07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

Umræður utan dagskrár

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það kemur mér mjög á óvart, að þetta mál, sem hér er til umr., skuli þurfa að ræða að forsrh. fjarverandi. Hann er að eðlilegum embættisverkum sínum nú og málið hefði ekki hlaupið frá neinum þótt það hefði beðið þess að hann mætti í þinginu aftur, sem hann gerir fljótlega eftir að hann kemur til baka. Þess vegna hefði ég talið, að eðlilegt hefði verið að fsp. út af málinu hefði verið geymd þangað til.

Hitt þykist ég líka þekkja af störfum bæði á Alþ. og í ríkisstj., að ekki er verið að bera það undir Alþ., hvaða menn kynnu að sitja í einstökum embættum, og ekki hefur það heldur verið svo um ríkisstj. Þar hefur sá ráðh., sem með veitingarvaldið fer hverju sinni, ráðið hvern hann, skipaði í starfið. Þar sem till. er gerð um það í fjárlagafrv, að fjárveiting sé til þessa embættis, þá er ekki óeðlilegt að það yrði veitt fyrr, vegna þess að ný ríkisstj. var sest að völdum. Ég held að það muni álit allra, að kannske hafi stundum skort á að ríkisstj. hafi haft menn sér til varnar eða fréttafrásagna og látið öðrum það eingöngu eftir. Ég tel því að embætti blaðafulltrúa sé hin mesta nauðsyn. Ég skil ekki þá hugsun, ef hefði átt að fara að bera undir Alþ. hvort átti að veita þessum manni eða hinum embættið. Slíkt er alveg óþekkt. Og þar sem búið var að gera till. um starfið í fjárlagafrv., þá sé ég ekki ástæðu til þessarar umr. En í alla staði er hún ósmekkleg að hæstv. forsrh. fjarstöddum.