09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4530 í B-deild Alþingistíðinda. (3649)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv., formaður Sjálfstfl., ræddi nokkuð um hræsni sem menn héldu uppi í tali um launa- og kjaramál. Það var sá tónn í ræðu hans sem gaf mér sérstakt tilefni til að biðja um orðið. Mér er svipað farið og hæstv. forsrh.: ég nenni ekki að eyða tíma Alþ., eins og ástatt er núna, í umr. utan dagskrár til þess að gera upp ýmislegt við samstarfsfélaga mína sem standa að ríkisstj. Það er auðvitað ekkert um að villast, að þar er ekki á ferðinni einn flokkur og aðilar ekki samstiga í einu og öllu. Engan speking þarf til þess að gera sér grein fyrir því. En þegar formaður Sjálfstfl. kemur fram við þetta tækifæri og talar um hræsnistal í sambandi við stefnu og tal manna um launa- og kjaramál kastar fyrst tólfunum.

Rétt er að víkja að nokkrum þáttum þessa máls. Ekki síst á formaður Sjálfstfl. sjálfur þarna hlut að máli. Ekki hefur vantað að undanförnu að formaður Sjálfstfl. og blöð Sjálfstfl. klifuðu á því í tíma og ótíma að núv. stjórnarflokkar hafi svikið það meginstefnumál sitt að taka samningana í gildi. Við skulum koma að því til þess að leiðrétta hv. þm. og útskýra um hvað er að ræða.

Um hvað var að ræða þegar menn töluðu um að taka samningana í gildi? Þar var um að ræða að afnema þau lög sem þessi hv. þm. stóð fyrir að setja á Alþ. í febrúarmánuði 1978 og í maímánuði 1978 og miðuðu að almennri launaskerðingu. Þetta var gert. Þau lög voru afnumin og gildandi samningar leiddir í lög og látnir gilda. Þar var aðeins gerð ein undantekning. Það er rétt að gera sér grein fyrir hver sú undantekning var. Sett var svonefnt vísitöluþak á laun. Allt tal formanns Sjálfstfl. og þeirra sjálfstæðismanna um svikin á því að taka samningana í gildi er út af því vísitöluþaki. En hvernig var svo það vísitöluþak til komið? Það segir líka nokkra sögu.

Samningarnir, sem mest hefur verið deilt um, voru gerðir í júnímánuði 1977, svonefndir sólstöðusamningar. Þá hafði verið deilt alllengi um hvernig kaup og kjör ættu að vera í landinu. Alþýðusamband Íslands, sem fór með samningaumræðurnar af hálfu launþega, lagði fram till. um að hafa vísitöluþak við útreikning launa. Þær till. liggja allar fyrir og þeim verður ekki neitað. En hvað gerðist svo á sama tíma? Fremstu og áhrifamestu menn í Sjálfstfl., sem sátu við boðið atvinnurekendamegin, aðalstuðningsmenn hv. 4. þm. Reykv., Geirs Hallgrímssonar, svöruðu till. ASI í samningagerðinni í júnímánuði 1977 með því að krefjast þess að ekki yrði sett vísitöluþak á laun, heldur yrði vísitalan greidd upp allan launastigann. Þetta veit formaður Sjálfstfl. mætavel vegna þess að opinberar skýrslur liggja fyrir um það. Og hann veit líka að sérstök sáttanefnd, sem vann að því að leysa kjaradeiluna þá, leysti hana með miðlunartillögu um að fyrri hluta samningstímabilsins skyldi gilda vísitöluþak á laun, en seinni hluta samningstímabilsins skyldi vísitalan greidd að fullu upp úr. Þannig var tekið nokkurt tillit til beggja. En svo gerist það að formaður Sjálfstfl., höfuðpaur atvinnurekendavaldsins í landinu, og flokkur hans ásaka núv. ríkisstj. og alveg sérstaklega okkur í Alþb. fyrir að við höfum svikið þjóðina með því að löggilda ekki vísitöluna upp úr á öll laun. Um þetta hefur umr. þeirra allan tímann snúist. Þeir ásaka okkur fyrir að hafa ekki staðið við að vísitalan skyldi verða greidd upp úr á öll laun allan tímann. Ef það er ekki hræsni að leyfa sér svo að standa upp á Alþ. og halda ræðu á þann hátt sem hv. formaður Sjálfstfl. gerði, þá veit ég ekki yfir hvað á að nota orðið hræsni.

En þetta er ekki það eina sem sannar þessa hræsni. Við skulum athuga nokkur fleiri atriði sem snerta launamálin. Æ ofan í æ hefur formaður Sjálfstfl. komið upp í þessa pontu, síðan núv. ríkisstj. tók við völdum, til að ræða um launamál og látið þá hafa eftir sér í blaði sínu, Morgunblaðinu, það sem hann hefur sagt hér, þar sem hann hefur ásakað ríkisstj. fyrir að hafa brotið launasamninga, brotið kjarasamninga 1. sept., 1. des. og við allar launaákvarðanir með því að greiða niður verðlág á vörum. Hann hefur hvað eftir annað komið upp í ræðustól og haldið þessu fram og látið blað sitt þruma það yfir landslýð að alltaf væri verið að svíkja kaupið, alltaf verið að svíkja samninga með því að greiða niður vöruverð. Ég hef nokkrum sinnum gert aths. við málflutning hv. formanns Sjálfstfl. og undrast eins og fleiri að hann skyldi leyfa sér hræsnistal eins og þetta. Hann veit að það hefur verið viðurkennt allan tímann af öllum þeim sem fjalla um launamál á Íslandi að niðurgreiðslur t. d. á landbúnaðarvörum, sem skila sér fyllilega varðandi kaupmátt launa, væru regla sem mætti framkvæma og hefur verið viðurkennd af launþegum ekki síður en atvinnurekendum, án þess að verið væri að brjóta kjarasamninga. En formaður Sjálfstfl. þurfti á því að halda að reyna að æsa upp launþega í landinu, hræsna fyrir þeim: hann væri talsmaður þeirra og aðrir væru að hafa kaupmáttinn af almenningi. Það er einmitt út frá því sama sem hefur verið að gerast núna og gerðist á síðasta landsfundi Sjálfstfl., að hann er að gera samþykkt um að Sjálfstfl. sé nú eini dyggi og trúi málsvari launafólks í landinu. Það hafa eflaust einhverjir brosað þegar slík samþykkt var gerð, að Sjálfstfl. væri einum trúandi fyrir hagsmunum launastéttanna, með allar þær staðreyndir á borðinu sem ég hef bæði minnst á hér og þær sem menn hafa verið að reka sig á að undanförnu. Og svo vita allir menn í landinu að það var forustulið Sjálfstfl. núna sem beitti sér fyrir því í öllum þeim stéttarfélögum innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem þeir höfðu nokkur ítök í að sjálfstæðismenn legðust allir á eina sveif og reyndu að fella það samkomulag sem forustumenn samtakanna höfðu gert við ríkisstj. (Gripið fram í: Laglegt er nú fylgið sem Íhaldið á að hafa.) Nei, það á ekki andmælendur samkomulagsins alla, en þeir beittu sér fyrir að fella það. Það er mikill misskilningur, að þeir eigi svo mikið fylgi, en þessir forustumenn beittu sér fyrir andófi við samkomulagið, eins og ég sagði. Þeir beittu sér fyrir andófi, börðust gegn samkomulaginu, en svo koma þeir á eftir upp í ræðustól á Alþ. með hræsnisbros og glotti yfir því hvernig til hefur tekist. (Gripið fram í: Þeir eru þó orðnir áhrifamiklir alla vega.) Því miður hefur Sjálfstfl. haft of mikil áhrif lengi á Íslandi og m. a. á Alþ., en það er kominn tími til þess að minnka þau áhrif. (Gripið fram í. ) Já, og við skulum minnast á nokkur fleiri atriði, þó að ég játi að hér sé skorinn tími og ekki aðstaða til að fara út í alla þætti.

Hverjir skyldu ráða fyrir liði þar sem er Vinnuveitendasamband Íslands nema ýmsir af helstu forustumönnum og stuðningsmönnum formanns Sjálfstfl.? Og hvað hafa þeir verið að dunda við að undanförnu? Hafa þeir kannske verið að hugsa sérstaklega um þjóðarhag? Þeir leyfa sér að koma með hverja rosaspána af annarri í sambandi við verðlagsþróun. Nú spá þeir að verðbólgan verði 107% á ári! Hvað þýðir sá spádómur? Af hverju er verið að senda hann frá sér? Til þess að reyna að æsa upp ástandið í landinu þannig að það sé auðvitað fjarstæða að launþegarnir geti fallist á að bíða með grunnkaupshækkanir, — 107% verðbólga er fram undan. — Auðvitað er þetta sagt vitandi hvaða áhrif það hefur í almennum viðskiptum og á efnahagsþróun í landinu. Það er ekki ofsagt að þeir séu hræsnarar sem standa að slíkum spádómum og koma svo fram á Alþ. og þykjast hvergi hafa komið nærri.

Ég sagði í þrætum við samstarfsmenn mína í ríkisstj. að auðvitað væri algerlega ófullnægjandi að ætla að afsaka það sem gerst hefði í sambandi við lyftinguna á vísitöluþakinu. Sú samþykkt um greiðslu á launum sem var gerð í borgarstjórn Reykjavíkur og jafnt mínir flokksmenn sem aðrir eiga þar aðild að, var gerð og birt opinberlega áður en núv. ríkisstj. setti lög í septembermánuði um vísitöluþak á laun. Þar hafði Reykjavíkurborg og ýmis önnur bæjarfélög valið sér ákveðna leið til að greiða starfsmönnum sínum í áföngum. Það voru því engin rök að mínum dómi fyrir því að ætla að svipta vísitöluþakinu af öllum launastéttum í landinu, þó að menn hafi vitað áður en samkomulagið var gert í septembermánuði að Reykjavíkurborg og ýmsir fleiri væru búnir að taka ákvörðun um allt annað fyrirkomulag.

En eins og ég sagði ætla ég ekki að eyða tíma Alþ. í þessum umr. í að deila um hvaða ástæður liggja að mínum dómi fyrir því að vísitöluþakið fauk af án allra mótaðgerða. Það er mál út af fyrir sig sem við eigum eflaust eftir að ræða um.

En ég vil segja að sá tónn, sem kom fram hjá formanni Sjálfstfl., hv. 4. þm. Reykv., er að mínum dómi alveg augljóslega í hræsnisanda. Þar er um hræsnisanda að ræða vegna þess að Sjálfstfl. hefur í stjórnarandstöðu og í málflutningi sínum að undanförnu borið þunga ábyrgð á því hvað hefur verið að gerast í launamálum. Fyrst reyrði hann þann hnút sem núv. ríkisstj. varð að reyna að leysa, og síðan hefur hann haldið þannig áfram að hann hefur ásakað núv. stjórnarflokka fyrir að hafa ekki sett samningana í gildi að því leyti til að láta vísitöluna mæla upp eftir öllum launastiganum. Hann veit mætavel að samningarnir voru settir í gildi að öðru leyti en þessu. Hann hefur reynt að telja mönnum trú um að samningarnir hafi verið falsaðir með því að lækka verð á nauðsynjavörum. (FrS: Sem ekki voru til í landinu.) Sem ekki voru til í landinu? Annað segja opinberar tölur en að ekki hafi verið landbúnaðarvörur til. Við höfum alltaf haft of mikið af þeim, en ekki að þær væru ekki til. Það hefur farið eitthvað fram hjá þeim hv. þm. sem greip fram i: hjá mér ef hann hefur ekki orðið var við að til væru landbúnaðarvörur í landinu.

Ég get tekið undir það með hæstv. forsrh. að skapast hafi ný viðhorf í launamálum sem hæstv. ríkisstj. þurfi að taka á. Það er engin leið út úr þeim vanda að einn og einn aðili sé að reyna að koma sök á annan fyrir sumt af því sem gengið hefur úrskeiðis. Reynt hefur verið að koma því á okkur Alþb.-menn sérstaklega að vísitöluþakið fauk af. En ég segi: Það er margyfirlýst og hefur t. d. komið best fram undir stjórn Guðmundar J. Guðmundssonar hjá Verkamannasambandinu og hafði komið fram frá hálfu Alþýðusambandsins í síðustu kjarasamningum, að það hefur ekki verið stefna Alþb. manna að krefjast þess að vísitalan mældi hlutfallslega upp eftir öllum launastiganum. Aðrir aðilar hafa haft þá kröfu uppi. Hitt er mér alveg ljóst, að ekki er vandalaust að skipa þeim málum svo að réttlátt sé hvernig eigi að haga vísitöluuppbótum á laun. En það mun hvorki þýða fyrir Sjálfstfl. né samstarfsflokka okkar að reyna að koma einhverri sök á okkur fyrir að vísitöluþakið var tekið af. Við erum nú sem áður reiðubúnir til þess að setja lög um að vísitöluþak verði sett á þannig að hæstu laun fái ekki mælda í prósentum fulla vísitölu. Þar hefur ekki staðið á okkur. Hinu dettur mér að sjálfsögðu ekki í hug að neita, að ekki séu ýmsir aðilar innan Alþb. eins og innan allra annarra flokka sem gjarnan vildu að verðbótavísitalan á laun mældi upp eftir öllum launastiganum, en það hefur ekki verið meginafstaða flokks míns né helstu forsvarsmanna hans í sambandi við gerð kjarasamninga. Dæmin sýna og sanna allt annað.

Ég þarf svo ekki að segja meira að sinni í sambandi við þá ræðu sem hér var flutt af hálfu formanns Sjálfstfl.