10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4618 í B-deild Alþingistíðinda. (3760)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af ræðu hv. 1. þm. Reykn. leyfi ég mér að benda á 15. gr. þingskapa, þar sem segir að hvor þd. skuli kjósa fastanefndir til að fjalla um ákveðnar tegundir mála. Það er helsta ákvæði sem við er að styðjast í prentuðu máli varðandi það, hvernig vísa skuli þingmálum til nefnda, og ég get ekki fallist á lögskýringu hv. 1. þm. Reykn. né heldur á lögskýringu hæstv. fjmrh. Ég tel að enginn vafi sé á að frv. um aðstoð við þroskahefta á að ganga til félmn. Það er auðvitað alveg rétt að fjallað er um fjárhagsmálefni í þessu frv., en það hlýtur þó hver hv. þm. að sjá að meginefni frv. fjallar um félagsleg mál, aðstoð við þroskahefta. Við fjöllum að sjálfsögðu um fjöldamörg mál önnur, um ýmsa þætti í atvinnumálum og öðrum þjóðmálum, þar sem einnig er stofnað til fjárútláta fyrir ríkissjóð. Þegar kemur til þess að ræða þetta frekar sem fjármál er það fyrst og fremst verkefni fyrir fjvn. En ég held að sú þn. í d., sem á að öllu eðlilegu að fjalla um þetta mál, sé félmn., eins og gert var í Ed., og ég tel að aðrar lögskýringar séu rangar. (Gripið fram í.) Ég tek fúslega undir þau ummæli hv. 1. þm. Austurl. að d. úrskurði það, en þetta er álit mitt sem forseta.