09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (3689)

265. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 547 er stjfrv. til l. um breyt. á lögum nr. 59 28. maí 1969, um tollheimtu og tolleftirlit, sbr. lög nr. 2 11. febr. 1970, lög nr. 66 30. apríl 1973 og lög nr. 71 31. maí 1976, um breyting á þeim lögum. Þetta mál kemur frá Ed. og var lagt þar fram, eins og ég sagði áður, en sem stjfrv.

Megintilgangurinn með frv. er að breyta ákvæðum í VI., VII. og IX. kafla laga um tollheimtu og tolleftirlit, sem lúta að viðurlögum, greiðslufresti á aðflutningsgjöldum og endursendingum á innfluttum vörum. Mér þykir rétt að benda á í því sambandi, að þær breytingar fela ekki í sér neina nýsmíði, með þó þeirri undantekningu er lýtur að innheimtu vaxta vegna greiðslufrests á aðflutningsgjöldum. En ef frv. þetta verður að lögum munu ákvæði þess verða tollgæslunni til styrktar og veita einstökum ákvæðum laganna meiri virkni en nú er, m. a. með því að létta álagi af dómstólum, eins og ég mun víkja nánar að á eftir.

Um einstakar greinar frv. vil ég taka fram eftirfarandi: Í núgildandi lögum um tollheimtu og tolleftirlit er í 1. mgr. 52. gr. heimilað að leggja viðurlög við því, ef þeirri skyldu er eigi fullnægt að aðflutningsgjöld séu greidd af innfluttri vöru innan þeirra tímamarka, talið frá komudegi flutningsfars til landsins, sem ákveðin kunna að vera í reglugerð. Meðal þeirra viðurlaga, sem ákvæðið heimilar að lögð verði á, er greiðsla dráttarvaxta, 11/2%, fyrir hvern byrjaðan mánuð talið frá gjalddaga aðflutningsgjalda. Þegar ofangreint ákvæði var lögfest á árinu 1969 voru dráttarvextir innlánsstofnana 11/2%. Frá því að ákvæðið var lögfest hafa dráttarvextir hækkað smátt og smátt og eru nú 3%. Telja verður eðlilegt að dráttarvextir, sem á kunna að verða lagðir samkv. ákvæðum laga um tollheimtu og tolleftirlit, séu í sem mestu samræmi við þau vaxtakjör sem gilda almennt um þetta efni. Er því lagt til samkv. frv. að ákvæðið verði rýmkað að þessu leyti. Þykir rétt að um ákvörðun hámarks og lágmarks dráttarvaxta gildi í þessum efnum lög um Seðlabanka Íslands frá 1961. Jafnframt má benda á að samhljóða ákvæði um útreikning dráttarvaxta er nú einnig að finna m. a. í lögum um tekju- og eignarskatt svo og í söluskattslögum.

Samkv. 2. gr. frv. er lagt til að tekið verði upp í 53. gr. laganna ný mgr. er kveði skýrt á um að heimilt skuli að reikna sömu vexti af aðflutningsgjöldum, sem greiðslufrestur kann að verða veittur á samkv. 53. gr. laganna, og gildi almennt í lánsviðskiptum innlánsstofnana. Ég tel eðlilegt að sömu vaxtakjör verði látin gilda hvort sem ríkissjóður veitir greiðslufrest á aðflutningsgjöldum eða innflytjendur fjármagna greiðslu þeirra með fyrirgreiðslu lánastofnana.

Samkv. gildandi lögum um tollheimtu og tolleftirlit er heimilt að falla frá innheimtu aðflutningsgjalda þegar endursendar eru vörur sem ekki hefur verið vitjað, viðtakandi hefur ekki fundist að eða neitað hefur verið um viðtöku á. Það skilyrði er m. a. sett fyrir niðurfellingu gjalda, að viðkomandi tollyfirvaldi sé sett full fjártrygging, peningatrygging, fyrir greiðslu aðflutningsgjalda þar til varan er sannanlega komin til útlanda. Ákvæði þetta um fulla fjártryggingu hefur íþyngt endursendendum vara og valdið nokkrum erfiðleikum í framkvæmd þegar um endursendingu á vörum hefur verið að ræða sem veruleg gjöld hafa hvílt á. Þá hefur einnig reynst ýmsum erfiðleikum bundið fyrir sömu aðila að afla staðfestingar á að endursend vara hafi skilað sér á áfangastað, þar sem erlend tollyfirvöld hafa gert ýmsar breytingar á starfssviði tollsins m. a. í þessum efnum.

Af þessum sökum er lagt til samkv. 3. gr. frv. að gildandi ákvæði verði rýmkuð þannig að fjmrn. geti ákveðið í reglugerð eða með öðrum fyrirmælum að heimilt skuli í þessum tilvikum að víkja frá skilyrði um peningatryggingu og krefjast í þess stað fullnægjandi tryggingar í öðru formi. Enn fremur er lagt til að horfið verði frá því að krefja um staðfestingu erlends tollyfirvalds um innflutning vöru til viðkomandi lands, en í þess stað verði gjöld felld niður þegar það hefur verið tryggt nægilega að mati viðkomandi tollyfirvalds að varan verði endursend til útlanda, t. d. með flutningi vöru undir tolleftirliti um borð í flutningsfar.

Auk þeirra breytinga, sem ég hef vikið að, er svo lagt til að frestur til endursendingar á gölluðum vélum samkv. 3. tölul. 57. gr. verði nokkuð lengdur, eða úr 6 mánuðum í eitt ár, jafnframt því sem skýrar verði kveðið á um efnisinntak ákvæðisins.

Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði með 4. gr. frv. á 2. mgr. 76. gr. núgildandi laga, um sektir og eignarupptöku tollyfirvalda, eiga fyrst og fremst rætur sínar að rekja til þeirra miklu verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá því að þeim var síðast breytt á árinu 1976. Má ljóst vera að verðlagsbreytingar þessar hafa haft mjög neikvæð áhrif á þau markmið sem að er stefnt með ákvæðum þessum, þ. e. að auka varnað við refsiverðu atferli, jafnframt því sem heimildum þessum er ætlað að létta álagi af dómstólum vegna hinna smærri brota.

Samkv. gildandi lögum er heimild tollyfirvalda til ákvörðunar sekta bundin við 80 þús. kr. og heimild til ákvörðunar eignarupptöku við 150 þús. kr. Þar sem ákvæði þessi eru eigi lengur í neinu samræmi við verðlagið í landinu og gera má ráð fyrir að áhrifa þeirra til varnaðar gæti því lítt lengur, auk þess sem eigi er lengur hægt að afgreiða minni háttar mál utan réttar og því nauðsynlegt að senda þau hinum ýmsum embættum til afgreiðslu, er lagt til að heimild tollyfirvalda til ákvörðunar sekta verði bundin við hámarksfjárhæðina 350 þús. kr. og heimild til eignarupptöku verði bundin við 500 þús. kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. Ég hygg að ekki hafi verið neinar deilur um það í Ed., enda er það nánast tæknilegt mál. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.

Ég vil einnig beina þeim tilmælum til n., að hún hraði afgreiðslu málsins. Hér er um að ræða, eins og ég sagði áður, nánast tæknileg málefni sem ekki eru pólitísks eðlis á neinn hátt, en þyrfti nauðsynlega að afgreiða fyrir þingslit.