10.05.1979
Efri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4593 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

283. mál, útvarpslög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að láta þess getið, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, og ég verð að segja það, að ég er mjög hlynntur þessu frv. vegna þess að ég álít að það sé algjörlega nauðsynlegt fyrir allar ríkisstofnanir, sem mikil umsvif hafa, að eiga húsnæði. Það er varla til sá einstaklingur eða sú fjölskylda í þessu landi sem vill ekki eiga húsnæði. Hið sama er með fyrirtæki, að þeim er mjög nauðsynlegt í þessu þjóðfélagi okkar að hafa það öryggi að eiga þak yfir höfuðið fyrir starfsemi sína. Ég tel það í raun og veru ekki vansalaust hve illa við höfum staðið að því að byggja yfir okkar meginstofnanir, og þess vegna, þó að ég væri ekki alveg öruggur um að þessi fjármögnun væri sú eina rétta, tek ég það fram, að ég mun greiða þessu máli atkv. og vil eindregið styðja að því að þessari merku menningarstofnun gefist færi á að eignast þak yfir höfuðið.