulag með þáv. ráðh. menntamála og fjármála um að halda uppteknum hætti og láta þær tekjur renna til stofnbúnaðar Ríkisútvarpsins. Varð þó veruleg seinkun á greiðslum frá ríkinu til útvarpsins. Það bar á þessu strax í lok ársins 1977 og árið 1978 var seinkunin orðin mjög veruleg og tilfinnanleg. Svo urðu stjórnarskipti, og það gerðist fyrir og eftir stjórnarskiptin að þessar tolltekjur jukust gríðarlega mikið, margfölduðust frá því sem áætlað hafði verið. Þá var horfið alveg frá fyrri tilhögun. — Með frv. er sem sagt lagt til að taka á ný inn í lög heimild til að ætla útvarpinu tolltekjurnar.

Nú hefur það gerst og ekki fyrir löngu að hæstv. menntmrh. hefur m. a. lýst stuðningi við þessa tilhögun og flokkur hans hefur gert um það flokkstjórnarsamþykkt. Einn af þm. Sjálfstfl. hefur flutt brtt. í Nd. við lög um breyt. á tollskrárlögum sem gengur í sömu átt. Og meðal þeirra þm., sem mjög ákveðið tóku upp hanskann fyrir Ríkisútvarpið einmitt í þessu máli og voru hlynntir því að útvarpið fengi þessar tekjur voru þm. úr Alþfl. mjög ákveðnir talsmenn þess máls. Ég hef að sjálfsögðu rætt þetta frv. í þingflokki Framsfl. og ég vænti ekki sérstakrar andstöðu við það þar.

Ég sé þess vegna ekki að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu að samþ. þá heimild, sem í frv. felst, og afgreiða þetta mál nú. Það er líkt og málið, sem ég talaði fyrir áðan, ákaflega einfalt, en hefur þar að auki í raun og veru verið rætt hér efnislega töluvert lengi. En ég vil leggja áherslu á að jafnframt því ef horfið yrði að því að samþ. þessa heimild aftur yrðu hv. alþm. vitanlega að gera sér grein fyrir, að ríkissjóður þarf sínar tekjur, og þurfa því að vera viðbúnir að bæta ríkissjóði það tekjutap sem hann óhjákvæmilega verður fyrir ef frv. yrði að lögum og heimildin yrði notuð. Hins vegar er rétt að vekja athygli á að í ýmis þau verk, sem þá yrðu fjármögnuð með þessum markaða tekjustofni, ef ég má segja svo um það sem greitt er skv. heimild, hlytu menn að ráðast í alveg næstu árum, hvort sem aflað yrði tekna til þeirra á þennan hátt eða með einhverju öðru móti.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en vil leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.