10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4572 í B-deild Alþingistíðinda. (3708)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í upphafi þings flutti ég fyrirspurn til hæstv. utanrrh. vegna frétta sem þá höfðu komið fram um mengun á Keflavíkurflugvelli — alvarlega mengun — sem enginn virtist vita af hverju stafaði né hver hefði valdið.

Í svari við þeirri fyrirspurn lýsti utanrrh. sérstöku trausti á þeim starfsmönnum rn. og annarra aðila, sem á undanförnum árum hefðu átt að fylgjast með mengunarvörnum á Keflavíkurflugvallarsvæðinu. Í ræðu hæstv. utanrrh. við það tilefni kom fram, að hann taldi þessi mál vera í allgóðu stjórnunarlegu lagi. Flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr., hv. alþm. Gunnlaugur Stefánsson, flutti hins vegar við það tækifæri og síðan þegar hann mælti fyrir þessari till. mjög harða og mjög vel rökstudda gagnrýni á sinnuleysi, athugunarleysi, slóðaskap og önnur þau uppgjafareinkenni, sem hafa snert afskipti opinberra aðila af mengunarmálum við Keflavíkurflugvöll á undanförnum árum, og þá margháttuðu gagnrýni sem forsvarsmenn byggðarlaganna á þessu svæði hafa sett fram gagnvart yfirvöldum bandaríska hersins.

Það eru mér mikil vonbrigði að aðstandendur þessarar till., sem ég tel vera þm. Alþfl., sem hafa gerst hér í vetur og fyrir kosningar miklir og harðir talsmenn aukins sjálfstæðis Alþingis gagnvart embættismannavaldinu og nauðsynjar þess að Alþ. láti sjálft til sín taka við upplýsingaöflun og rannsóknastarf af þessu tagi, skuli nú koma hér og gerast megintalsmenn þess, að þessari till. verði vísað í þann gamla farveg sem mjög rækilega var lýst hér af þm. Alþfl. og mér og fleirum í upphafi vetrar hvaða niðurstöður hefur haft í för með sér.

Ég sé ekki að neitt nýtt hafi komið fram á síðustu mánuðum sem feli í sér rökstuðning fyrir því, að það stjórnkerfi, sem á undanförnum árum hefur reynst vanhæft og vanbúið til þess að sinna nauðsynlegum mengunarvörnum á Keflavíkurflugvallarsvæðinu, sé nú allt í einu þannig úr garði gert að þeir sömu menn sem lýstu yfir vantrausti á þessu kerfi við upphaf þings í vetur eru nú reiðubúnir að fela því þessa athugun.

Ég hefði talið sjálfsagt og eðlilegt, miðað við þá stefnu sem Alþfl. hefur fylgt, þá ríku áherslu á sjálfstæð rannsóknastörf Alþingis og nauðsynlegt eftirlitshlutverk þjóðþingsins gagnvart embættismannavaldinu, að þessi till., sem var flutt af hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni, hefði verið samþ. Ég skil á engan hátt hvað hefur valdið þeim sinnaskiptum sem nú koma fram. Ég vona bara að það boði ekki uppgjöf þessara sömu ágætu manna fyrir því mikla kerfi ráðsmennsku og embættissýslu og vanhæfni sem þróast hefur hér á undanförnum árum og þeir hafa manna mest gagnrýnt. Nú allt í einu við lok þings, eftir allan hávaðann í vetur, er bara lagt til að fara sömu gömlu brautina, að vísa rannsókninni inn í kerfið á nýjan leik. Ekki hefði ég átt von á því eftir allan hávaðann í vetur, eftir allar yfirlýsingarnar um nauðsyn á eflingu þingræðisins, eftir allar yfirlýsingarnar um nauðsyn á sjálfstæðri rannsóknastarfsemi Alþingis, eftir allar yfirlýsingarnar um að lýðræðið í landinu sé í raun og veru í hættu ef ekki verði snúið við á þessari braut, þá komi þessir sömu ágætu herramenn hér og leggi bara til að þessari fyrstu till. um nýja starfshætti, sem afgreidd er hér á þinginu, sé bara vísað inn í gömlu pípurnar á nýjan leik.

Ég hefði því kosið að þessi till. hefði fengið aðra afgreiðslu, utanrmn. þingsins og þingið sjálft hefðu tekið að sér þessa rannsókn, eins og hv. þm. hafa lagt til um annað atriði sem snertir Keflavíkurflugvöll, en málinu ekki vísað til ríkisstj. Og ég bíð og vona að þetta merki ekki allsherjaruppgjöf þessara ágætu vina minna, hv. þm. Alþfl., í baráttu þeirra fyrir bættu stjórnkerfi í landinu. En ef þetta er fyrsta uppgjafarflaggið sem þeir reisa nú við lok þessa þings, þá hefur til lítils verið unnið.