08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4484 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

267. mál, stofnun og slit hjúskapar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá frsm. allshn. skrifaði ég undir nál. með fyrirvara og það sama gerði ég í nál. um frv. um lögræði, sem er 143. mál á dagskrá.

Þessi mál eru flutt af ríkisstj. og gera ráð fyrir lækkun hjúskaparaldurs annars vegar og lögræðisaldurs hins vegar. Ég tel að slíkt eigi að fylgja kosningarréttaraldrinum, vænti þess að svo verði, og í trausti þess hef ég skrifað undir nál. Ég vil jafnframt láta koma fram í þessu máli að Sjálfstfl., sem nýlega lauk landsfundi sínum, samþykkti á þeim fundi að beina þeim tilmælum til þingflokks og miðstjórnar flokksins að standa að og beita sér fyrir lækkun kosningaraldurs í 18 ár. Þessi mál eiga að hafa samleið að mínu áliti og það er þess vegna sem fyrirvari var gerður.