09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (3647)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín þeirri fsp., hver væri stefna ríkisstj. í kaupgjaldsmálum. Í stuttu máli má svara henni svo, að ríkisstj. hafi ekki gert neina breytingu á stefnu sinni í kaupgjaldsmálum. Stefnan í kaupgjaldsmálum af ríkisstj. hálfu er því sú hin sama sem birtist í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna. Hún var á þá lund, að að því skyldi stefnt í samráði við aðila vinnumarkaðarins að grunnkaup héldist óbreytt til ársloka 1979. Jafnframt var svo gert ráð fyrir að endurskoðun yrði á ýmsum atriðum í fjárhagsmálum, atvinnu-, kjaramálum, skattamálum og öðru sem þar er upp talið og jafnframt þá tekið fram að sú athugun skyldi m. a. ná til vísitölukerfis. Ég lít svo á að ríkisstj. hafi í stórum dráttum lifað samkv. þessum stefnuskrárheitum sínum. Þannig hefur hún haft samráð við launþegasamtök og hefur ekki gripið inn í varðandi ákvarðanir um grunnkaup með lagasetningu. Þess vegna er það ekki rétt eða nákvæmt sem hv. 4. þm. Reykv. veik að að því er varðar aðgerðirnar 8. sept. og eins þau ákvæði, sem hann nefndi, í viðnámslögunum.

Samkv. ráðstöfunum í septemberbyrjun var um að ræða að vísitalan væri lækkuð að vísu, en hún var lækkuð með niðurgreiðslum og með því að fella niður vissa skatta. Var ekki með þeim hætti hallað á launþega í því efni eða breytt samningum um þessi atriði. Að því er varðar viðnámslögin var að höfðu samráði við launþegasamtök sérstaklega ákveðið að um 8% í vísitölu skyldu ekki koma fram, en á móti komu ráðstafanir sem áttu að jafngilda þeirri skerðingu. Um skattalækkun var því að ræða, auknar niðurgreiðslur fram yfir það, sem hafði verið gert ráð fyrir í septemberbyrjun. og svo aðgerðir í félagsmálum sem voru taldar jafngilda tiltekinni prósentutölu. Hins vegar var sýnt að gera þurfti frekari aðgerðir í þessum efnum, og að því var einmitt vikið sérstaklega í aths. með lögum um viðnámsaðgerðir og þar sett fram ýmis mörk sem að skyldi stefnt strax upp úr áramótum.

Út frá því grundvallarsjónarmiði, að ekki skyldi gripið inn í grunnkaup kjarasamninga, var einmitt til komið samkomulagið við opinbera starfsmenn. Þeir áttu samkv. samningum rétt á 3% grunnkaupshækkun 1. apríl, ef ég man rétt, og sama máli gegndi um þá, sem eru í Bandalagi háskólamanna, og reyndar um fleiri aðila, eins og um bankamenn. Hins vegar var farin sú leið, að gert var samkomulag við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja um að gerðar skyldu vissar breytingar á svokölluðum kjarasamningalögum og réttindum og skyldum opinberra starfsmanna breytt nokkuð með slíkri löggjöf gegn því að þeir féllu frá 3% áfangahækkun. Samkomulagið var skilorðsbundið, bundið þeirri forsendu að það yrði samþ. við allsherjaratkvgr. félaga í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Nú liggur fyrir að atkvgr. hefur farið fram og úrslit hennar segja til um að samkomulagið var fellt.

Ástæðurnar fyrir því samkomulagi, sem gert var við BSRB, voru sem sagt að með því var verið að stefna að því að hægt væri að standa við þá stefnu sem ríkisstj. hafði markað, að grunnkaup skyldi ekki breytast á árinu 1979. Nú eru forsendur hins vegar alveg brostnar fyrir slíku samkomulagi og því hljóta samningar við BSRB og BHM um umsamdar áfangahækkanir, um 3% launahækkun, að gilda og það samningsákvæði hlýtur að koma til framkvæmda. Þeir fá því greidd sín 3%.

Fyrirvari í efnahagslögunum tók aðeins til þessara aðila. Grunnkaupshækkanir til annarra aðila koma því aðeins til greina að um þær sé samið. Það á við um bankamenn eins og aðra, þó að þeir hefðu áður gert samninga varðandi grunnkaupshækkun í áföngum. Ég tel eðlilegt — (GH: Nær slík grunnkaupshækkun ekki til bankamanna? Fyrirgefðu, ég tók ekki eftir því.) Já, þrátt fyrir að bankamenn hefðu gert samninga hliðstæða á vissan hátt samningum ríkisstarfsmanna vildu þeir ekki eiga aðild að neinu samkomulagi við ríkið um að gefa eftir 3% gegn því að fá tilsvarandi samningsréttarákvæði. (FrS: Náðu ekki lögin til þeirra?) Lögin ná til bankastarfsmanna eins og annarra og lögin ákveða um alla starfsmenn, að undanskildum þeim sem ég nefndi, hvert grunnkaup skuli vera og við hvað það skuli miða. Má segja að í raun og veru sé það eina undantekningin frá þeirri meginstefnu sem ríkisstj. setti fram um að hún mundi ekki hafa afskipti af grunnkaupi með lögum. Ákveðið var við hvað skyldi miða grunnkaup 1. mars, en jafnframt er ákveðið að það grunnkaup og þær vísitölugreiðslur, sem um er að ræða, eða það kerfi skuldi haldast óbreytt þar til öðruvísi hefur verið um samið.

Það, sem ég vildi sagt hafa, er að ég tel eðlilegt að þegar félagar í BSRB og háskólamenntaðir menn hafa fengið þær grunnkaupshækkanir sem nú er um að tefla, 3%, fái aðrir launþegar almennt sömu grunnkaupshækkun. Ég lít svo á að annað væri í mesta máta ósanngjarnt og alveg sérstaklega þegar litið er til bakgrunnsins, en þegar samið var um áfangahækkanir á sínum tíma við BSRB og BHM var gert ráð fyrir að þegar þær kæmu til framkvæmda hefðu nýir almennir kjarasamningar verið gerðir sem trúlega hefðu leitt til hækkana á grunnkaupi. Þess vegna var ákvæðið um áfangahækkanir þessara aðila, sem höfðu lengri og lögboðinn samningstíma, sett sem eins konar öryggisákvæði. Nú höfðu hins vegar ekki neinir almennir kjarasamningar átt sér stað á þessu tímabili, þrátt fyrir að kjarasamningar almennt hafi verið lausir um lengri tíma, svo að þess vegna má segja að út af fyrir sig hefði ekki verið nein fórn af hálfu opinberra starfsmanna að láta 5% eftir liggja, og þá sérstaklega þegar þeir áttu á móti að fá viss réttindi sem þeir töldu sér mikilvæg. En látum það liggja á milli hluta. Þeir hafa tekið ákvörðun um þetta efni með þeim hætti sem þeim var frjálst og rétt að gera og við það verður að sitja. Þeir fá 3% hækkun, af því að til eru samningar um það, en ég tel jafneðlilegt og sanngjarnt að aðrir hljóti hliðstæða hækkun, en til þess þarf samninga á milli aðila vinnumarkaðarins, bæði launagreiðenda og launaþiggjenda. Ég vil, þangað til annað reynist, trúa því að þeir aðilar, sem þar eiga hlut að máli, geti verið mér sammála um að það sé sanngjarnt og það muni þess vegna verða gert — ef ekki skapast ný viðhorf.

Auðvitað er ekki því að neita að skapast hafa ný viðhorf í kjaramálum, í raun og veru alls ekki vegna aðgerða ríkisstj., heldur af öðrum ástæðum, vegna þeirra áfangahækkana sem nú hljóta að eiga sér stað, vegna þaklyftingar af verðbótum og af öðrum ástæðum. Ég skal ekki fara nánar út í þá sálma, af því að tíminn er naumur, hverjum sé um að kenna að svo er komið að þakinu var lyft af verðbótum eða að áfangahækkun kemur til greina. Ég gæti að vísu talað eitthvað um það efni við hv. 1. þm. Austurl. og e. t. v. mundi hv. 4. þm. Reykv. hafa eitthvert gaman af því, en ég sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu að fara að skemmta honum með því. (Gripið fram í.) Já, af því að ég er góðgjarn maður og vil yfirleitt gleðja þá sem eru í þungum þönkum. (Gripið fram í. ) Já, en ég ætla að neita mér um það nú og halda mig við þær spurningar sem hv. 4. þm. Reykv. setti fram, og þeim hef ég í raun og veru svarað, um hvernig fari með þau atriði sem hann spurði um.

Það er þó eitt atriði eftir, má segja kannske, sem ekki er komið svar við í máli mínu, og það er sú spurning hans, hvers vegna sáttafundir væru ekki haldnir í farmannadeilunni. Ég get ekki svarað neinu til um það. Eins og hv. 4. þm. Reykv. veit er það á valdi ríkissáttasemjara að taka ákvörðun um hvenær hann telur vænlegt og eðlilegt að kalla sáttafundi saman. Ég veit með öruggri vissu að hann tekur ekki við neinum fyrirmælum frá neinni ríkisstj. um slíkt. Ég hygg að flestar ríkisstj., a. m. k. þær sem ég þekki til, hafi látið hann allsjálfráðan um þau efni. Ef hann hefur ekki kvatt saman sáttafund nú um sinn hlýtur hann að telja að þurft haft eitthvað lengri tíma til að melta þessi mál, ef svo má segja. Án þess að ég viti nokkuð um það á þessari stundu þykir mér sennilegt að þess verði ekki langt að bíða að sáttafundur verði kallaður saman í farmannadeilunni.

Það er rétt að ýmis utanaðkomandi atvik hafa gerst, sem ég ætla ekkert að fara að fjölyrða um hér, sem hafa áhrif í þessum efnum, eins og t. d. sú gífurlega olíuverðshækkun sem átt hefur sér stað og hefur óhjákvæmilega orðið til að magna verðbólguskriðu.

Ég vil svo aðeins segja það, að fyrsta markmið þessarar ríkisstj. er atvinnuöryggi. Af því leiðir að þannig verður að standa að atvinnurekstri að hann geti gengið, að hann geti borið sig hvert sem rekstrarform hans er. Annars verður atvinnuöryggi ekki tryggt. Mikilvægur þáttur í því er auðvitað sá, að verðbólgu sé haldið í skefjum — ég ætti sjálfsagt þó heldur að orða það þannig að verðbólguaukningu sé haldið í skefjum. Reynt hefur verið að gera það, t. d. með ráðstöfunum í sept., með ráðstöfunum um mánaðamótin nóv.–des., með viðnámslögunum og svo loks með efnahagslögunum þar sem nokkrar skorður voru settar við vísitöluhækkunum. Vil ég þá sérstaklega nefna það meginsjónarmið, sem fékkst þar viðurkennt, að það megi og geti verið eðlilegt að taka tillit til utanaðkomandi áhrifa þegar verðbótavísitala er reiknuð út. Þó að það spor, sem stigið er með efnahagslögunum í því efni, sé ekki stórt miðar það þó í rétta átt að mínum dómi.

Það er rétt að átt hafa sér stað verðlagshækkanir. Þess er fyrst að geta, að þar getur verið um að ræða verðlagshækkanir sem við ráðum lítið við, eins og á olíu, eða verðhækkun á innfluttum varningi yfirleitt. Í öðru lagi er þar um að ræða verðlag á ýmissi opinberri þjónustu m. a. Hv. 4. þm. Reykv. vék að því og taldi, að mér skildist, að farið hefði verið fullrausnarlega í verðhækkanir á opinbetri þjónustu. (GH: Ég lagði engan dóm á það.) Engan dóm á það? Ég legg þá dóm á það. Ég er því alveg sammála. Ég er þeirrar skoðunar að farið hafi verið óþarflega djarft í hækkanir á opinberri þjónustu. Um það ætla ég ekki að ræða við hv. 1. þm. Austurl. Við sátum saman í stjórn og vorum þá hjartanlega sammála um þau efni þá. Ég er ekki vanur að bera á torg það, sem gerst hefur á ráðherrafundum, né það, sem bókað er í gerðabók ríkisstj., en ég veit að hann getur fengið upplýsingar um þessi efni frá ráðh. Alþb. og gert sér grein fyrir hverjir stóðu að því að bera fram óskir um verðhækkanir á opinberri þjónustu og hverjir stóðu sem fastast gegn þeim.

Eins og ég sagði áðan er ljóst að það hafa, og þýðir ekki að loka augunum fyrir því, skapast nokkur ný viðhorf í efnahagsmálum vegna þeirra atburða og þeirrar framvindu sem á sér stað um þessar mundir. Má vel vera að það megi orða svo, að ríkisstj. hafi tapað orrustu, en ég vil ekki ganga svo langt að segja að hún hafi tapað stríðinu. Þessi mál eru öll í skoðun hjá aðstandendum ríkisstj.

Ég er ekki á þessu stigi í stakk búinn til að gefa frekari upplýsingar en þær sem ég nú þegar hef gefið varðandi þær spurningar sem hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín, en ég vil þó segja að mér er ljóst að þessi mál verður að taka til endurskoðunar með tilliti til ýmissa staðreynda. Ég held að ríkisstj. verði á ýmsan hátt að taka þessi mál fastari tökum en hingað til, ef þau markmið eiga að nást sem sett voru fram í upphafi stjórnarsamstarfsins. En samt er skynsamlegast að fara með gát, því að hér er um viðkvæm mál að tefla, hér er um flókin mál að ræða og þess vegna rétt að gefa sér tóm til að íhuga þau og rasa ekki að neinu leyti um ráð fram. — Þessi mál munu öll verða skoðuð á næstunni, en ég get ekki á þessu stigi gefið ákveðnari upplýsingar en ég nú hef gert.