08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4488 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

92. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 606 mælir meiri hl. heilbr.- og trn. með samþykkt frv. til l. um breyt. á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, með þeirri brtt. sem þar kemur fram. Matthías Bjarnason mun væntanlega gera grein fyrir afstöðu sinni við umr.

Þegar n. fékk frv. til meðferðar var leitað umsagnar Tryggingastofnunarinnar á frv., en í bréfi tryggingaráðs segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er viðurkennd staðreynd að meðferð með sól- og sjóböðum getur verið mjög gagnleg mörgum, en ekki öllum psoriasissjúklingum. Það hvort rétt sé að sjúkratryggingar kosti eða taki þátt í kostnaði við ferðir til sólarlanda í þessu skyni getur verið undir því komið hvort unnt sé að takmarka slíka ástæðu við þau tilfelli þar sem um brýna þörf er að ræða og tryggja að sú meðferð, sem sjúklingurinn fær í ferðinni, sé með þeim hætti að árangur verði sem bestur.

Tryggingastofnunin hefur leitað upplýsinga frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð um afstöðu sjúkratrygginga til hlunninda af því tagi sem frv. gerir ráð fyrir. Upplýsingar hafa borist frá Noregi og Danmörku og sýna að í báðum þessum löndum, og reyndar í Svíþjóð líka, kosta sjúkratryggingar loftslagsmeðferð við psoriasis og reyndar fleiri sjúkdómum, en með allt öðrum hætti en haft er fyrir augum í frv. Í báðum löndunum hefur verið samið um vistun psoriasissjúklinga á tilteknum stöðum: í Noregi um 105 pláss á stað nálægt Dubrovnik í Júgóslavíu og í Danmörku um vistun á tilteknum stað í Ísrael við Dauðahafið. Á báðum stöðunum er læknir og eitthvert hjúkrunarfólk frá heimalöndunum til þess að líta eftir meðferðinni. Umsóknir um vistun og val á sjúklingum til vistunar er háð allströngum skilyrðum. Í báðum löndunum er meðferð á kostnað sjúkratrygginga einskorðuð við áður á minnsta meðferðarstaði.

Í frv., sem fyrir Alþ. liggur, er gert ráð fyrir því, að tiltekinn styrkur til utanfarar verði greiddur sjúklingum sem teljast hafa þörf fyrir vistun á húðsjúkdómadeild ella, síðan sé sjúklingurinn látinn um það, hvernig hann hagar ferð sinni, og auðna látin ráða hvernig hún nýtist honum til heilsubótar. Aðferð Dana og Norðmanna hefur þann kost að veita betri tryggingu fyrir árangri þar sem meðferðin er undir eftirliti kunnáttufólks og sjúklingar þurfa að hlíta nokkrum aga, t. d. í sambandi við áfengisneyslu sem talin er sérstaklega neikvæð þessum sjúkdómi.“

Síðan segir:

„Tryggingaráð er meðmælt því, að gefinn verði kostur á meðferð psoriasissjúklinga í alvarlegri tilfellum með sjó- og sólböðum við góð skilyrði, en ræður til þess að það sé ekki með veitingu ferðastyrks, heldur farnar svipaðar leiðir og Norðmenn og Danir hafa farið. Ef horfið verður að því ráði að veita psoriasissjúklingum ferðastyrki til sólarlandaferða þykir eðlilegt að tryggingaráð úrskurði um slíka styrki að fenginni umsögn húðsjúkdómadeildar Landspítalans.

Ef miða má við fólksfjölda, sem ekki er víst, svarar sjúklingafjöldi Norðmanna til þess að ca. 32 íslenskir sjúklingar fengju þessa meðferð ár hvert eða 6 í einu miðað við 5 mánaða meðferðartíma. Óhugsandi er að íslenskt starfslið sjái um meðferð svo fárra, en trúlegt að hægt sé að semja um hæfilega mörg pláss þar sem líkar lækningar eru skipulagðar.“

Að lokum segir:

„Bent er á, að upp geti komið þrýstingur af hálfu fleiri sjúklingahópa um loftslagsmeðferð. Í Noregi gildir svipað fyrirkomulag að því er varðar gigtsjúkdóma og er það mun stærra mál. E. t. v. má ætla að betri aðstaða sé til meðhöndlunar hluta af gigtsjúklingum hér en í Noregi. Astma- og ofnæmissjúklingar eru hópur sem hugsanlega mundi knýja á um hliðstæða fyrirgreiðslu. Í Noregi hefur enn ekki verið tekin upp sérmeðferð á slíkum sjúklingum.“

Í framhaldi af afstöðu tryggingaráðs ákvað n. að fela Tryggingastofnun ríkisins að kanna möguleikana á að psoriasissjúklingar hér á landi kæmust inn í sama kerfi og gildir í Noregi og Svíþjóð, þ. e. a. s. að íslenskir psoriasissjúklingar fengju aðgang að meðferðarstofnunum í sólarlöndum. N. hefur borist bréf Tryggingastofnunarinnar sem svar við þessu, þar sem efnislega er sagt að Tryggingastofnunin hafi kannað hjá Helsedirektoratet í Osló um samvinnu við það um slíka vistun. Rætt var um 6–7 rúm fyrir þann tíma sem stofnunin hefur samning um, þ. e. um fjögurra vikna vistun 35–40 sjúklinga á ári. Var þessari málaleitan vel tekið af hendi Norðmanna, en ekki liggur enn fyrir hve mörg pláss gæti endanlega verið um að ræða eða nánar um skilyrði ef til samvinnu kæmi við Norðmenn.

Upplýsingar komu fram um að kostnaðurinn við meðferð í Júgóslavíu á árinu 1978 fyrir fjögurra vikna dvöl var 6500 norskar kr., en þá var ferðakostnaður frá Osló innifalinn. Eru það um 415 þús. ísl. kr. á núverandi verðlagi á hvern sjúkling eða samtals 14–15 millj. árlega fyrir 35 sjúklinga. Hér er að vísu um verulega meiri kostnað að ræða en gert var ráð fyrir í frv. Bent var á í grg. að greiða hluta ferðakostnaðar eða um 150 þús. í ferðastyrk, en þar ekki gert ráð fyrir slíkum heilsustöðvum sem hér er bent á, sem gerir meðferðina mun dýrari.

N. var sammála því áliti tryggingaráðs, að ef sama fyrirkomulag kæmist á og í Noregi og Svíþjóð fengist mun betri og öruggari trygging fyrir að slíkar ferðir væru ekki misnotaðar, auk þess sem betri bati og árangur hlyti að nást á heilsustöðvum sem væru undir eftirliti lækna og hjúkrunarfólks. Ef aftur á móti væri um beina ferðastyrki að ræða væri ekkert eftirlit með hvernig slík meðferð nytist psoriasissjúklingum til heilsubótar.

Þótt enn hafi ekki borist endanlegt svar frá Noregi um slíka samvinnu við Norðmenn, sem ég áðan nefndi, taldi meiri hl. n. rétt að slíkt ákvæði væri fyrir hendi í almannatryggingalögunum ef slík samvinna fengist, ef ekki nú, þá þegar slíkir möguleikar sköpuðust. Því mælir meiri hl. n. með eftirfarandi breytingu á frv. og samþykkt þess:

„Á eftir h-lið 39. gr. laganna komi nýr stafliður, i, er orðist svo:

Að greiða kostnað samkv. nánari ákvörðun tryggingaráðs vegna psoriasissjúklinga, sem að mati sérfræðinga þurfa að leita læknishjálpar á meðferðarstofnunum psoriasissjúklinga erlendis sem komi í stað sjúkrahúsvistar.

Tryggingaráð setur nánari reglur um greiðslufyrirkomulag og skiputag slíkra ferða, auk hámarksfjölda psoriasissjúklinga sem árlega geti notið slíkrar fyrirgreiðslu.“

Eins og fram kemur í brtt. er um verulega breytingu á fyrirkomulagi slíkra ferða að ræða frá því sem upphaflega var gert ráð fyrir í frv., en þar var kveðið á um ferðastyrki til psoriasissjúklinga sem nánar yrðu ákveðnir af tryggingaráði án annarra afskipta almannatrygginga af fyrirkomulagi og eftirlits með slíkum ferðum. N. telur að með ákvæði eins og í brtt. felst sé þessum málum mun betur fyrir komið, og þó að um meiri kostnað sé að ræða en að greiða slíkt í formi ferðastyrkja hljóðar ákvæðið upp á að greiðsla kostnaðar, sem af þessu fyrirkomulagi hlytist, sé nánar ákveðin af tryggingaráði, þannig að í höndum tryggingaráðs væri hvort um væri að ræða að greiða að fullu allan kostnað við slíka ferð eða einungis kostnað á sjálfri meðferðarstofnuninni. Einnig væri í höndum tryggingaráðs ákvörðun um árlegan fjölda þeirra, sem slíkrar fyrirgreiðslu nytu, í samráði við sérfræðinga, og skipulag á slíkum ferðum væri einnig í höndum tryggingaráðs.

Það er rétt að benda á að lokum að Norðmenn telja að ferðir á meðferðarstofnanir í Júgóslavíu hafi borið verulegan árangur, þann besta sem völ er á til að halda þessum sjúkdómi verulega niðri og þar með auka vinnugetu þessa fólks. Þó sjaldnast sé um varanlegan bata að ræða er loftslagsmeðferð bersýnilega mun árangursríkari og æskilegri en þær meðferðir sem psoriasissjúklingar hljóta — óþægilegar tjörumeðferðir — á sjúkrahúsum og skila áberandi minni árangri.

Meiri hl. n. mælir með samþykkt frv. með þeirri brtt., sem ég gat um, á þskj. 606.