10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4590 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

245. mál, greiðsla orlofsfjár sveitafólks

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Við hv. þm. Ingvar Gíslason höfum leyft okkur að flytja á þskj. 295 till. til þál. um greiðslu orlofsfjár sveitafólks. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram könnun á því, hvort ekki væri heppilegast að greiða orlofsfé beint til bænda.“

Íslensk bændastétt á við talsverðan vanda að etja í framleiðslumálum. Ríkisstj., Alþingi og samtök bænda hafa verið að leita leiða til þess að bægja þessum vandræðum frá. Einn alvarlegasti hluti vandans er einmitt sá, hve kjör bændanna eru misjöfn, þannig að þeir, sem eru verst settir og minnsta hafa framleiðsluna, eiga við mjög alvarlega erfiðleika að etja. Bústærð og aðstaða bænda er mjög misjöfn. Talið er að um áramót hati verið 4472 bændur á landinu og þeir eiga til jafnaðar tæp 400 ærgildi. Innan við 200 ærgildi eiga 963 þessara bænda og innan við 300 ærgildi 1860. Búnaðarsamband Skagafjarðar hefur gert athugun á skiptingu framleiðslumagns í héraðinu. 47% skagfirskra bænda, sem best eru settir og búa á bestu jörðunum og búnir að gera nauðsynlegustu framkvæmdir, framleiða 70% af þeim landbúnaðarvörum sem framleiddar eru í Skagafirði. 25% hinna lakast settu bænda framleiða einungis 10% af þeim landbúnaðarvörum sem framleiddar eru í Skagafirði. Á tímum þegar draga þarf saman seglin er mjög brýnt einmitt að verja þessa bændur og aðra, sem svo er ástatt um, eftir megni. Skagafjörður yrði ansi miklu snauðari ef þessi 25% yrðu að gefast upp við búskap og hætta honum. Ég tel að það yrði héraðsbrestur.

Verðlagskerfi landbúnaðarins er þannig uppbyggt, að laun bænda eru reiknuð út frá áætluðu vísitölubúi og við það er verð búvara miðað. Orlofsfé bænda, 8.3%, er nú hluti af afurðaverðinu. Við flm. viljum láta kanna hvort ekki væri heppilegra að ríkið greiddi hverjum bónda um sig ákveðna upphæð sem meðalorlof, en samkv. verðlagsgrundvellinum frá 1. mars 1979 var vísitölubóndanum ætlaðar 483 þús. kr. í orlof. Með þessu yrði stuðlað að jöfnuði meðal bænda innbyrðis, jafnframt því sem stuðlað væri að lækkun afurðaverðs og þar með lækkun framfærslukostnaðar. Þannig mundi hluti þess fjár, sem nú er varið til niðurgreiðslnanna, e. t. v. nýtast betur.

Það er mikill mismunur á efnahag bænda, eins og ég sagði áðan, kjörum þeirra í hinu daglegu lífi. Ég vil reyndar telja að margir af hinum smærri bændum séu ekki síður hamingjusamir eða glaðir, en mér finnst það réttlætismál að menn séu jafnir í fríum sínum. Vegna eðlis búskapar á Íslandi er að sjálfsögðu ekki hægt að binda þessar greiðslur orlofsfjár við það endilega að bændur hafi tekið sér frí, eins og gert er í Noregi. Það hefur áður verið farið á flot með hugmyndir um breytta skipan á greiðslu orlofsfjár til bænda, en það strandaði á þeirri hugmynd að bændur yrðu að taka sér frí, þeir, sem ekki gætu komist að heiman á árinu vegna erfiðra kringumstæðna, fengju ekki þessa greiðslu, þeir yrðu að afsala sér henni. Þetta finnst mér ekki koma til greina. Aðstæður einstakra bænda geta verið slíkar að þeim sé ekki unnt að yfirgefa bú sín á hverju ári, en það er óeðlilegt að svipta þá þar með orlofsfé, sem þeir eiga rétt á, vegna sinna örðugu aðstæðna. Þá verður líka að gera ráð fyrir því, að þær bændafjölskyldur, sem hafa verulegan hluta tekna sinna af öðru en landbúnaði, fái einungis hluta orlofsgreiðslunnar.

Það eru uppi hugmyndir um greiðslu rekstrar- og afurðalána beint til bænda og jafnvel að senda niðurgreiðslurnar í stórslumpum beint til bænda. Þessar hugmyndir eru ekki til umr. hér og ég mun ekki ræða þær, en þessi hugmynd, sem ég er hér að brydda á, sýnist mér að sé framkvæmanleg. Í henni felst nokkur viðleitni til þess að bæta hlut hinna lakar settu. Vegna þeirra, sem alltaf halda að verið sé að hlunnfara ríkissjóð bændum til tekna, verð ég að endurtaka það, að þetta kemur sér á engan hátt illa fyrir ríkissjóð. Niðurgreiðslufjárhæðin mundi geta lækkað svo sem orlofsupphæðinni næmi. Þetta er einungis lítils háttar fjármunatilfærsla á milli bændanna sjálfra. Og mér finnst hún vera sanngjörn vegna þess að stærri bændur hafa notið þess að í landinu hafa verið smærri bændur og því aðeins hafa þeir haft þokkalegar tekjur að þeir, sem hafa langt neðan við vísitölubú, hafa orðið að búa við kröpp kjör. Mér finnst þessi hugmynd stuðla að jöfnuði og sanngirni.

Að lokinni þessari umr. hér í dag vil ég leyfa mér að leggja til að till. verði vísað til allshn. til athugunar.