10.05.1979
Efri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4599 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að sjá að hugmyndir mínar um það, að ekki þurfi að auka gjöld skv. 1. lið 9. gr. þessa frv., eru að vinna fylgi. Þó að menn séu ekki orðnir mér alveg sammála, þá mjókkar nú bilið óðum eftir þá brtt. sem fram hefur komið frá Ólafi Ragnari Grímssyni á þskj. 674. Þar er gert ráð fyrir að gjaldið, sem um er að ræða, verði 1.2%, í frv. er gert ráð fyrir að það sé 1.5%, en við hv. 5. þm. Reykv. höfum lagt til á þskj. 607 að þetta gjald verði 1%, þ. e. a. s. að það verði óbreytt frá því sem það er nú.

Ég hef áður fært rök fyrir því, að þetta gjald eigi að vera óbreytt, og skal ekki fjölyrða frekar um það. En till. sú, sem fram er komin á þskj. 668, styður og þau rök sem ég hef áður fært fyrir minni till. Eins og ég hef áður getið um, þá er það svo að tekjuliður Rafmagnseftirlits ríkisins samkv. 3. tölul. 9. gr. hefur ekki verið raunhæfur. Þessar tekjur hafa ekki verið innheimtar, en samt hafa þessir tekjustofnar Rafmagnsveitna ríkisins dugað þolanlega. En þegar búið verður að samþ. brtt. Ólafs Ragnars Grímssonar á þskj. 668, sem ég mæli með að verði samþ., þá þykist ég vita að tekjuliður samkv. 3. tölul. 9. gr. verði hagnýttur. Þá er enn þá minni ástæða til þess að hækka tekjuliðinn samkv. 1. tölul. 9. gr. Ég mun því leggja áherslu á eins og áður og með sérstöku tilliti til brtt. á þskj. 668, að við samþ. það að gjaldið samkv. 1. tölul. hækki ekki. Mér sýnist einsætt að það sé óþarfi að samþ. þessa gjaldhækkun og það beri bara vitni um skattagleði, en ekki raunhæft mat á ástandinu.