10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4573 í B-deild Alþingistíðinda. (3709)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hlýt að mótmæla þeim stóryrðum sem hv. síðasti ræðumaður lét hér falla um sinnuleysi, slóðaskap og ég man nú ekki, ég kann ekki þetta orðalag. Ég hef ekki tamið mér þennan málflutning og ég læri hann ekki á svipstundu, þó ég hafi reyndar heyrt hann nokkuð oft í vetur, það skal játað. En að sinnuleysi hafi ríkt um mengunarmál á Suðurnesjum af hálfu utanrrn. í fortíð eða a. m. k. í minni tíð, því mótmæli ég.

Hitt er svo annað mál og er rétt hjá hv. þm., að lítið hefur á unnist, það skal játað, vegna þess að málið er erfitt og hér er ekki einungis um olíumengun að ræða, heldur mengun af mörgum annars konar völdum, eins og skýrsla sú, sem gerð var undir minni stjórn í rn., ber með sér og hv. alþm. hafa haft aðstöðu til að kynna sér. Minn klaufaskapur kann að liggja í því að hafa ekki flutt Alþ. skýrslu um það sem ég hef þó gert í þessum málum.

Í tilefni af ummælum, sem hv. 10. þm. Reykv., Svava Jakobsdóttir, lét falla, vil ég staðfesta það, að hún kom fram með þessa sömu athugasemd í utanrmn. á fundi sem haldinn var þar á mánudagsmorgun, og ráðh. utanríkismála lofaði okkur því, að slík skýrsla yrði Alþ. flutt, þannig að ég tel málinu fyllilega borgið með þessu móti. Auk þess vil ég taka fram enn þá einu sinni, að n. Alþ. hafa ekki rannsóknarvald eins og nú er um hnúta búið. Ef hin síaukna krafa um rannsóknastörf t. a. m. utanrmn. á að ná fram að ganga þarf að breyta þingsköpum. Þetta hef ég margsinnis bent hér á. Það þarf annaðhvort að veita n. aukið vald, aukin fjárráð og tiltaka verkefni þeirra eða — sem ég kysi fremur — að samþ. margflutt frv. um umboðsmann Alþingis.