08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4485 í B-deild Alþingistíðinda. (3591)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að fylgjast með þeirri afgreiðslu sem fram hefur farið á hv. Alþ. um þetta frv. vegna fjarveru frá þinginu. Ég vil lýsa nokkuð afstöðu minni til málsins.

Ég er samþykkur því að löggjöf sé sett á þá lund sem mörkuð er með frv.; tel enda að það hafi,talsverða þýðingu fyrir okkur, eins og málin standa nú, að setja þessum málum nokkru fastari skorður en gert hefur verið með lögum af okkar hálfu.

Ég vil segja það í tilefni af því sem kom fram hjá hv. þm., sem talaði næstur á undan mér, hv. þm. Friðriki Sophussyni, að ég tel að jafnvel þó að í frv. séu ákvæði um, hvernig við afmörkum fiskveiðilandhelgi okkar milli Íslands og Færeyja og Íslands og Grænlands, eigi það ekki á nokkurn hátt að geta breytt aðstöðu okkar til að fá þann rétt fram sem kynni að verða meiri á síðara stigi málsins þegar sett hafa verið alþjóðalög sem snerta málið. Það, sem hér er um að ræða, er að sjálfsögðu sett af okkar hálfu miðað við þær aðstæður sem í gildi voru þegar við tókum þær ákvarðanir. En ég get tekið undir með honum um að ekki er ólíklegt að til þess komi að við mundum óska eftir nokkurri endurskoðun, t. d. á mörkum fiskveiðilandhelginnar milli Íslands og Grænlands sérstaklega þar sem um er að ræða frá okkar hálfu miðlínu á móti langri strönd þar sem ekki er um möguleika að ræða á sjósókn á nokkurn hátt til nýtingar þess hafsvæðis sem þar er um að ræða. Það kemur vissulega til athugunar á sínum tíma að skoða slíkt nánar út frá þeim sanngirnissjónarmiðum sem nú er farið að leggja mikið upp úr í sambandi við hvernig skipta skuli hafsvæði á milli nálægra strandríkja. En það eru atriði sem má athuga síðar.

En það er eitt atriði sérstaklega, sem er að finna í 1. gr. frv., sem ég vil vekja athygli á. Vissulega er hægt að ganga frá samþykkt frv. í því formi sem hér er gert ráð fyrir, og vinna að breytingu síðar. Ekkert bannar okkur það. En ég vek athygli á að í 1. gr. frv. er 12 mílna landhelgi ákveðin í fyrsta skipti af okkar hálfu sem 12 mílna landhelgi og þá gengið út frá þeim grunnlínum sem við höfum miðað fiskveiðilandhelgi okkar við í öllum þeim átökum sem hafa farið fram um það mál. Ég hafði vakið á því athygli hæstv. utanrrh, og starfsmanna hans áður en þetta frv. var lagt fram, að ég teldi koma fyllilega til álita af okkar hálfu að við drægjum grunnlínur okkar á annan hátt en við höfum gert, þegar við setjum nú lög um þetta atriði, og færum þá eftir þeim reglum sem nú eru viðurkenndar svo að segja um allan heim varðandi drátt grunnlína. Það er einkum og sérstaklega á tveimur stöðum við landið sem þarna kæmi til nokkurra breytinga.

Það hefur alltaf verið talið að við hefðum getað dregið grunnlínur okkar fyrir Norðurlandi á annan hátt en við höfum gert, þ. e. a. s. hefðum dregið grunnlínu beint frá Ásbúðarrifi á Skaga í Grímsey og frá Grímsey að Rauðanúp, en þræddum ekki, eins og við höfum gert, með allmörgum millipunktum þarna á milli. Grunnlínur, sem væru dregnar á þann hátt, væru styttri en ýmsar grunnlínur, sem eru enn dregnar og gert ráð fyrir í þessari löggjöf annars staðar við landið, og mundu fylgja fyllilega eins vel lögum og afstöðu landsins og þær gera. Ég held að það sé enginn vafi á að við hefðum fyllilega lagalegan rétt til að draga grunnlínur okkar á þennan hátt fyrir Norðurlandi, en það mundi þýða að 12 mílna landhelgi okkar yrðu nokkru rýmri og sá réttur sem fylgir 12 mílna landhelgi. Hins vegar mundi verða mjög lítil breyting á heildarfiskveiðitakmörkunum þótt við breyttum grunnlínunum í þessum tilfellum. Sama er að segja um breytingu á grunnlínum fyrir Austurlandi, þar sem við gætum auðveldlega dregið grunnlínu beint frá Glettinganesi í Hvalbak og úr Hvalbak í Stokksnes. Þær grunnlínur yrðu mun styttri en sumar þær sem nú eru í gildi og mundu einnig uppfylla öll skilyrði um að fylgja lögum landsins betur en sumar aðrar grunnlínur nú þegar gera. Þetta mundi líka hafa þau áhrif fyrir Austurlandi að það svæði, sem yrði innan 12 mílna markanna, yrði stærra, en mundi hins vegar sáralítil sem engin áhrif hafa á miðlínuregluna milli Íslands og Færeyja.

Ég tel rétt að þegar við setjum lög um þessi atriði förum við eftir því, sem alþjóðlegar reglur viðurkenna, — þegar við ákveðum 12 mílna landhelgi og öll þau miklu réttindi sem slíku fylgja þá drógum við grunnlínurnar á annan hátt. Til þess lágu alveg ákveðnar ástæður á sínum tíma að við breyttum ekki hinum gömlu grunnlínum. Þegar við vorum að stiga fyrstu skref í landhelgismáli okkar töldum við, að átökin snerust um allt annað en breytingu á grunnlínum, og töldum ekki ástæðu til að hreyfa við þeim. En slíkt hefur augljóslega nokkurt gildi varðandi 12 mílna landhelgina.

Ég vildi að þetta sjónarmið mitt kæmi fram og það yrði þá til athugunar síðar, jafnvel þó ekki þætti rétt að breyta frv. við þessa gerð, sem ég er á að væri rétt að gera. En þá er geymd aths. frá minni hálfu og yrði vonandi tekið upp síðar að við breyttum grunnlínum og öðluðumst nokkru meiri rétt okkur til handa, sem við eigum að mínum dómi tvímælalaust samkv. alþjóðareglum.

Það var einnig hugmynd mín, þegar rætt hefur verið um á undanförnum árum að safna lagaákvæðum, sem snerta landhelgismál okkar, saman í eitt lagakerfi, eins og hér er gert, að í þeim lögum yrði miklu meira en er í þessu frv. Það má að vísu segja að ýmis réttindamál, sem snerta landhelgi og fiskveiðilögsögu, sé að finna í frv. Hins vegar er í rauninni ekki um heildarlandhelgislöggjöf að ræða. Áfram verður t. d. að glíma við þann vanda að þeir, sem brjóta landhelgislög okkar, yrðu dæmdir eftir ýmsum öðrum lögum, allt frá því að vera í meginatriðum dæmdir samkv. lögum frá 1923, af því að frv., eins og það liggur fyrir, safnar ekki saman þeim margvíslegu reglum sem gilda um landhelgisbrot, hvorki varðandi sektir né annað það sem er kveðið á um í lögum okkar að sé heimilt og ekki heimilt í fiskveiðilandhelgi. Ég hefði kosið að þessi löggjöf hefði verið allmiklu fyllri hvað það varðar, en ég tel hins vegar svo mikilvægt að fá frv. gert að lögum á þessu þingi að ég vil ekki verða þess valdandi á neinn hátt að tefja málið. Ég tel að það sé talsvert þýðingarmikið fyrir okkur að fá þessi lög sett, og má þá hyggja að því síðar að safna því saman, sem þarna skortir á að mínu mati, og einnig að breyta 12 mílna mörkunum á þann hátt sem ég hef gert aths. um. — Á þessu vildi ég vekja athygli hv. n., ef hún fjallar frekar um málið en orðið er.