07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svar hans fyrir hönd fjarverandi dómsmrh., en mér fannst hann leggja of mikla áherslu á byggingu kexverksmiðjunnar sem slíkrar. Það var ekki ætlun mín, að talað væri um það, heldur hitt, sem segir í leiðara Vísis í gær, en þar kemur fram fullyrðing um að fyrrv. hæstv. viðskrh. hafi misnotað aðstöðu sína á herfilegan hátt. Ég vona að hæstv. dómsmrh. líti öðrum augum á ósk um rannsókn á ummælum þeim sem fram koma í ritstjórnargrein Vísis, en láti ekki nægja, eins og virðist vera tilgangur hæstv. fjmrh., að segja hér úr ræðustól að greinin hafi ekki við rök að styðjast og þar með sé málið búið. Ég vil undirstrika, að hér er ekki um frétt að ræða, heldur ritstjórnargrein, sem lesin er upp í ríkisfjölmiðlum og þeir látnir bera óhróður um menn sem viðkomandi ritstjóri vill gera tortryggilega í augum þjóðarinnar, og í þessu tilfelli er um forsrh. landsins að ræða.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En ef stuðningsmenn hæstv. forsrh. sjá enga ástæðu til þess að rannsaka til hlítar þau ummæli sem við hafa verið höfð í ritstjórnargrein dagblaðsins Vísis í gær um vinnubrögð fyrrv. hæstv. viðskrh., þá tel ég það mjög alvarlegt. Ég óska samt eftir því, að þessi fsp. mín verði lögð á borð dómsmrh. og hann svari henni betur sjálfur, þar sem hæstv. fjmrh. telur sig ekki geta það hér og nú.