08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (3601)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Frv. felur aðeins í sér breytingar á samningsformi um ákvörðun búvöruverðs og er tilgangur frv. að teknir verði upp samningar á milli fulltrúa bænda annars vegar og fulltrúa ríkisvaldsins hins vegar. Þetta er gert með eins litlum breytingum á lögum og ég hygg að unnt sé. Kunnugt er að í till. þeirri til þál., sem ég og fleiri sjálfstæðismenn höfum lagt fram, er lagt til að framleiðsluráðslögum sé breytt í þessa átt. Þar er að vísu um að ræða þátt í miklu meiri og veigameiri breytingum á þeim lögum en hér er gert ráð fyrir og skal ég ekki rekja það frekar hér.

Í sambandi við þetta mál má segja að auðvitað má deila um það form sem hér er sett upp, en ég hygg að sá tilgangur frv. að taka upp samninga um búvöruverð milli bænda annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar sé þess háttar að ekki sé ástæða til að deila um hann. Ég fyrir mitt leyti hlýt að lýsa fylgi við þann tilgang frv., enda þótt, eins og ég hef sagt, megi deila um það form sem er valið.