07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

Umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það vekur óneitanlega athygli, hve samstarfið er gott meðal stjórnarflokkanna og hve mikil elska og umhyggja ríkir í herbúðum þeirra. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að hv. þm. Vilmundur Gylfason komi hér og geri aths. við þetta stórkostlega mál, enda vill hann nú opna allar umr. og styðja hlut fjárveitingavaldsins gegn framkvæmdavaldinu. En ég sé ekki betur en hægt sé að leysa þetta mál með farsælum hætti. Ég sé ekki betur en hægt sé að slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar að spara ríkissjóði útgjöld og hins vegar að koma í veg fyrir að Alþ. setji niður í viðskiptum sínum við forsrh., með því einfaldlega að þessir ágætu hv. þm., sem hér hafa vakið máls á þessu, beiti sér fyrir því, að ríkisstjórnarfundir verði haldnir í heyranda hljóði. Þá spara þeir hvort tveggja.