07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði það af yfirlögðu ráði að fara ekki frekar út í fyrirsögn þessa leiðara: „Alþingisloddarar“. Ég held að við séum allir taldir hálfgerðir loddarar hér á hv. Alþ. og oft hefur Alþ. verið kallað leikhús. Ég vildi ekki undirstrika fyrirsögnina. Hitt er annað mál, og ég vil benda hv. síðasta ræðumanni á það, að þrátt fyrir hin ómerku ummæli í þessum leiðara er ég 1. þm. Reykv. og kem út úr prófkjöri í Reykjavík nr. eitt. Þann stuðning, sem þarf til áhrifa á Alþ. vantar því ekki meðal kjósenda, heldur innan 20 manna þingflokks, og er það tvennt ólíkt.

Hitt er svo annað mál en það, sem kemur fram í greininni, og varðar þær till., sem ég hef flutt um Samband ísl. samvinnufélaga, að ég get fullvissað hv. þm. um að álit skólameistara okkar beggja, orð hans um Samband ísl. samvinnufélaga og það sem þarf til rökstuðnings þeirri till., sem ég hef flutt, kemur fram þegar till. verður tekin á dagskrá. Ég mun ekki undir neinum kringumstæðum beygja mig undir að till. mínar verði dregnar til baka, en vona að þingheimur þori að samþykkja þær.