08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4487 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Frsm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Þetta verða örfáar aths.

Ég ætlaði að stytta umr. áðan með því að vísa til þess sem ég sagði við 1. umr. málsins um það frv. sem hér liggur fyrir til umr., og ég ætla að halda mig við það. Ég sagði þá, að mér fyndist frv. mætti vera að ýmsu leyti fyllra og kannske ekki þörf beint á að safna ákvæðum saman eins og í frv. þessu er gert. En ég hef nú skoðað málið betur og komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að safna saman þeim lagaákvæðum sem nú eru þegar í gildi. Þannig er þetta frv., að ég hygg, samið af Hans G. Andersen sem hefur manna mesta eða hvað mesta þekkingu á alþjóðarétti og þá einnig íslenskum rétti í þessum málum eftir 30 ára starf að þeim.

Hv. þm. Friðrik Sophusson, 5. landsk. þm., sýndi mér, áður en ég flutti framsöguræðu, niðurstöður sem hann hafði komist að um aths. sem hugsanlegt væri að gera við frv. Að sjálfsögðu hefur hvorki mér né öðrum — og jafnvel ekki honum — gefist nægilegur tími til að kynnast efni þeirra. En ég hygg að það hafi vakað fyrir þeim, sem frv. samdi, að halda sig við það sem þegar væri í lögum, þegar landhelgin er undanskilin sem er auðvitað stækkuð, og að hann hafi þá hugsað sér það þannig að þetta tæki auðvitað eins og öll löggjöf þeim breytingum sem framtíðin kallaði á.

Ég hef ekkert á móti því að n. — þó að ég sé ekki þar formaður er ég einn nm. — taki þetta frv. til athugunar milli 2. og 3. umr. og reyni að mynda sér skoðun um hvort rétt sé að taka með þær breytingar sem hér hefur verið bent á bæði af hv. 5. landsk. þm. og eins af hv. 1. þm. Austurl., sem einnig hefur mikla þekkingu á þessum málum. En ég legg áherslu á að það verði eigi gert án samráðs við utanrrh., sent hefur flutt frv., látið semja það og leggur áherslu á að fá það lögfest áður en þessu þingi lýkur.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti.