10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4618 í B-deild Alþingistíðinda. (3761)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um að ýmislegt má bæta í sambandi við starfshætti og vinnu að gerð frv. En ég get ekki fallist á þá skoðun hans, að þetta frv. eigi að fara til skoðunar hjá fjárlaga- og hagsýslustofnun, af þeirri einföldu ástæðu að tekið er fram í frv. sjálfu hver upphæðin er, hvað það kostar. Í lögum um efnahagsmál o. fl. stendur að útreikningsstofnun, fjárlaga- og hagsýslustofnun, eigi að reikna kostnaðinn út. Það er sérstaklega tekið þar fram. Ég fellst því ekki á skoðun hæstv. fjmrh.

Auðvitað er rétt að frv. þetta þrengir ramma okkar, þ. e. a. s. við lendum fyrr upp undir 30% þakinu við gerð fjárlaga fyrir næsta ár vegna þess. En allir virðast vera sammála um að þetta séu allt saman nauðsynleg verkefni. Sumt af greiðslunum, hluti af þeim 1 milljarði sem hér er verið að ræða um, gengur til greiðslu á skólamannvirkjum, sérkennslustofnunum sem eru ákveðnar með öðrum lögum.

Vegna till. hæstv. fjmrh. um að þetta fari til fjh.- og viðskn. vil ég segja að ég get ekki fallist á þá till. Ég vil a. m. k. ekki flytja neina till. í þá átt vegna þess hve áliðið er þings og vegna þess hve það mundi tefja málið mikið. Ég stend þess vegna áfram að þeirri till. að frv. verði vísað til félmn.