09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4547 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram í umr. er orðin mikil þörf á að hraða afgreiðslu þessa máls, en þar sem líka er ljóst að fyrir liggja allstórar brtt. við frv. og í ljós hefur komið að allmikill vilji er fyrir því að líta nánar á þær brtt., þ. e. a. s. brtt. á þskj. 571 frá Pálma Jónssyni varðandi lántöku til Rafmagnsveitna ríkisins, brtt. á þskj. 591 frá Ellert B. Schram, sem hann var að gera grein fyrir, og þar að auki brtt. á þskj. 459 varðandi framkvæmdir við Kröflu, og svo nú síðast brtt. á þskj. 640 frá Albert Guðmundssyni, tel ég mikla þörf á að fjh.- og viðskn. fái tækifæri til þess að athuga málið á milli 2. og 3. umr. Ég legg áherslu á að 2. umr. geti lokið nú og mér er kunnugt um að flestir eða allir þeir, sem eiga hlut að máli, geta fallist á að draga brtt. sínar til baka til 3. umr. þannig að n. gefist kostur á að líta nánar á till. Fundur er þegar boðaður í fjh.- og viðskn. á morgun og ætti því málið ekki að tefjast þó að fallið yrði frá því að hafa 3. umr. um málið í kvöld, hún gæti væntanlega orðið á næsta reglulegum fundi.

Ég skal ekki ræða þessar till. frekar en ég hef áður gert, nema till. á þskj. 640 frá hv. 1. þm. Reykv., Albert Guðmundssyni. Ég held að það sé rétt, sem kom fram hjá honum, að þarna sé um eðlilega breytingu að ræða. Mér hefur a. m. k. aldrei komið til hugar að ætlunin væri að breyta lögum til langframa með þessu skyndifrv. sem er aðeins, eins og nafnið ber vott um, um sérstakar ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar ársins 1979. Er þá vitanlega eðlilegt, ef óskað er eftir breytingum á lögum varðandi ferðamál eða Ferðamálasjóð, að fram komi brtt. um það efni annars staðar en við þetta frv. Augljóslega er um að ræða að sú takmörkun á greiðslum til sjóðsins, sem gert er ráð fyrir í 20. gr. frv., á að gilda aðeins á árinu 1979. Að öðru leyti standa svo lögin eins og gert er ráð fyrir í öllum hinum greinum frv. Ég geri því ráð fyrir að n. geti fallist á að þessi till. verði samþ., en rétt er að fara fram á að hún verði dregin til baka til 3. umr. og n. fái tækifæri til að skoða hana ásamt hinum till. á fundi sínum á morgun.