09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4517 í B-deild Alþingistíðinda. (3628)

184. mál, tollskrá

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég rakti nokkuð frekar gang þessara mála við umr. um málið í Nd. að gefnu tilefni og mun gjarnan endurtaka það sem ég sagði þá til upplýsingar um þessi mál.

Í fyrsta lagi vildi ég geta þess, að þær reglur, sem gilda um bifreiðamál ráðh., er að finna í reglugerð nr. 6 frá 1970, eins og kemur fram í aths. við þetta lagafrv. Þær reglur, sem samþ. voru í ríkisstj. í vetur, ég hygg að það hafi verið 9. mars, voru breytingar á þeirri reglugerð og verða að sjálfsögðu gefnar út lögum samkvæmt. Ég endurtek það sem ég sagði um þetta mál í Nd., að hér er ekki um neitt launungarmál að ræða, engin tilraun af hálfu ríkisstj. gerð til að smygla þessu máli í gegn án þess að Alþ. eða almenningur viti um það.

Í öðru lagi vil ég taka það fram, að reglurnar eru nokkur breyting á því sem áður hefur gilt í þessum efnum. Aðalbreytingin er fólgin í því að afnema þau réttindi sem ráðh. hafa haft um langa hríð og notað sér. Ég veit ekki um einn einasta ráðh., sem hefur setið í ríkisstj. Íslands, sem hefur ekki notað sér þessi fríðindi og sumir oftar en einu sinni. Þau hafa nú verið felld úr gildi. Það er meginbreytingin.

Ég vil taka fram, að það tók nokkuð langan tíma að semja reglurnar vegna þess að menn höfðu gert sér nokkurn mat úr þessu máli í kosningunum og í blöðum og fjölmiðlum. Í raun og veru vildi enginn ráðh. sérstaklega hafa frumkvæði að öðru leyti en breytingunni sem allir eru sammála um og felst í þessu lagafrv. Ég tók það því skýrt fram þegar verið var að vinna að þessum málum í ríkisstj., að ég vildi ekki hafa neitt frumkvæði eða flokkur minn, í þessu máli. Reglurnar voru því samþ. í ríkisstj. af öllum ráðh. frá öllum stjórnarflokkum og hafði enginn neina sérstöðu í því efni, það vil ég taka alveg skýrt fram. Ég og minn flokkur berum ábyrgð á samþykktinni eins og aðrir flokkar, en ekkert umfram það. Þannig eru allir á sama báti í þessu máli.

Þessar reglur, sem ég lýsti í Nd. og verða birtar lögum samkv. að sjálfsögðu, fjalla um að ráðh. hafi tvo kosti. Annar kosturinn er, að þeim sé lögð til bifreið af hálfu ríkisins, og hinn kosturinn er, að þeir kaupi bifreiðarnar sjálfir, greiði af þeim öll opinber gjöld og geri síðan samning við ríkið á eðlilegum viðskiptagrundvelli miðað við not bifreiðanna. Ég hefði kosið að allir ráðh. hefðu farið þá leið að kaupa sér bifreiðar, af þeirri einföldu ástæðu að slíkt er miklu hagkvæmara fyrir ríkið. Ef við tökum dæmi um að ráðh. kaupi bifreið sem kostar 6 millj. eða rúmlega það, eins og flestar þær bifreiðar, sem um er að ræða, kosta, á milli 6 og 7 millj., hefðu níu ráðh. greitt í ríkissjóð um 40 millj. kr. í opinber gjöld. Ef menn fara aftur á móti hina leiðina, að láta ríkið leggja sér til bifreiðar, kostar það ríkið sennilega um 20 millj. í útlögðum peningum, vegna þess að opinber gjöld ganga út og inn, en bifreiðarnar kosta 2–21/2 millj. kr., að ég hygg, án opinberra gjalda. Sem fjmrh. hefði ég því miklu heldur viljað að farinn hefði verið sú leið að menn ættu bifreiðarnar sjálfir. En ekki er sanngjarnt að mínum dómi að ætlast til þess að allir ráðh. séu skyldaðir til þess að leggja til bifreiðar. Þess vegna álít ég eðlilegt og sjálfsagt að sú regla sé einnig að ráðh. eigi kost á bifreið til embættisstarfa sinna, eins og raunar hefur verið regla í landinu um marga áratugi þó að hún hafi ekki verið notuð nema að takmörkuðu leyti vegna þeirra sérfríðinda sem hafa fylgt niðurfellingu á opinberum gjöldum. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að hagkvæmara er fyrir einstaka ráðh. að láta ríkið leggja sér til bifreið en að gera það sjálfir. Það verða þeir þó auðvitað sjálfir að meta. Sumir ráðh. hafa valið þann kost að láta leggja sér til bifreiðar og aðrir hafa valið þann kost að kaupa þær sjálfir. Því verða þeir auðvitað að ráða sjálfir þegar valkostir eru fyrir hendi.

Ég tel það svo sjálfsagt mál að ekki þurfi að ræða það, að ráðherraembættum fylgi bifreiðar. Auðvitað er spurning um hvernig þær reglur eigi að vera. Þetta eru þær reglur sem núv. ríkisstj. hefur sett og orðið sammála um. Sjálfsagt má um þær deila, ég efast ekki um það. En það hefur aldrei verið hugmyndin að þær væru neins konar leyndarmál að neinu leyti, enda verða þær að sjálfsögðu birtar sem breytingar á þeirri reglugerð sem enn þá er í gildi.