10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3765)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Fyrir þessari hv. d. lá frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja sem félmn. þessarar d. fékk til meðferðar, ræddi rækilega og meiri hl. hennar mælti með samþykkt frv. Það var svo samþ. hér í d. og afgreitt Frá henni til Ed. Í hv. Ed. lá svo einnig fyrir stjfrv. um þroskahefta og ákvað félmn. þeirrar d. að steypa frv. saman í eitt.

Ég get út af fyrir sig fallist efnislega á þá breytingu sem Ed. hefur gert. Aðalatriðið er að fá tryggan tekjustofn til þessara nauðsynjamála. Hvort það er gert með því gjaldi af áfengi og tóbaki, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir, eða með lagaákvæði um að tiltekin upphæð, 1000 millj., skuli á ári hverju renna til þessara mála er ekki aðalatriðið. Hitt er aðalatriðið, að í lögum sé tryggt fjármagn til þessara framkvæmda. Ég mun því fylgja frv. eins og það liggur fyrir.

Frv. um þroskahefta, sem ekki hefur verið fyrr til meðferðar í þessari hv. d., heldur var lagt fyrir Ed., er ég samþykkur. Á síðasta kjörtímabili var rækilega rætt um þessi mál milli þeirra þriggja ráðh. sem málin heyrðu undir, þ. e. a. s. hæstv. menntmrh., heilbr.- og trmrh. og félmrh., og skal ég ekki rekja þær ítarlegu umr. sem áttu sér stað milli hinna þriggja ráðh, og landssambands þroskaheftra. Upp úr þessum viðræðum kom sú þriggja manna nefnd, sem ráðh. þrír skipuðu, og tel ég að nefndinni, sem einnig var skipuð fulltrúum frá landssambandi þroskaheftra hafi vel tekist. — Þetta er varðandi efnishlið málsins og ég fylgi þessu frv. eins og það kemur nú frá hv. Ed.

Varðandi það ágreiningsmál, sem hér hefur komið upp, til hvaða n. eigi að vísa þessu frv., tel ég alveg einsætt að frv. fái að fara til félmn. Frv. um Framkvæmdasjóð öryrkja var í félmn. þessarar hv. d., bæði frv. fóru til félmn. í Ed. og samkv. eðli málsins og venjum á þetta mál heima í félmn. Væri það, að ég ætla, ekki í samræmi við eðli máls og venjur að frv., sem fjallar um slíkt félagsmál eins og hér er um að ræða, þó að um fjármögnun sé þar rætt, færi ekki til félmn. Ég legg því eindregið til að hv. d. samþykki að vísa frv. til félmn.