10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (3712)

299. mál, fjáraukalög 1977

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1977 sem hefur verið lagt fram sem 299. mál, þskj. 646. Frv. það til fjáraukalaga fyrir árið 1977, sem hér liggur fyrir, er samið af fjmrn. samkv. till. yfirskoðunarmanna Alþingis eins og fram kemur í ríkisreikningi fyrir árið 1977. Leitað er heimildar fyrir öllum umframgjöldum að undanskildum alþingiskostnaði, skipt eftir rn. Er hér sami háttur hafður á og verið hefur á undanförnum árum. Eins og fram kemur á þskj. nemur heildarfjárhæð frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1977 15 milljörðum 235 millj. 655 þús. kr. Í framsögu minni með frv. til samþykktar á ríkisreikningi fyrir árið 1977 mun ég gera grein fyrir stærstu liðum reikningsins. Hér mun ég hins vegar víkja að stærstu frávikum gjaldareiknings og fjárl. Af heildarfjárhæð þessa frv., rúmlega 15 milljörðum kr., er talið samkv. sérstöku yfirliti í ríkisreikningi, á bls. 196, að rekja megi 4 milljarða 22 millj. kr. til sérstakra laga, markaðra tekna og notkunar heimildarákvæða. En ríkisreikningi hefur verið útbýtt meðal hv. þm. Stærstu efnisþættir þessa frv. taldir í ráðuneytaröð eru þessir:

Fræðslumál menntmrn. 2 milljarðar 138 millj. kr. Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir samtals 906 millj. kr. Löggæslukostnaður og dómkostnaður 1 milljarður 628 millj. kr. Umframgjöld félmrn., 752 millj. kr., voru nær eingöngu vegna Húsnæðismálastofnunar og Byggingarsjóðs verkamanna. Framlög til Tryggingastofnunar ríkisins og Atvinnuleysistryggingasjóðs 1 milljarður 838 millj. kr. Gjöld til heilbrigðismála fóru 3 milljarða 160 millj. kr. fram úr áætlun, aðallega vegna gjaldfærslu kaupverðs Landakotsspítala að upphæð 1 030 millj. kr. og framlags til Landspítalans um 1 milljarð 21 millj. kr. Þá eru gjöld vegna Vegagerðar sem reyndust 732 millj. umfram fjárlög. Niðurgreiðslur á vöruverði námu 667 millj. kr. umfram fjárlög. Gjöld vegna vaxta- og verðbótagreiðslna lána námu 1 milljarði 75 millj. kr. umfram fjárlög. — Ég hef nú talið upp helstu efnisþætti umframgjalda ríkisreiknings fyrir árið 1977.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta mál og geri till. um að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjvn. að lokinni þessari umr.