07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Mér finnst nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning sem kemur fram í málflutningi fjmrh., hvers eðlis það embætti sé sem hér er til umr. Í fyrri og síðari ræðu sinni lagði fjmrh. út af því, að hér væri um að ræða embætti sem væri hliðstætt svokölluðum aðstoðarráðherraembættum, en svo er ekki. Hér er um að ræða embætti samkv. venjulegri embættaskipan íslenska ríkisins, eins og glögglega kemur fram í blöðum í dag í viðtali við Magnús Torfa Ólafsson. Hér er um embætti að ræða sem ekki á að fylgja ríkisstj. á þann hátt að viðkomandi láti af starfi þegar ríkisstj. fer frá, heldur er þetta embætti sem felur í sér varanlega setu. Það er því alger misskilningur hjá hæstv, fjmrh., sem var meginrök hans fyrir vörn í þessu máli, að embættið væri af sama tagi og aðstoðarráðherraembætti. Svo er ekki. Þess vegna geta ekki gilt um þetta embætti neinar þær stjórnskipulegar eða þinglegar venjur sem hafa gilt um ráðningu aðstoðarráðherraembætta, enda væri það satt að segja undarlegur eðlisþáttur þessa máls, ef forsrh. hefði kosið að velja sér sem aðstoðarforsrh. formann í stjórnmálaflokki sem styður ekki þessa ríkisstj. svo að vitað sé.

Ég held að það sé alveg ljóst, að það eigi ekki að flækja þetta mál enn frekar með því að rugla þingheim og þjóðina um eðli þess embættis sem hér um ræðir. Og ég held að það sé nauðsynlegt að þessi atburður, ásamt öðrum þeim sem orðið hafa á undanförnum vikum, verði ýmsum hv. forráðamönnum Framsfl. tilefni til umhugsunar um það, hvað við stuðningsmenn þessarar ríkisstj. teljum eðlileg, þingræðisleg og stjórnunarleg vinnubrögð og hvers við ætlumst til um hvaða reglum sé fylgt í þeim efnum. Það er ekki hægt að brjóta æ ofan í æ eðlilegar venjur og rétt vinnubrögð í sambandi við þann þingræðislega og lýðræðislega skilning, sem við stuðningsmenn þessarar ríkisstj. teljum nauðsynlegt að sé ráðandi ef störf hennar eiga að vera farsæl fyrir þjóðina og alþýðu þessa lands.