09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands var lagt fyrir seinasta þing, en varð þá ekki útrætt. Miklar umr. urðu um málið á Alþ., og held ég að fullyrða megi að flestir þeir þm., sem til máls tóku, fögnuðu því að frv. skyldi komið fram um þetta efni og hreyfing væri í þá átt að tryggja tilvist Sinfóníuhljómsveitar Íslands með lögum. Það fór þó svo, að enda þótt frv. væri snemma fram komið entist þm. ekki veturinn til að afgreiða málið. Kom þar m. a. til að ýmislegt í frv. olli ágreiningi bæði innan þings og utan. Vissulega er ekki forsvaranlegt að ekki sé löggjöf til um þessa starfsemi og er reyndar furðulegt að svo mjög skuli hafa dregist að löggjöf væri sett um Sinfóníuhljómsveitina.

Hinn 31. ágúst 1978 skipaði menntmrh. nýja nefnd til að endurskoða það frv. sem ekki hafði náð fram að ganga á síðasta þingi. Það var fyrrv. menntmrh. sem skipaði þessa nefnd, enda var það daginn áður en núv. menntmrh. tók til starfa. Þessi nefnd starfaði í vetur og skilaði nýju frv. 3. apríl s. l.

Með því frv., sem hér er lagt fram og er nær óbreytt eins og nefndin skilaði því, er stefnt að því að Sinfóníuhljómsveit Íslands verði sjálfstæð stofnun sem njóti fjárstuðnings frá ríkissjóði og frá sveitarfélögum í næsta nágrenni Reykjavíkur, en geri auk þess viðskiptasamning við Ríkisútvarp, Þjóðleikhús og fleiri aðila um viðskipti sín, þ. e. a. s. flutning tónverka í þágu þessara stofnana. Frv. stefnir að því að allt rekstrarform hljómsveitarinnar miðist við sjálfstæðan skipulegan rekstur með það fyrst og fremst að markmiði að þjóna því menningarhlutverki sem sinfóníuhljómsveitir gegna um allan heim.

Ég sagði að frv. væri flutt nær óbreytt eins og nefndin hefði skilað því af sér. Breytingarnar, sem gerðar voru frá því að nefndin skilaði því af sér, eru annars vegar varðandi 4. gr. frv., þar sem áskilið er að formaður stjórnar hljómsveitarinnar hafi tónlistarmenntun, og hins vegar ákvæði 4. mgr. 6. gr. frv., þar sem segir að heimilt sé að ráða tónskáld til starfa í þágu hljómsveitarinnar í takmarkaðan tímá eða panta verk til flutnings hjá tónskáldum. Síðast talda ákvæðið er í fullu samræmi við hliðstæð ákvæði í þjóðleikhúslögum, þar sem heimilað er einnig að sú stofnun ráði sér höfund í takmarkaðan tíma. Ég tel sjálfsagt að stofnanir sem þessar, sem vissulega eru fyrst og fremst tengdar flutningi verka, stuðli með slíkum hætti að skapandi list.

Í frv. er gert ráð fyrir að stofn- og rekstrarkostnaður Sinfóníuhljómsveitarinnar skiptist með nokkuð öðrum hætti milli aðila en nú er. Þó er þar ekki neinn reginmunur á og alls ekki eins mikil breyting hvað þetta atriði snertir og var í hinu fyrra frv. Hlutdeild ríkissjóðs í rekstri hljómsveitarinnar er áfram rétt um 50% eins og er nú, þ. e. a. s. hlutdeildin er nú 50.6%, og gert ráð fyrir því að hún verði áfram 50%. Hlutdeild Ríkisútvarpsins hefur verið 28%, en lækkar við samþykkt frv. í 25%. Borgarsjóður Reykjavíkur hefur staðið undir 21.4% af kostnaði, en nú er gert ráð fyrir að borgarsjóður Reykjavíkur ásamt bæjarsjóðum nokkurra nálægra byggða, þ. e. bæjarsjóðir Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Seltjarnarness, standi undir 25% kostnaðar.

Í grg., sem nefndin, sem undirbjó frv., hefur samið, segir m. a.:

„Frv. það, sem lagt var fyrir 99. löggjafarþing, hafði mætt mikilli mótspyrnu Starfsmannafélags Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem taldi að ef frv. yrði að lögum í þeirri mynd, sem það lá fyrir í, mundi það stofna tilvist hljómsveitarinnar í voða. Lágu til þess aðallega þrjú atriði frv., sem sé ákvæði 6. gr. að stjórn hljómsveitarinnar skuli ráða „allt að 65 hljóðfæraleikara til fastra starfa við hljómsveitina“, og enn fremur ákvæði 3., 4. og 9. gr. frv. sem gera ráð fyrir Þjóðleikhúsinu sem rekstrar- og stjórnunaraðila hljómsveitarinnar. Þriðja atriðið, sem Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafði út á frv. að setja, voru tengsl þau milli yfirstjórnar og verkefnavalsnefndar hljómsveitarinnar, sem frv. gerði ráð fyrir, en þau eru sambærileg við það sem verið hefur undanfarna tæpa tvo áratugi og ekki gefið góða raun að mati Starfsmannafélagsins.“

Þau þrjú atriði, sem ég hef nú vikið að, hafa öll verið í endurskoðun. Er þá fyrst til að taka að nefndin varð sammála um að ákvæðið, sem áður var um fjölda hljóðfæraleikara þar sem fjöldinn var bundinn við 65, væri óeðlilegt og gæti valdið vanda einhvern tíma í framtíðinni þegar hugsanlega þyrfti að bæta einum hljóðfæraleikara við, þá væri óeðlilegt að slíkt atriði væri lögbundið og ekki hægt að hreyfa það eitt eða neitt nema fara til Alþingis og fá breytingu gerða á því. Allar nýjar ráðningar hjá opinberum stofnunum eru, eins og kunnugt er, háðar samþykki ráðningarnefndar ríkisins, og það mun að sjálfsögðu ná til nýrra ráðninga hjá Sinfóníuhljómsveitinni eins og hjá öðrum opinberum stofnunum. Stærðir sinfóníuhljómsveita eru háðar vissum lögmálum og nefndin taldi að fremur væri ástæða til að tryggja að stærð Sinfóníuhljómsveitarinnar færi ekki niður fyrir 65 stöðugildi hljóðfæraleikara. Það væri frekar að hér væri um að ræða lágmarkstölu, enda er talan 65 sú lágmarksstærð hljómsveitar sem fæst við flutning sinfónískra tónverka.

Í grg. frv. er forsaga þessa máls rakin allítarlega. Sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, sem áður hefur komið til meðferðar á Alþingi.

Ég held að það fari ekki milli mála að frv. hefur tekið breytingum til bóta, frá því að það var kynnt á Alþ. fyrir einu ári, og um það sé nú allt önnur og miklu betri samstaða en var þegar það var fyrst kynnt. Þakka ég það fyrst og fremst ágætu starfi þeirrar nefndar sem undirbúið hefur frv. og skilað hefur einróma niðurstöðum. Ég tel afar þýðingarmikið að hið allra fyrsta verði sett lög er tryggi áframhaldandi starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, því að starf hennar er, eins og flestum er kunnugt, grundvöllurinn í tónlistarlífi hér á Íslandi.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.