10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

253. mál, rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég tek hér til máls til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þá þáltill., sem hér er til umr., um langtímastefnu í rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna. Ég tel að með þessari þáltill. og því starfi, sem á bak við hana liggur, sé stigið gott skref sem eigi að geta skipt nokkrum sköpum í sambandi við rannsóknastarfsemi í landinu og það sem við væntum að upp úr því starfi spretti.

Langtímaáætlunin, sem þáltill. vísar til, er, eins og fram hefur komið, unnin á vegum Rannsóknaráðs og í samvinnu við forstöðumenn helstu rannsóknastofnana í landinu, og í henni er að finna stefnumörkun sem ég vil taka mjög undir og ég held að geti verið vegvísandi fyrir þessar stofnanir og starfsemi á þessu sviði á næstu árum. Þarna er stefnt að því að stilla saman rannsóknastarfsemina og þróunaráætlanir fyrir atvinnuvegi landsmanna, en fram til þessa hefur þessi starfsemi til muna verið of sundurvirk. Jafnframt því sem nauðsynlegt er að veita auknu fjármagni til þessara þarfa, þá er einnig nauðsynlegt að nýta það takmarkaða fjármagn, sem við höfum yfir að ráða, sem allra best í þessu skyni.

Ég vil, jafnframt því sem ég tek undir þá stefnumörkun sem felst í langtímaáætlun Rannsóknaráðs og hér er flutt, vekja athygli á því markverða starfi sem unnið hefur verið um margra ára bil á vegum Rannsóknaráðs og full ástæða er til að alþm. gefi gaum. Þar hefur verið mörkuð stefna á mörgum sviðum og komið fram ábendingar um æskilega þróun í atvinnulífi landsmanna og fleiri þáttum sem geta verið vegvísandi, en hafa fengið ónógan stuðning til þessa að mínu mati. Ég vænti þess, að nú verði nokkur þáttaskil í þessum efnum með væntanlegri samþykkt þessarar þáltill., og vil ítreka það, sem þegar hefur komið fram í máli hv. frsm. og hæstv. menntmrh., að þegar hefur verið lögfest með lögum um stjórn efnahagsmála, sem þingið afgreiddi fyrir röskum mánuði, að tekið verði mið af þessari langtímaáætlun og þeirri stefnumörkun, sem í henni felst, við þróunaráætlanir fyrir atvinnuvegina. En 25. gr. þessara laga er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Til stuðnings áætlunargerðar um atvinnuvegina skal efla rannsóknastarfsemi í þeirra þágu með hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um það efni, eins og hún verður staðfest af stjórnvöldum.“

Ég er sannfærður um að möguleikar á að bæta Lífskjör í þessu landi á komandi árum eru ekki síst undir því komnir að við berum gæfu til þess að breyta starfsháttum varðandi rannsóknastarfsemi í landinu frá því sem verið hefur, veita til þessara þátta meira fjármagni en menn hafa gert til þessa og stilla saman þá starfsemi sem þarna er um að ræða. Þarna reynir á pólitískan vilja og ekki síst á fjárveitingavaldið og þar með Alþ. Ég hef trú á því, að innan núv. ríkisstj. sé sterkur stuðningur við þá stefnu sem hér er mörkuð, og ég tel að fyrir iðnaðinn í landinu, svo að tekið sé dæmi af þeim vettvangi þar sem ég helst sýsla, sé afar mikið undir því komið að rannsóknastarfsemi verði efld á þann hátt sem hér er lagt til. Og ég vil ítreka fylgi mitt við þessa þáltill. og þá langtímaáætlun sem hún vísar til.