10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4568 í B-deild Alþingistíðinda. (3700)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Sú þáltill. sem hér um ræðir, var flutt snemma á þessu þingi af Helga F. Seljan, sem er 1. flm. till., og 4 öðrum hv. þm. Till. fjallar um eflingu þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum og hefur atvmn. fjallað um till. og orðið sammála um að mæla með samþykkt hennar með einni breytingu þó. Sú brtt. sem atvmn. leggur til, er á þskj. 634 og varðar 3. mgr. till. — 3. mgr. í upphaflegu till. er á þessa leið:

„Jafnframt skal lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins falið að veita heimaaðilum aðstoð við stofnun fyrirtækja, sem komið er á fót samkv. þessari áætlun, og skipuleggja fjármagnsöflun til framkvæmda.“ Og síðan segir: „Sérstaklega ber að kanna möguleika á stofnun framleiðslusamvinnufélaga í sveitum og skal því rekstrarformi veittur sérstakur stuðningur. Stuðla ber að því, að veitt verði óafturkræf framlög úr Byggðasjóði eða ríkissjóði til stuðnings smáiðnaði í sveitum, allt að 15% stofnkostnaðar.“

Þannig var þessi mgr. orðuð í upphaflegu till., en sú breyting, sem atvmn. leggur til og er á þskj. 634, varðar þá setningu í þessari mgr. sem hefst á orðunum: „Sérstaklega ber að kanna möguleika“ — og þá er sú setning samkv. brtt. á þessa leið: „Sérstaklega ber að kanna möguleika á stofnun og stuðningi við framleiðslusamvinnufélög í sveitum.“

Það er sem sagt ekki kveðið jafnskýrt á um og í upphaflegu till. að þessu ákveðna rekstrarformi, framleiðslusamvinnufélögunum, skuli veittur sérstakur stuðningur heldur er orðalagið haft á þann veg samkv. brtt., að það verði sérstaklega kannaðir möguleikar á stofnun og stuðningi við framleiðslusamvinnufélög í sveitum.

Skylt er að taka fram að á fundi í atvmn., þar sem nál. var afgreitt — nál. á þskj. 633, voru 3 nm. fjarverandi, þeir Friðrik Sophusson, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón G. Sólnes, en einn þessara fjarstöddu nm., hv. þm. Friðrik Sophusson, mun hafa flutt sérstaka brtt. aðra við þáltill. og þeirri brtt., sem hann mun sjálfur mæla hér fyrir, mun hafa verið dreift á borð hv. þm. í upphafi þessa þingfundar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um efni till. að öðru leyti. Umr. fóru fram um hana við 1. umr. og var þá fyrir henni mælt af hv. þm. Helga F. Seljan. En ég tek það fram að lokum, að undir það nál., þar sem mælt er með samþykkt þessarar till. með þeirri einu breytingu sem ég hef gert grein fyrir, skrifa auk mín þeir hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson, Ágúst Einarsson og Stefán Valgeirsson.